Verðlagseftirlit ASÍ hefur kannað þær breytingar sem orðið hafa á álagningu fasteignagjalda og útsvars milli áranna 2020 og 2021 í 16 fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Fasteignagjöld eru stærsti tekjuliður sveitarfélaga á ári á eftir útsvari.
Álagningarhlutföll fasteignagjalda standa í stað milli ára í flestum sveitarfélögum en fasteigna- og lóðamat hækkar á mörgum stöðum og því hækka fasteignagjöld í mörgum tilfellum. Sum sveitarfélög brugðust þó við miklum hækkunum á fasteigna- og lóðamati og lækkuðu álagningarhlutföll. Sorphirðugjöld hækkuðu í 13 sveitarfélögum og í sumum tilfellum um tugi prósenta en mest hækkuðu gjöldin í Mosfellsbæ, 38%. Mest hækka samanlögð fasteignagjöld í fjölbýli í krónum talið á Ísafirði, eldri byggð en töluverðar hækkanir voru einnig í Mosfellsbæ, Borgarnesi og á Egilstöðum. Í sérbýli hækkuðu samanlögð fasteignagjöld mest á Sauðárkróki en fasteigna- og lóðamat hækkaði þar einnig mikið. Mest lækkuðu fasteignagjöld í fjölbýli í Njarðvík, Reykjanesbæ en töluverðar lækkanir má einnig sjá á Reyðarfirði, Fjarðarbyggð. Litlar lækkanir voru á fasteignagjöldum í sérbýli. Útsvarsprósentur sveitarfélaganna stóðu í stað í öllum 16 sveitarfélögunum milli ára.
Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðaleigu, fráveitugjöld, vatnsgjöld og sorphirðugjöld. Þau eru í flestum tilfellum reiknuð sem hlutfall af fasteigna- eða lóðamati nema sorphirðugjöld sem eru föst krónutala. Breytingar á fasteigna- og lóðamati hafa því áhrif á hina endanlegu álagningu fasteignagjalda og er í samburðinum hér tekið tillit til þess. Þá eru vatnsgjöld og fráveitugjöld í sumum tilfellum reiknuð sem föst krónutala auk gjalds á hvern fermetra íbúðarhúsnæðis. Til að gefa betri mynd af fasteignagjöldum og breytingum á þeim hafa breytingar á gjöldunum verið reiknaðar í krónum miðað við meðal fasteigna- og lóðamat í ákveðnum hverfum hjá þeim sveitarfélögum sem úttektin nær til.
Fasteignagjöld í fjölbýli hækka mest á Ísafirði
Þegar allir liðir fasteignagjalda hafa verið lagðir saman og upphæðir fasteignagjalda árið 2020 eru bornar saman við upphæðir árið 2021 má sjá að fasteignagjöld í fjölbýli hækka mest á Ísafirði, eldri byggð, bæði fyrir 75 fm, 100 fm og 120 fm og nema hækkanirnar 25.388- 40.401 kr. eins og má sjá í töflu 1. hér að neðan. Miklar hækkanir urðu á fasteigna- og lóðamati í sveitarfélaginu en álagningarhlutföll sveitarfélagsins stóðu í stað að undanskildu álagningarhlutfalli á fasteignaskatt sem lækkaði um 10,4%. Þá hækkuðu sorphirðugjöld um 15% í sveitarfélaginu. Næst mest hækkuðu samanlögð fasteignagjöld í 75 fm fjölbýli í Mosfellsbæjarhverfi í Mosfellsbæ sem má rekja til hækkunar á fasteigna- og lóðamati en öll álagningarhlutföll stóðu í stað hjá sveitarfélaginu. Þá hækkuðu sorphirðugjöld í sveitarfélaginu um 38% milli ára.
Svipaða sögu er að segja um fasteignagjöld fyrir 100 fm fjölbýli í Borgarnesi sem hækka næst mest en það má rekja til hækkunar á fasteigna- og lóðamati á meðan álagningarprósentur stóðu í stað. Þá hækkuðu vatnsgjöld um 1,8% og fráveitugjöld um 1,9% en þau eru ekki reiknuð út frá fasteignamati heldur samanstanda gjöldin af fastri upphæð auk gjalds á hvern fermetra. Sorphirðugjöld í sveitarfélaginu hækkuðu einnig um 16,5%.
