Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Ályktun frá fundi formanna SGS

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands, 8. maí 2020. Skorar á Ríkið, Samband Íslenskra sveitarfélaga og aðra atvinnurekendur að ganga þegar til saminga við þau félög sem ósamið er við. Það er með öllu óásættanlegt að launafólk sé samningslaust mánuðum saman og ólíðandi að ekki sé gengið að réttmætum kröfum né staðið við fyrri yfirlýsingar og fyrirheit.
Einnig er minnt á stuðningsyfirlýsingu Miðstjórnar ASÍ við verkfall Eflingar og áskorun Verkalýðsfélags Vestfirðinga um kjaradeilu lögreglumanna.

Yfirlýsing Miðstjórnar ASÍ
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við verkfall Eflingar sem er nú hafið í Kópavogi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Hveragerði og sveitarfélaginu Ölfus.

Samningar Eflingarfélaga eru lykilþáttur í að bæta kjör þeirra sem lægst hafa launin í íslensku samfélagi. Samningar í fyrrnefndum sveitarfélögum hafa verið lausir í rúmt ár og viðræður hafa engum árangri skilað. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur neitað að gera kjarasamning við Eflingu sambærilegan þeim sem Ríkið, Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir hafa þegar gert. Boðun verkfalls var samþykkt með 90% atkvæða þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu.

Miðstjórn ASÍ hvetur félagsmenn allra aðildarsamtaka sinna og annað launafólk til að virða aðgerðir Eflingar og stuðla að því að verkfallsbrot verði ekki framin.

Áskorun stjórnar Verkalýðsfélags Vestfirðinga um kjaradeilu lögreglumanna við ríkið

Sú staða sem er uppi í samningaviðræðum lögreglumanna við ríkisvaldið er með öllu óboðleg og ríkisvaldinu ekki til sóma. Lögreglumenn eru með lausa samninga og enn hefur forystufólk ríkisstjórnarinnar ekki staðið við yfirlýsingar sem lögreglumönnum hefur verið lofað. Staða þessi er mjög alvarleg, sér í lagi þar sem lögreglumenn njóta ekki þeirra sjálfsögðu mannréttinda að hafa verkfallsrétt.

Flestum er kunnugt hversu mikilvægu hlutverki lögreglumenn gegna í samfélaginu, þeirra störf eru oft á tíðum unnin við hættulegar og krefjandi aðstæður á vettvangi slysa, glæpa og náttúruhamfara. Þegar við höldum okkur heima, þá eru lögreglumenn sendir á vettvang.
Í Covid faraldrinum sem nú gengur yfir hefur mikið mætt á lögreglumönnum og þeir berskjaldaðir fyrir þeirri vá vegna nálægðar við skjólstæðinga sína. Þær aðstæður sem lögreglumenn vinna við og sú vinna sem þeir inna af hendi alla daga skipar þeim klárlega í Framlínusveit Íslands.

Af fréttum undangengnar vikur hefur sú staða legið í loftinu að algjört áhugaleysi ríki í herbúðum samninganefndar ríkisins. Mögulega gæti þar spilað stórt hlutverk að lögreglan hefur ekkert verkfallsvopn í að grípa. Að sýna fólki slíkt virðingaleysi er með öllu óskiljanlegt ef rétt reynist.

Verkalýðsfélag Vestfirðinga skorar því á ríkisstjórn Íslands og samninganefnd ríkisins við Landssamband Lögreglumanna að setjast strax að samningaborðinu og sýna lögreglumönnum þann sóma sem þeir sannarlega eiga skilið í störfum sínum fyrir land og þjóð .
Að lokum hvetur félagið önnur stéttarfélög til að sýna lögreglumönnum stuðning í baráttu þeirra fyrir leiðréttingu á kjörum sínum.

Author

Tengdar fréttir