Miðstjórn ASÍ mótmælir stýrivaxtahækkun Seðlabankans
Seðlabanki Íslands tilkynnti í morgun um 0,25 prósentu hækkun stýrivaxta og eru meginvextir bankans nú 1%. Þótt farið sé að rofa til í efnahagslífinu mælist atvinnuleysi enn yfir 10% og fjöldi heimila hefur orðið fyrir verulegu tekjufalli. Verðbólga hefur farið vaxandi en aukning verðbólgu skýrist að stærstum hluta af veikingu á gengi krónunnar, hækkun á hrávöruverði og mikilli hækkun húsnæðisverðs. Enn eru miklar takmarkanir á atvinnumöguleikum atvinnulausra og fjölmörg fyrirtæki glíma við rekstrarerfiðleika vegna sóttvarnarráðstafana. Miðstjórn ASÍ mótmælir hækkun vaxta í slíku efnahagsástandi og telur það geta haft neikvæð áhrif á hag heimila og fyrirtækja og hægt á bata á vinnumarkaði og þar með í samfélaginu öllu. ASÍ hefur ítrekað bent á að mikilvægi þess að sýna þolinmæði og þrautseigju á meðan tekist er á við heimsfaraldurinn og efnahagslegar afleiðingar hans. Í miðjum storminum er mikilvægast að tryggja afkomu fólks og efnahagslega virkni. Hækkun stýrivaxta getur gengið gegn því markmiði og getur enn fremur ýtt undir verðbólgu fremur en að draga úr henni.
Vaxtahækkun er ekki eina leiðin til að takast á við vaxandi verðbólgu, ekki síst í ljósi þess hversu stórt hlutverk hækkun á húsnæðiverði gæti leikið. Minnt er á að Seðlabankinn hefur önnur tæki til að grípa inn á húsnæðismarkaði og hefur ekki fullnýtt þær heimildir. Seðlabankinn og stjórnvöld geta jafnframt gripið til margvíslegra aðgerða til að draga úr þrýstingi á verðbólgu fremur en úreltra aðferða sem geta verið skaðlegri til lengri tíma litið. Þá þarf að skoða aðgerðir til að draga úr spákaupmennsku og gróðabraski á húsnæðismarkaði, til dæmis með strangari lánaskilyrðum gagnvart kaupendum sem eiga fleiri en eina eign.
Miðstjórn ASÍ áréttar einnig að nú verður horft til viðbragða banka og fjármálastofnanna sem hafa ratað í fréttir að undanförnu vegna milljarða hagnaðar. Miðstjórn hefur áður gagnrýnt hækkun vaxtaálags samhliða vaxtalækkun þar sem bankarnir tóku til sín hluta af vaxtalækkun Seðlabankans.