Heildargjöld fyrir skóladagvistun og skólamat hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins hækkuðu í öllum tilvikum milli ára en voru alltaf um eða undir 2,5% nema í tilviki Seltjarnarness þar sem gjöldin hækkuðu mest, um 10,1%. Hækkunin nemur 3.875 kr. á mánuði eða 34.875 kr. á ári miðað við 9 mánaða vistun. Þess má geta að gjöldin á Seltjarnarnesi voru þau hæstu meðal þeirra 15 sveitarfélaga sem úttektin nær til fyrir breytinguna og eru það enn.
Minnstu hækkanir á gjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat voru í Mosfellsbæ.
Mikill munur er á heildargjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat milli sveitarfélaga en 68% eða 17.157 kr. munur er hæstu gjöldunum sem eru á Seltjarnarnesi, 42.315 kr. og þeim lægstu í Fjarðarbyggð, 25.158 kr. Munurinn á hæstu gjöldunum og þeim lægstu er því 154.413 kr. á ári.
10,1% hækkun á ári á skóladagsvistun og skólamat á Seltjarnarnesi
Í 14 af þeim 15 sveitarfélögum sem úttektin nær til, hækka heildargjöld fyrir skóladagvistun og skólamat á bilinu 0,7%-2,6%. Seltjarnarnes sker sig hins vegar úr með 10,1% hækkun. Þar hækkar skólamatur, skóladagvistun og síðdegishressingin. Næst mest hækka gjöldin í Borgarbyggð um 2,6%. Þar á eftir koma fimm sveitarfélög með 2,5% hækkun; Garðabær, Reykjavík, Reykjanesbær, Kópavogsbær og Sveitarfélagið Skagafirði.
Minnst hækka gjöldin í Mosfellsbæ, 0,7% og næst minnst i Vestmannaeyjum, 1,1%.
Seltjarnarnes með hæstu gjöldin en Fjarðarbyggð þau lægstu
Mikill munur er á heildargjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat hjá sveitarfélögunum. Hæstu gjöldin eru á Seltjarnarnesi, 42.315 kr. og eru þau 68% eða 17.157 kr. hærri en lægstu gjöldn sem má finna í Fjarðarbyggð, 25.158 kr. Á einu ári nemur munurinn á hæstu og lægstu gjöldunum því 154.413 kr. sé miðað við að gjöldin séu greidd í 9 mánuði. Næst hæstu gjöldin eru í Garðabæ, 39.060 kr. Akureyri kemur þar á eftir með þriðju hæstu gjöldin, 37.653 kr.
Næst lægstu gjöldin má finna í Reykjanesbæ, 25.973 kr. og þau þriðju lægstu í Vestmannaeyjum 26.291 kr.
Skólamáltíðir 76% dýrari hjá Ísafjarðarbæ en í Fjarðarbyggð
Mánaðargjald fyrir skólamáltíðir er hæst hjá Ísafjarðarbæ, 11.130 kr. sem er 76% hærra en í Fjarðarbyggð þar sem vrðið er lægst, 6.300 kr. Næst hæst eru gjöld fyrir skólamáltíðir á Seltjarnarnesi, 10.899 kr. en þau þriðju hæstu í Vestmannaeyjumm, 10.353 kr. Næst lægstu gjöldin er að finna á Akranesi, 7.959 kr en þau þriðju lægstu í Sveitarfélaginu Árborg, 8.001 kr.
Mest hækkaði skólamaturinn á Seltjarnarnesi, 10,3% en engar hækkanir voru á skólamatnum í Fjarðarbyggð og í Vestmannaeyjum. Önnur sveitarfélög hækkuðu skólamáltíðir á um 2,1%-2,6%.
Gjöld fyrir forgangshópa
Einungis fjögur sveitarfélög, Garðabær, Kópavogur, Akraneskaupstaður og Seltjarnarnes, bjóða upp á lægri gjöld fyrir forgangshópa en misjafnt er hvernig þeim er háttað.
Þannig er 30% afsláttur af dvalargjaldi fyrir einstæða foreldra, öryrkja og námsmenn í Kópavogi, í Garðabæ er 40% afsláttur fyrir einstæða foreldra og námsmenn, á Akranesi er 35% afsláttur af gjöldum fyrir einstæða foreldra og á Seltjarnarnesi 40% afsláttur fyrir námsmenn og einstæða foreldra.
Frítt fyrir systkini
Systkinaafslættir þar sem afsláttur er af gjöldum ef fleiri en eitt barn geta haft mikil áhrif á heildarútgjöld fjölskyldna fyrir skóladagvistun. Afslátturinn er misjafn eftir sveitarfélögum og eykst yfirleitt með fjölda barna. Lægsta systkinaafsláttinn er að finna í Reykjanesbæ þar sem 25% afsláttur er fyrir hvert barn eftir fyrsta barn en þann næst minnsta í Fjarðarbyggð þar sem 25% afsláttur eru fyrir annað barn og 50% fyrir það þriðja.
Mesti systkinaafslátturinn er í Reykjavík þar sem 100% afsláttur er af gjöldum fyrir hvert barn eftir fyrsta barn. Næst mesti afslátturinn, 50% fyrir annað barn og 100% fyrir þriðja barn er að finna í 4 sveitarfélögum, Skagafirði, Vestmannaeyjum, Seltjarnarnesi og Akureyri.
Tekið skal fram að systkinaafsláttur gildir í flestum tilfellum milli skólastiga.
Hér má nálgast töflu með öllum upplýsingum um gjöldin og breytingarnar á þeim
Um samantektina
Samanburðurinn var gerður á gjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat í 15 stærstu sveitarfélögum landsins auk þess sem breytingar á gjöldum frá 1. janúar 2019-1. janúar 2020 voru teknar saman. Til að einfalda samanburð milli sveitarfélaga miðar verðlagseftirlitið við mánaðargjald, 21 dag og vistun í þrjá tíma á dag eða 63 tíma í mánuði ásamt hressingu (x21) og hádegismat (x21). Ávaxtastund og mjólkuráskrift sem oft eru í boði eru ekki með í verðsamanburðinum. Ekki er tekið tillit til seðilgjalda eða annarra innheimtugjalda sem leggjast oft ofan á gjöldin.
Einungis er um verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði þjónustunnar.