Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

132% munur á gjöldum fyrir skóladagvistun

Verðlagseftirlit ASÍ gerði samanburð og kannaði breytingar á gjaldskrám fyrir skóladagvistun, síðdegishressingu og skólamat milli ára hjá 20 fjölmennustu sveitarfélögum landsins.

Mest hækkuðu samanlögð gjöld fyrir skóladagvistun, síðdegishressingu og skólamat milli ára (2021-2022) hjá Borgarbyggð, 13,7% og næst mest hjá Grindavíkurbæ, 5,3%. Gjöldin lækkuðu mest hjá Fjarðabyggð, 12%. Samanlögð gjöld hækkuðu hjá 16 af 20 sveitarfélögum, lækkuðu hjá 3 sveitarfélögum og stóðu í stað hjá einu sveitarfélagi.

Heildargjöld fyrir þjónustu fyrir eitt grunnskólabarn árið 2022, þ.e. gjöld fyrir skóladagvistun (3 tímar á dag, 5 daga vikunnar), síðdegishressingu og skólamat (áskrift), eru 132% hærri hjá Seltjarnarnesbæ þar sem þau eru hæst, 45.843 kr. en hjá Fjarðabyggð þar sem þau eru lægst, 19.782 kr.

Verð fyrir skólamat er hæst hjá Seltjarnarnesbæ, 11.781 kr. en lægst hjá Fjarðabyggð þar sem ekkert gjald er greitt fyrir skólamat. Seltjarnarnesbær er einnig með hæstu gjöldin fyrir skóladagvistun m. síðdegishressingu, 34.062 kr. og eru þau því 139% hærri en lægstu gjöldin hjá Suðurnesjabæ, 14.250 kr.

Gjöld fyrir skóladagvistun og skólamat hækka mest í Borgarbyggð en lækka mest í Fjarðarbyggð

Samanlögð gjöld fyrir grunnskólaþjónustu; skóladagvistun, síðdegishressingu og skólamat hækkuðu í 16 sveitarfélögum af 20 milli ára og námu hækkanirnar 2,4-13,8%. Mest hækkuðu heildargjöld fyrir grunnskólaþjónustu milli ára hjá Borgarbyggð, 13,8% eða um 4.326 kr. á mánuði. Næst mest hækkuðu gjöldin hjá Grindavíkurbæ, 5,3% en þar á eftir kemur Reykjavíkurborg með 5% hækkun.

Gjöldin lækkuðu hjá þremur sveitarfélögum, mest hjá Fjarðabyggð, 12%, næst mest hjá Akureyrarbæ, 7,3% og loks um 4,2% hjá Ísafjarðarbæ. Gjöldin stóðu í stað hjá Vestmannaeyjabæ milli ára. Sambærilegar breytingar voru á gjöldunum fyrir forgangshópa eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.

Gjöld fyrir skóladagvistun m. síðdegishressingu hækkuðu mest hjá Borgarbyggð, 21,9% en lækkuðu mest hjá Akureyrarbæ, 9,3%. Mest hækkuðu gjöld fyrir skólamat hjá Garðabæ, 7,6% en mest lækkuðu gjöldin hjá Fjarðabyggð sem felldi gjöldin niður en þau voru 3.150 kr. á síðasta ári.

Heildargjöld fyrir grunnskólaþjónustu hæst á Seltjarnarnesi en lægst í Fjarðarbyggð

Seltjarnarnesbær er með hæstu almennu gjöldin fyrir þjónustu fyrir grunnskólabörn og greiða foreldrar í sveitarfélaginu samanlagt 45.843 kr. fyrir skóladagvistun, síðdegishressingu og skólamat. Garðabær er með næst hæstu gjöldin, 41.755 kr. og Kópavogsbær með þriðju hæstu gjöldin, 37.453 kr. Lægstu gjöldin eru hjá Fjarðabyggð, 19.782 kr., næst lægstu gjöldin hjá Suðurnesjabæ, 19.782 kr. og þriðju lægstu gjöldin eru hjá Vestmannaeyjabæ, 26.291 kr. Verð á skólamat er hæst hjá Seltjarnarnesbæ, 11.340 kr. á meðan engin gjöld eru fyrir skólamat í Fjarðabyggð. Næst lægstu gjöldin fyrir skólamat eru hjá Suðurnesjabæ, 6.783 kr.

