Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

8. mars – Greiðum konum mannsæmandi laun

Leiðréttum skakkt verðmætamat – Greiðum konum mannsæmandi laun
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er runninn upp en í rúma öld hefur 8. mars verið táknrænn fyrir baráttu kvenna fyrir bættum kjörum og lífsaðstæðum, og í seinni tíð fyrir baráttuna gegn ofbeldi og áreitni.

Baráttukonur fyrri tíma veltu steininum af stað og fóru fram á að vinnuframlag kvenna væri metið að verðleikum. Það er sorglegt til þess að hugsa að kröfur kvenna um allan heim í dag séu í grófum dráttum þær sömu og þær voru fyrir meira en öld síðan, það er að störf þeirra séu metin að verðleikum og að vinnuaðstæður séu mannsæmandi. Það er enn merkilegra þegar því er haldið fram að jafnrétti muni einhvern vegin koma af sjálfu sér með tíð og tíma, enda sýnir sagan okkur að það er rangt.

Lykilfólkið í faraldrinum
Á hátíðarstundum er stundum talað um mikilvægi starfsstétta þar sem konur eru í meirihluta, gjarnan nefndar kvennastéttir. Nú hefur kórónaveirufaraldurinn dregið fram í sviðsljósið hvaða fólk er sannkallað lykilstarfsfólk samfélagsins. Það kom kannski sumum á óvart en ómissandi starfsfólkið í okkar samfélagi er fólkið sem starfar í heilbrigðis- og félagsþjónustu, löggæslu, skólum, við ræstingar, í almenningssamgöngum, matvöruverslunum og heimsendingum.

Flest þessara starfa eiga tvennt sameiginlegt. Meirihluti þeirra sem sinnir þeim er konur og þetta eru almennt láglaunastörf. Heildarlaun þeirra eru lægri en laun sambærilegra stétta þar sem karlar eru í meirihluta. Það að þessir hópar séu á lægri launum en sambærilegir karlahópar er ákvörðun. Það er ekki eitthvað sem gerist af sjálfu sér. Þetta er ákvörðun stjórnvalda, ákvörðun atvinnurekenda og ákvörðun samfélags í heild sinni. Kannski sprettur þessi ákvörðun af aðgerðaleysi eða skökku verðmætamati samfélagsins, en hún er engu að síður ákvörðun. Þetta óréttlæti veldur því að stór hluti kvenna á vinnumarkaði nýtur ekki launa í samræmi við framlag.

Hvaða fólk er það sem vinnur þessi störf? Þetta eru til dæmis konurnar sem hjúkra okkur þegar við veikjumst, annast fólkið okkur á ævikvöldinu, aðstoða fólk með fötlun, starfa með og kenna börnum og ungmennum og þrífa vinnustaðina okkar. Þessar konur þurfa að lifa með þeirri staðreynd að samfélagið vanmetur kerfisbundið hversu krefjandi og mikilvæg störf þeirra eru.

Störfin eiga það sameiginlegt að þar vinna konur í nánum persónulegum samskiptum við fólk, sumt hvert í mjög viðkvæmum aðstæðum eða ástandi. Stundum með fólki sem ræður ekki sínum gjörðum, áreitir þær kynferðislega eða beitir annarskonar ofbeldi. Þessar konur búa við þá kröfu að þær eigi að hlaupa hratt þó að eitt af því mikilvægasta sem þær geri í sínu starfi sé að gefa fólki tíma, sýna því hlýju, alúð og samkennd. Þær búa við lítinn sveigjanleika í störfum, geta ekki skroppið frá þó ástæður séu brýnar og hafa stundum ekki tíma til að grípa sér matarbita. Möguleikar á framþróun í starfi eru oft litlir og þar með möguleikar á að bæta kjörin.

Eftir að vinnudegi þessara kvenna lýkur liggja ekki eftir þær áþreifanleg verðmæti. Þær byggja ekki hús, leggja ekki vegi og ávaxta ekki peninga, en án þeirra framlags til verðmætasköpunar myndi samfélagið okkar einfaldlega ekki ganga upp. Það sjáum við skýrar en nokkru sinni vegna heimsfaraldursins.

Tökum á grundvallar misréttinu
Síðustu ár hefur ýmislegt áunnist í jafnréttismálum en áherslan hefur verið á að leiðrétta launamun innan vinnustaða, til dæmis með jafnlaunastaðlinum. Þó það sé góðra gjalda vert er jafnlaunastaðallinn ekki verkfæri sem tekur á því grundvallar misrétti sem viðgengst í samfélaginu, hann leiðréttir ekki skakkt verðmætamat kvennastétta. Verkefnið okkar er ekki bara að tryggja að konur og karlar í sömu störfum fái sömu laun. Við verðum að endurmeta frá grunni mikilvægi starfa sem stórar kvennastéttir sinna. Það er augljóst öllum sem það vilja sjá að kvennastéttirnar búa við verri kjör en aðrar stéttir með sambærilegt álag, menntun og reynslu og það sættum við okkur ekki við lengur.

Það er engin ein ástæða fyrir því að vinnumarkaðurinn er kynskiptur. Ein af ástæðunum eru hugmyndir okkar um hvað konur og karlar geti gert og eigi að vera að gera. Þær skoðanir byggja flestar ómeðvitað á viðhorfinu sem ríkti í samfélagi þar karlar voru fyrirvinnur, þar sem konur máttu ekki mennta sig og máttu ekki kjósa, þegar konur áttu að sinna heimili og börnum í stað þess að vera á vinnumarkaði eins og karlarnir. Áhugasviðið hefur líka áhrif og sú staðreynd að konur bera enn meginábyrgðina á uppeldi barna og heimilishaldi.
Þetta eru ekki viðhorf sem breytast af sjálfu sér. Við þurfum að breyta þeim og það gerum við með því að móta skýra stefnu um hvernig það verður gert og fylgja henni eftir með aðgerðum.

Viðurkennum misréttið og breytum samfélaginu
Sterk samfélög ráða við það verkefni að endurskoða fyrri ákvarðanir og rétta kúrsinn af þegar fólk áttar sig á því að við erum ekki á réttri leið. Við getum ákveðið að stokka upp úrelt verðmætamat sem varð til í samfélagi fyrri tíma og gefa upp á nýtt. Við getum sem samfélag ákveðið að meta færni, ábyrgð, starfsskilyrði og álag ólíkra starfa óháð því hvað starfað er við.
Heimsfaraldurinn hefur varpað skýru ljósi á mikilvægi starfa stórra kvennastétta. Nýtum þessa reynslu til nauðsynlegra umbóta. Horfumst í augu við misrétti á vinnumarkaði og gerum þær breytingar sem þarf til að við getum kallað okkur nútímalegt samfélag. Við skorum á ykkur öll að taka þátt í því að rétta samfélagsgerðina okkar við. Vinnum öll að jafnrétti, saman.

Drífa Snædal forseti ASÍ
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB
Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM

Author

Tengdar fréttir