Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85% milli mánaða samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru í byrjun vikunnar. Verðbólga á ársgrundvelli hækkar um 0,3 prósentur og mælist 9,9% í janúar. Sé horft framhjá áhrifum húsnæðis hækkaði vísitalan um 0,88% milli mánaða og mælist verðbólga þá 8,8%. Þetta er meðal þess sem lesa má um í nýju mánaðaryfirliti ASÍ.
Mikil áhrif skatta og opinberra gjalda
Hækkun vísitölunnar í janúar skýrist að stórum hluta af hækkunum skatta og opinberra gjalda sem tóku gildi á áramótum. Má þar nefna breytingar á vörugjöldum og ívilnunum vegna bílakaupa sem leiddu til 9,8% hækkunar á verði nýrra bíla (0,52% vísitöluáhrif). Þar til viðbótar hækkaði áfengi og tóbak um 5,5% (0,13%). Aðrir liðir sem vógu þungt í hækkun vísitölunnar voru 2% hækkun á verði matar og drykkjarvara (0,3%) sem að miklu leyti skýrðist af verðhækkunum á mjólkurvörum.
Algengt er að verðlag lækki í janúar sökum útsöluáhrifa, en í janúar voru áhrif hækkana yfirsterkari áhrifum sem gjarnan verða af útsölum. Engu að síður mældust lækkanir á mörgum liðum, t.d. lækkaði verð á fatnaði og skóm um 8,4% (-0,29% vísitöluáhrif), á húsgögnum og heimilistækjum um 4,4% (-0,1%), á raftækjum um 6,2% (-0,12%). Þar til viðbótar lækkaði verð á flugfargjöldum milli mánaða.
Húsnæði og bensín ráðandi í ársverðbólgu
Á ársgrundvelli mælist 9,9% verðbólga í janúar og hækkar því að nýju eftir að hafa náð hápunkti um mitt síðasta sumar. Þrátt fyrir að opinber gjöld og skattar vegi þungt í mánaðarbreytingu vísitölunnar eru það að mestu leyti einskiptishækkanir sem taka gildi í janúar ár hvert. Sé horft á ársverðbólgu eru aðrir þættir sem vega mun þyngra, má þar nefna áhrif húsnæðis.
Á ársgrundvelli hefur opinber þjónusta hækkað um 7,5% (4,22% milli mánaða) eða minna en almenn verðbólga. Til samanburðar hefur dagvara hækkað um 10% milli ára (1,9% í janúar). Dregið hefur úr hækkunum í þeim liðum sem drifið hafa verðbólgu undanfarin misseri. Þannig hækkaði eldsneytisverð um 0,71% milli mánaða en hefur hækkað um 24% milli ára. Sama á við um hækkun á húsnæðiskostnað sem hækkaði um 0,45% milli mánaða en hefur hækkað um 15,9% milli ára.
Forsendur fyrir hjöðnun verðbólgu
Þrátt fyrir aukna verðbólgu í upphafi árs eru forsendur fyrir að draga muni úr verðbólgu með hækkandi sólu. Í febrúar munu útsöluáhrif ganga til baka en mánuðina eftir er líklegt að viðsnúningur á húsnæðismarkaði muni hafa nokkur áhrif til hjöðnunar verðbólgu. Húsnæðisverð hækkaði umtalsvert á fyrri hluta síðasta árs, eða um 16% á fyrstu sex mánuðum ársins. Áhrif þessa komu fram í 13% hækkun á reiknaðri húsaleigu í vísitölu neysluverðs á sama tímabili.
Framlag reiknaðrar húsaleigu til hækkunar vísitölunnar var einungis 0,09 í janúar og skýrðist það af auknum fjármagnskostnaði en ekki vegna hækkun eignaverðs. Viðsnúningur er merkjanlegur á húsnæðismarkaði en húsnæðisverð lækkaði í nóvember og desember. Verulega hefur dregið úr umsvifum á húsnæðismarkaði sem birtist í minni veltu á húsnæðismarkaði, lengri sölutíma eigna og fækkun viðskipta yfir ásettu verði.
Rekja má hægari gang á húsnæðismarkaði til aðgerða Seðlabankans, annars vegar hækkunar stýrivaxta og hins vegar takmörkunar á útlánum og þrengri lántökuskilyrðum. Hátt eignaverð og mikil hækkun stýrivaxta hafa gert innkomu fyrstu kaupenda á húsnæðismarkað erfiða og takmarkað getu heimila til aukinnar skuldsetningar. Þannig hefur greiðslubyrði óverðtryggðra lána hækkað hratt og er um 350 þúsund krónur á óverðtryggðu láni til kaupa á meðaleign á höfuðborgarsvæðinu m.v. 80% skuldsetningu. Greiðslubyrði af sama láni væri um 200 þúsund væri það verðtryggt. Þessi þróun hefur ýtt undir töku verðtryggðra lána.
Til viðbótar við breyttar horfur á húsnæðismarkaði er einnig útlit fyrir að alþjóðlegt hrávöruverð hafi náð hápunkti, en undanfarna mánuði hefur verð á hrávöru farið lækkandi. Í desember mældist olíuverð um þriðjungi lægra en í júní ásamt því að matvara, landbúnaðarvara, iðnaðarvara og málmar höfðu lækkað um á bilinu 5-18% í verði.