Forgangshópar greiða minnst hjá Suðurnesjabæ en mest hjá Grindavíkurbæ

Færri sveitarfélög bjóða upp á afslætti af skóladagvistunargjöldum fyrir forgangshópa en bjóða upp á afslætti af leikskólagjöldum. Þau sveitarfélög sem eru með lægri gjöld fyrir forgangshópa eru Kópavogsbær, Garðabær, Akranesbær, Seltjarnarnesbær, Ísafjarðarbær, Suðurnesjabær, Norðurþing og Hveragerðisbær. Misjafnt er hverjir tilheyra forgangshópum hjá hverju sveitarfélagi.

Hæstu heildargjöld fyrir grunnskólaþjónustu fyrir forgangshópa eru hjá Grindavíkurbæ, 36.431 kr. og eru þau 98% hærri en lægstu gjöld hjá Suðurnesjabæ sem eru 18.358 kr. Næst lægstu gjöldin eru hjá Fjarðarbyggð en næst hæstu gjöldin hjá Akureyrarbæ.

Gjöld fyrir grunnskólaþjónustu fyrir tvö börn 117% hærri á Seltjarnarnesi en í Fjarðarbyggð

Öll 20 sveitarfélögin eru með systkinaafslætti af gjöldum fyrir skóladagvistun. Samanlagður kostnaður fyrir skóladagvistun, síðdegishressingu og skólamat fyrir foreldra sem eru með tvö börn í grunnskóla er 117% hærri á Seltjarnesi þar sem hann er hæstur, 77.144 kr. en í Fjarðabyggð þar sem hann er lægstur, 35.516 kr.

Samanlögð gjöld fyrir foreldra með þrjú börn í grunnskóla eru einnig hæst á Seltjarnarnesi, 93.902 kr., 99% hærri en í Fjarðabyggð þar sem gjöldin eru lægst, 47.203 kr. Suðurnesjabær er með næst lægstu gjöldin fyrir tvö börn í grunnskóla en Reykjanesbær er með lægstu gjöldin ef börnin eru þrjú.

Kostnaður foreldra í Mosfellsbæ hækkar um 88% þegar barnið færist úr leikskóla yfir í grunnskóla

Heildarkostnaður foreldra fyrir fæði og vistun barna breytist í mörgum tilfellum þegar börnin færast milli skólastiga og fara úr leikskóla yfir í grunnskóla. Ef kostnaður við 8 tíma vistun m. fæði í leikskóla er borinn saman við kostnað við skóladagvistun m. síðdegishressingu og skólamat má sjá að kostnaður foreldra (almenn gjöld) lækkar í 16 af 20 sveitarfélögum þegar barn færist milli skólastiga. Mest hækka samanlögð gjöld hjá Seltjarnarnesbæ, um 36% eða 11.590 kr. en mest lækka gjöldin hjá Suðurnesjabæ, um 50% eða 19.790 kr. á mánuði.

Gjöldin hækka enn meira þegar börn fólks sem tilheyrir forgangshópum færast milli skólastiga. Gjöld fyrir forgangshópa hækka mest hjá Mosfellsbæ, um 88% eða 15.047 kr. og næst mest hjá Reykjavíkurborg, um 59% eða 10.615 kr. á mánuði. Gjöldin lækka mest hjá Suðurnesjabæ, um 45% eða 14.673 kr.

Um samantektina

Samanburðurinn var gerður á gjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat í 20 stærstu sveitarfélögum landsins. Til að einfalda samanburð milli sveitarfélaga miðar verðlagseftirlit ASÍ við mánaðargjald, 21 dag og vistun í þrjá tíma á dag eða 63 tíma í mánuði ásamt hressingu (x21) og hádegismat (x21). Miðað er við verð fyrir mataráskrift fyrir yngstu nemendur grunnskólanna. Ávaxtastund og mjólkuráskrift sem oft eru í boði eru ekki með í verðsamanburðinum. Ekki er tekið tillit til seðilgjalda eða annarra innheimtugjalda sem leggjast oft ofan á gjöldin.

Einungis er um verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði þjónustunnar.

Tengdar fréttir