Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

5.860 kr. verðmunur á vörukörfu með fjórum jólavörum

Mikill verðmunur var á jólamat í verðkönnun ASÍ sem framkvæmd var þriðjudaginn 17. desember. Oft var um 1.500-2.000 kr. verðmunur á kílóverði af kjöti og getur því munað háum upphæðum þegar kaupa þarf mikið magn af kjöti og mögulega fleiri en eina tegund. Sem dæmi má nefna að 2.006 krónu eða 67% munur var á kílóverði af Kea hangilæri sem jafngildir 4.012 kr. verðmun ef keypt er tveggja kílóa læri.

Í mörgum tilfellum var einnig mikill munur á verði á öðrum algengum jólavörum eins og konfekti og ávöxtum og grænmeti. Má þar nefna að 1.730 kr. munur var á hæsta og lægsta verði á 2kg Quality Street konfekt dós.

Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 75 tilvikum af 122 en Iceland oftast með hæsta verðið í 57 tilvikum. Þess ber þó að geta að lægsta verðið á kjöti dreifðist á margar verslanir.

Mikill verðmunur á hangilærum og kalkúnabringum milli verslana
Eins og fyrr segir var 2.006 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði á úrbeinuðu hangilæri frá Kea. Lægst verðið var í Kjörbúðinni, 2.993 kr. en það hæsta hjá Iceland, 4.999 krónur og er það 67% verðmunur. Þá var allt að 130% munur á kílóverði af frosnum kalkúnabringum. Lægst var kílóverðið á kalkúnabringum í Nettó, 1.990 kr. en hæst hjá Heimkaupum 4.578 kr. sem gerir 2.588 kr. verðmun.
Verð á konfekt var einnig mjög mis hátt eftir verslunum en allt að 82% verðmunur var á 679 gr. Quality street konfekti. Lægsta verðið var hjá Bónus 1.098 kr. en það hæsta í Iceland 1.999 kr. en það gerir 901 kr. verðmun.

Í krónum talið var mesti verðmunurinn á 2 kg Quality street dós, 1.730 kr. sem jafngildir 76% verðmun. Lægsta verðið á henni var einnig í Bónus, 1.098 kr. en það hæsta í Iceland 3.999 krónur. Dósin var einni krónu dýrari í Krónunni en Bónus og kostaði þar 1.099 kr.
Sem dæmi um þann mikla verðmun sem getur verið á ávöxtum má nefna 147% mun á kílóverði af bláberjum. Lægsta verðið var í Fjarðarkaupum, 1.716 kr. en það hæsta hjá Heimkaupum 4.232 kr.

Sjá verðsamanburð á jólamatvöru í töflu

Allt að 5.860 kr. verðmunur á vörukörfu með fjórum vörum
Í mörgum tilfellum er verðmunur á vörum milli verslana það mikill að hann er fljótur að hlaupa á þúsundum króna ef nokkrar vörur er keyptar. Það getur því verið auðvelt að spara háar fjárhæðir, jafnvel þegar keyptar eru fáar vörur.
Ef keyptar eru fjórar algengar jólavörur, 2,5 kg hamborgarhryggur frá Kjarnafæði, fimmtán Kristjáns laufabrauðskökur, hátíðarsíld frá Ora og 2 kg. Quality Street konfekt dós er verðmunurinn 5.860 á milli Bónus þar sem verðið er lægst og Iceland þar sem verðið er hæst.

Bónus með lægstu verðin í 75 tilfellum af 122
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða í 75 tilvikum af 122 en Iceland oftast með það hæsta, í 56 tilvikum. Fjarðarkaup var næst oftast með lægsta verðið í 19 tilvikum en þar á eftir kom Krónan með lægsta verðið í 14 tilvikum.
Hagkaup var næst oftast með hæsta verðið í 24 tilvikum en Heimkaup kemur þar á eftir með hæsta verðið í 14 tilvikum og Super 1 í 13 tilvikum. Oftast var 20-40% munur á hæsta og lægsta verði eða í 50 tilvikum og næst oftast var 40-60% verðmunur eða í 25 tilvikum. Í 14 tilvikum var 60-80% verðmunur og í 11 tilvikum yfir 80% munur.

Algengt er að verslanir séu með ýmis tilboð á þessum árstíma og eru verðbreytingar tíðar. Neytendur eru því hvattir til að fylgjast vel með tilboðum og verðbreytingum á næstu dögum.

1.490 kr. sendingargjald bætist við hjá Heimkaup.is og Netto.is ef verslað er fyrir lægri upphæðir
Sendingargjald bætist við og hækkar verð hjá netverslunum ef verslað er fyrir lægri upphæðir. Verð í netverslunum er í þeim tilfellum ekki sambærilegt verði í öðrum verslunum.

Um könnunina
Í könnuninni var hilluverð á 122 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

Litakóðinn í töflunni (hlekkurinn) gerir hæstu verðin rauðlituð en þau lægstu grænlituð og staðsetur þannig verslanir í verði. Til að fá fram röðunina á verslununum eru frávik frá lægsta verði reiknuð og raðast verslanirnar því eftir því hversu langt þær eru frá þeirri verslun sem er með lægstu verðin. Þar sem verð vantar eru meðalverð notuð.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Smáratorgi, Krónunni Lindum, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup í Garðabæ, Kjörbúðinni Sandgerði, Super 1 Heimkaup.is og Netto.is. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Author

Tengdar fréttir