Nýgerður vinnustaðasamningur AFLs og Rafiðnaðarsambandsins við ALCOA Fjarðaál voru samþykktir með miklum meirihluta atkvæða. Atkvæði félagsmanna voru talin úr einum potti og fór atkvæðagreiðslan sem hér segir
Á kjörskrá voru 457 og greiddu 331 atkvæði eða 72,43%
Já sögðu 310 eða 93,66% greiddra atkvæða, nei sögðu 15 eða 4,53% og auðir og ógild atkvæði voru 6 eða 1,81% atkvæða.
Þetta er talsvert yfir væntingum forystu félaganna þrátt fyrir að menn hafi skynjað almenna ánægju með samningana og átt von á því að þeir yrðu samþykktir. Fjölmenn samninganefnd félaganna kom að gerð samninganna og hafa samningamenn einnig verið drjúgir í að kynna samninginn fyrir samstarfsfólki hjá ALCOA Fjarðaál. Eiga því samninganefndarmenn þakkir skyldar fyrir vel unnin störf í samningaferlinu og að því loknu. Þá ber að þakka framlag ríkissáttasemjara sem hélt samningafundi á Austurlandi.
Samningaferlið var langt og þungt í vöfum. Samningar hafa verið lausir síðan 1. mars í fyrra og voru samningaviðræður lengi í gang – m.a. vegna Covid. Þá varð ágreiningur um túlkun á orlofsrétti vaktavinnumanna eftir vinnutímastyttingu síðustu kjarasamninga og endaði sú deila fyrir Félagsdómi þar sem félögin töpuðu málinu. Loks vísuðu félögin deilunni til ríkissáttasemjara í desember og fóru þá hlutirnir að gerast hraðar.