Í töflu nr. 1 má sjá breytingar á fasteignagjöldum milli ára í krónum en í töflu nr. 2. má sjá álagningarhlutföll sveitarfélaganna á fasteignaskatt, lóðarleigu, vatnsgjöld, fráveitugjöld og sorphirðugjöld, breytingar á álagningarhlutföllum milli ára, breytingar á á fasteigna- og lóðamati milli ára og samtals breytingu á fasteignagjöldum að teknu tilliti til breytinga á fasteigna- og lóðamati. Í töflu 3. má síðan sjá samanlögð fasteignagjöld árið 2020 og 2021.
Gjöld fyrir 120 fm fjölbýli hækkuðu næst mest á Egilstöðum, Múlaþingi. Fasteignamat hækkaði þó nokkuð fyrir fjölbýli á Egilstöðum en álagningarhlutföll fasteignagjalda í Múlaþingi stóðu í stað milli ára. Vatnsgjöld hækkuðu einnig um 2,4% en þau eru ekki reiknuð út frá fasteignamati. Þá hækkuðu sorphirðugjöld um 2,5%.
Fasteignagjöld í fjölbýli lækkuðu mest í Njarðvík en þar lækkaði fasteignamat í fjölbýli mikið milli ára og álagningarhlutföll í Reykjanesbæ stóðu í stað milli ára. Vatnsgjöld hækkuðu um 4,1% hjá sveitarfélaginu en þau eru innheimt af Veitum sem fast gjald auk gjalds pr. fm og þá hækkuðu sorphirðugjöld í Reykjanesbæ um 2,5%. Næst mest lækkuðu samanlögð fasteignagjöld í fjölbýli á Reyðarfirði sem má rekja til lækkunar á fasteigna- og lóðamati. Öll álagningarhlutföll stóðu í stað milli ára í Fjarðarbyggð en 2,4% hækkun var á sorphirðugjöldum.
Fasteignagjöld fyrir sérbýli hækka mest á Sauðárkróki
Í sérbýli hækka samanlögð fasteignagjöld fyrir 150, 175 og 200 fm eignir mest á Sauðárkróki. Miklar hækkanir voru á fasteigna- og lóðamati á Sauðárkróki en álagningarhlutföll sveitarfélagsins stóðu í stað, nema í tilfelli fasteignaskatts sem lækkaði um 10,4%. Þá hækkuðu sorphirðugjöld um 10% hjá sveitarfélaginu. Næst mest hækka samanlögð fasteignagjöld fyrir 150 fm sérbýli á Egilstöðum en fyrir 175 og 200 fm sérbýli hækkuðu gjöldin næst mest í eldri byggð á Ísafirði og eru hækkanirnar tilkomnar af sömu ástæðum og hækkanir á fasteignagjöldum í fjölbýli eins og var rakið hér að ofan.
Fasteignaskattar hækka mest í sérbýli á Egilsstöðum en mest í fjölbýli á Ísafirði
Álagningarhlutfall fasteignaskatts hækkaði einungis í einu sveitarfélagi milli ára, á Akranesi um 4,4%, lækkaði í fimm sveitarfélögum og stóð í stað hjá öðrum sveitarfélögum. Mest lækkaði álagningin hjá Ísafjarðarbæ, 10,4% og næst mest hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, 5%. Þrátt fyrir að álagningarhlutfall sveitarfélaganna standi í flestum tilfellum í stað milli ára hækka fasteignaskattar í mörgum tilfellum vegna hækkunar á fasteignamati eins og sjá má í töflu 2. Eftir að tillit hefur verið tekið til breytinga á fasteignamati má sjá að fasteignaskattur í fjölbýli hækkar mest hjá Ísafjarðarbæ, 7,4% en næst mest í Borgarnesi og á Egilstöðum eða um 7% í hvoru sveitarfélagi fyrir sig. Í sérbýli hækka fasteignaskattar mest á Egilsstöðum, 10,1% en næst mest á Sauðárkróki, Sveitarfélaginu Skagafirði, 9,2%. Mest lækka fasteignaskattar í fjölbýli í Njarðvík, Reykjanesbæ, 15,4% en í sérbýli lækka þeir mest í Seljahverfi, Reykjavík, 2,5%.
Miklar lækkanir á lóðaleigu í fjölbýli í Njarðvík og á Reyðarfirði
Álagningarhlutföll sveitarfélaganna á lóðaleigu standa í stað í öllum tilfellum. Þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á lóðarmati má sjá að lóðaleiga hækkar mest í fjölbýli á Ísafirði, 11,7% og einnig mest í sérbýli á Ísafirði, 20,9%. Lóðaleiga fyrir fjölbýli lækkar mest í Njarðvík, Reykjanesbæ, 17,1% en eins og fyrr sagði voru miklar lækkanir á bæði fasteigna- og lóðamati í fjölbýli í Reykjanesbæ. Lóðaleiga fyrir sérbýli lækkaði mest í miðbæ og seljahverfi í Reykjavík, 3,5%. Sjá töflu 2.
