Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Ályktun frá 8. Þingi ASÍ-UNG

Ályktun frá 8. Þingi ASÍ-UNG sem fram fór á Reykjavík Hotel Natura 16. September 2022.

Yfirskrift þingsins var: „Fyrirmyndir komandi kynslóða.” Stjórn ASÍ-UNG þakkar öllum þeim sem komu að þinginu með einum eða öðrum hætti.

Undir yfirskriftinni „Fyrirmyndir komandi kynslóða” voru umræðuefnin þrjú:

  • Hvað gerir verkalýðshreyfinguna að aðlaðandi starfsvettvangi fyrir ungt fólk?
  • Hverju þarf að breyta í samskiptum innan verkalýðshreyfingarinnar?
  • Hvernig tryggjum við aðkomu ólíkra hópa að málefnum verkalýðshreyfingarinnar?

Það er samhljóma álit þingsins að mikilvægt er að gera verkalýðshreyfinguna að aðlaðandi starfsvettvangi fyrir ungt fólk. Unga fólkið kemur til með að taka við keflinu og þurfum við í millitíðinni að undirbúa og efla fólk til þátttöku. Leita þarf fjölbreyttra leiða til að fá ungt fólk til starfa innan verkalýðshreyfingarinnar og byggja ofan á þann áhuga sem nú þegar er til staðar.

Margt má betur fara í samskiptum innan verkalýðshreyfingarinnar. Við sem ungmenni innan hreyfingarinnar viljum að á okkur sé hlustað, tekið sé mark á skoðunum okkar og þær virtar. Þetta á ekki einungis við um ungmenni innan hreyfingarinnar, heldur hreyfinguna alla. Í öllum samskiptum eigum við að tileinka okkur virðingu. Eilíf átök geta verið og eru fráhrindandi. Það álit þingsins að meira púður geti farið í að beina spjótum okkur að andstæðingum okkar fremur en samherjum.

8. Þing ASÍ-UNG haldið 16. september 2022 telur mikilvægt að tryggð sé aðkoma ólíkra hópa að málefnum verkalýðshreyfingarinnar. Sannarlegur árangur næst þegar við erum samheldin og ólíkar raddir fá að heyrast, með það að markmiði að farsæl niðurstaða náist.

8. Þing ASÍ-UNG haldið 16. september 2022 telur á komandi kjaravetri afar mikilvægt að fulltrúar samninganefnda hafi í huga góð samskipti og sannarlegan fjölbreytileika. Gríðarlegur vandi steðjar að ungu fólki á vinnumarkaði. Vextir hækka, afborganir hækka, leiga hækkar, vöruverð hækkar – en eftir sitja launakjör. Þing ASÍ-UNG leggur áherslu á að samninganefndir komi samheldnar til kjaraviðræðna og berjist ötullega fyrir bættum kjörum launafólks, ungra sem eldri.

Author

Tengdar fréttir