Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) lýsir yfir fullum stuðningi við sjómenn í kjaraviðræðum þeirra við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Framganga útgerðarinnar í viðræðum við sjómenn vekur furðu og er með öllu óásættanleg.
Þann 6. september slitu sjómenn kjaraviðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hjá ríkissáttasemjara. Sýnt var að vilji stórútgerðarinnar til að finna lausn á kjaradeilunni var ekki fyrir hendi. Sérhverri tillögu sjómanna var svarað með gagntilboðum sem voru með öllu óaðgengileg.
Steininn tók úr þegar útgerðin lýsti sig ekki tilbúna til að auka framlag í lífeyrissjóð nema sá kostnaður yrði að fullu bættur með skertum kjörum sjómanna. Minnt skal á að krafan um aukið framlag í lífeyrissjóð felur það eitt í sér að sjómenn njóti þess sama og samið hefur verið um við aðra hópa.
Vart getur það talist undrunarefni að sjómenn neiti að taka á sig meiri kostnað en ávinningur þeirra yrði með undirritun samningsins.
Sjómenn hafa nú verið samningslausir í 19 mánuði. Miðstjórn ASÍ telur þá stöðu mála ólíðandi og krefst þess að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi láti af þvermóðsku og óbilgirni í viðræðum við sjómenn. Álögur á sjávarútveginn eru ekki slíkar að sú framganga geti með nokkru móti talist réttlætanleg, hvað þá eðlileg.