Allt að 38% hækkun á sorphirðugjöldum milli ára
Miklar hækkanir eru á sorphirðugjöldum í mörgum sveitarfélögum en þar sem sorphirðugjöld eru jafnhá fyrir mismunandi húsnæðisstærðir leiðir hækkun á sorphirðugjöldum til hlutfallslega meiri hækkunar á heildarfasteignagjöldum hjá eigendum minni íbúða/húsnæðis. Mest hækka sorphirðugjöld í Mosfellsbæ milli ára, 38% og næst mest hjá Kópavogsbæ, 20,4% og litlu minna hjá Reykjavíkurborg, 19,9%. Gjöldin standa í stað hjá Sveitarfélaginu Árborg, og Seltjarnarnesbæ en hækka um 0,5% hjá Vestmannaeyjabæ.
Hafnarfjarðarbær lækkar álagningarhlutfall á vatnsgjöld
Álagning sveitarfélaganna vegna vatnsgjalda lækka í einu sveitarfélagi, Hafnarfjarðarbæ, um 3,7% en standa í öðrum sveitarfélögum sem reikna vatnsgjöld sem hlutfall af lóðamati. Í sjö sveitarfélögum eru vatnsgjöld reiknuð sem fast gjald auk gjalds á hvern fermetra húsnæðis. Þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á fasteignamati má sjá að vatnsgjöld hækka mest á Ísafirði, 20% í fjölbýli og sérbýli. Vatnsgjöld lækkuðu mest í fjölbýli á Reyðarfirði, Fjarðarbyggð, 9,8% en mest í sérbýli í Hafnarfirði (hverfi 600), um 2,2%.
20% hækkanir á fráveitugjöldum í Eldri byggð, Ísafjarðarbæ
Hafnarfjarðarbær er einnig eina sveitarfélagið sem lækkar álagningarhlutfall fráveitugjalda milli ára og nemur lækkunin 3,3% en í öðrum sveitarfélögum þar sem fráveitugjöldin eru reiknuð sem hlutfall af fasteignamati standa álagningarprósentur í stað. Eftir að tillit hefur verið tekið til hækkana á fasteignamati má sjá að fráveitugjöld hækka mest í fjölbýli og í sérbýli á Ísafirði í Eldri byggð, 20%. Næst mest hækka gjöldin í fjölbýli á Akureyri, 11% en næst mest í sérbýli á Sauðárkróki, 15%. Fráveitugjöld lækka mest í fjölbýli í Njarðvík Reykjanesbæ, 15,4% en mest í sérbýli í Hafnarfjarðarhverfi, í Hafnarfirði, 1,8%. Sjá töflu 2.
Um úttektina
Fasteignagjöld eru ekki sérlega gegnsæ og erfitt getur verið að átta sig á hver munurinn er á fasteignagjöldum milli sveitarfélaga vegna mishárra álagningarhlutfalla og mismunar á fasteigna- og lóðamati. Álagning sveitarfélaganna er til að mynda töluvert hærri úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu en þar er fasteignamat einnig mun lægra. Vegna þessa reiknaði Verðlagseftirlit ASÍ gjöldin út í heild sinni miðað við fasteigna- og lóðamat í hverfum í sveitarfélögunum í úttektinni og miðað við mismunandi íbúðastærðir. Með þessum hætti má sjá hver munurinn á fasteignagjöldum er hjá fólki sem býr í sömu stærð af húsnæði. Við útreikningana er stuðst við gögn frá Þjóðskrá um meðalfasteignamat árið 2020 og 2021. Fasteignagjöld voru reiknuð fyrir íbúðir í ákveðnum stærðarflokki og eiga fasteignagjöldin í dæmunum hér því við um fleiri íbúðir en þær sem eru af þessari stærð. Þannig eru meðal fasteignagjöld fyrir 100 fm íbúð t.d. reiknuð af öllum 95-105 fm íbúðum í ákveðnu bæjarfélagi eða hverfi og fasteignagjöld fyrir 200 fm sérbýli er meðaltal af íbúðum á stærðarbilinu 195-205 fm.