Algengast var að 20-40% munur væri á hæsta og lægsta verði á spilum í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem gerð var 10. desember. Í krónum talið var munur á hæsta og lægsta verði oftast 1.500- 2.000 kr. en mesti verðmunur á spili var 3.000 kr. Verslunin Margt og mikið var oftast með hæsta verðið en A4 oftast með lægsta verðið en þessa dagana er afsláttur af spilum og púslum í A4. Verslunin Spilavinir var með mesta úrvalið.
Margt og mikið oftast með hæsta verðið á spilum
Verslunin Margt og mikið var oftast með hæsta verðið, í 10 tilfellum af 30, Spilavinir í 7 tilfellum og Kids coolshop í 6 tilfellum. A4 var oftast með lægsta verðið, í 20 tilfellum af 30. Í um helmingi tilfella eða 16 tilfellum af 30 var yfir 1.500 kr. munur á hæsta og lægsta verði á spilum í könnuninni en í 24 tilfellum var 30-70% munur á hæsta og lægsta verði. Mestur munur á hæsta og lægsta verði var á spilinu Skjaldbökuhlaupið, 120% eða 2.405 kr. en hæsta verðið var í Margt og Mikið, 4.400 kr. en lægsta verðið á Heimkaup.is, 2.290 kr. Í krónum talið var mestur verðmunur á íslensku sígildu útgáfunni af Scrabble, 3.191 kr. Lægst var verðið í Hagkaup, 6.799 kr. en hæsta verðið í Margt og mikið, 9.999 kr.
3.000 kr. munur á hæsta og lægsta verði af Ticket to ride
Mikill verðmunur var á ýmsum vinsælum spilum eins og Ticket to ride – Europe en munur á hæsta og lægsta verði á því spili var 52%. Í krónum talið nam munurinn 3.071 kr. Hæsta verðið var í Margt og mikið, 8.990 kr. en lægsta verðið í A4, 5.919 kr. Munur á hæsta og lægsta verði á íslenskri útgáfu af orðaspilinu Codenames, nam 61% eða 1.699 kr. Hæsta verðið var í Margt og mikið, 4.490 kr. en lægsta verðið í A4, 2.791 kr.
Þá var mikill munur á spilinu Partners + en munur á hæsta og lægsta verði á því spili var 41% eða 2.630 kr. Hæst var verðið á Heimkaup.is, 8.990 kr. en lægsta verðið í A4, 6.380 kr. Svipaða sögu var að segja af Útvegsspilinu sem var endurútgefið á árinu en munur á hæsta og lægsta verði af því spili nam 2.320 kr. eða 30%. Lægst var verðið í A4, 7.679 kr. en hæst var verðið í Kids Coolshop, 9.999 kr.
Mesta úrvalið í Spilavinum
Mesta úrvalið var í Spilavinum en þar fengust 28 spil af þeim 30 sem könnuð voru. Minnsta úrvalið var í Nexus en þar fengust 10 spil af þeim sem könnunin náði til. Nexus selja ekki íslenskar útgáfur af spilum en mörg spilanna í könnuninni voru annað hvort íslensk eða í íslenskri útgáfu. Það getur því verið að sömu spil séu til í öðrum útgáfum í verslununum á öðru verði. Einnig var tiltölulega lítið úrval í Kids Coolshop en 13 spil af 30 voru til þar. 24 spil fengust í Hagkaup, 22 í A4, 21 í Heimkaup, 20 í Elko og 19 í Margt og mikið.
Um könnunina
Í könnuninni voru verð á 30 spilum skráð niður. Ef afsláttur var gefinn upp af verði var hann tekinn til greina. Könnunin var framkvæmd á sama tíma í öllum verslunum en þær eru; Heimkaup.is, Kids Coolshop, Hagkaup, Elko, Spilavinir, Nexus, Margt og mikið og A4.
Í könnuninni er einungis gerður samanburður á verði en ekki lagt mat á gæði eða þjónustu viðkomandi verslana. Einhverjar verslanir bjóða t.d. upp á heimsendingu með sínum vörum en ekki er tekið tillit til þess í könnuninni. Sum spilanna voru einungis fáanleg á tveimur stöðum enda fáir staðir með mikið eða sama úrval af og spilum.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