Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Andlát – Halldór Grönvold

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, lést á Landspítalanum þann 18. nóvember sl. eftir stutt veikindi. Hann var 66 ára gamall. Halldór helgaði verkalýðshreyfingunni starfsævi sína eftir að hann lauk námi í vinnumarkaðsfræðum við University of Warwick á Englandi. Fyrst starfaði hann hjá Iðju, félagi verksmiðjufólks í Reykjavík, en frá árinu 1993 á skrifstofu Alþýðusambandsins. Þangað var hann ráðinn sem skrifstofustjóri en frá árinu 2001 var Halldór aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ auk þess að leiða deild félags- og vinnumarkaðsmála hjá sambandinu.
 
Halldór vann alla tíð ötullega að réttindum launafólks. Hann sat í stjórn Vinnumálastofnunar frá 1996 og beitti sér mjög í fræðslumálum innan verkalýðshreyfingarinnar og þá einkum starfsmenntamálum. Hann tók þátt í samningum á Evrópuvísu um fjölskylduvænni vinnustaði og breytingu á vinnutímatilskipuninni ásamt fæðingar- og foreldraorlofi. Hann barðist fyrir breytingum á fæðingarorlofslöggjöfinni sem náðust árið 2000, þar á meðal rétti feðra til töku fæðingarorlofs. Á síðustu árum hefur Halldór sérstaklega beitt sér fyrir aðgerðum til að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði.
 
Það má fullyrða að fáir hafi haft eins mikil áhrif á mótun íslenska vinnumarkaðsmódelsins og Halldór Grönvold. Hann var einlægur verkalýðssinni og jafnaðarmaður, traustur og góður félagi með yfirburða þekkingu á vinnumarkaðsmálum. Óhætt er að segja að stórt skarð sé höggvið í raðir ASÍ, bæði sem hreyfingar og vinnustaðar, við fráfall Halldórs. 
Eftirlifandi eiginkona Halldórs Grönvold er Greta Baldursdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari. Þau eignuðust tvö börn, Evu og Arnar, og eru barnabörn þeirra nú þrjú. 
 
Starfsfólk Alþýðusambands Íslands vottar þeim sína innilegustu samúð.

Halldór Grönvold ásamt Guðmundi Gunnarssyni, þáverandi formanni Rafiðnaðarsambands Íslands. Mynd frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar.

Halldór fylgir Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, til sætis á ársfundi ASÍ 23. október 2008.

Halldór klæddur eins og verkamaður frá fyrri hluta 20. aldar í tilefni af 100 ára afmælishátíð ASÍ í Árbæjarsafni í ágúst 2016.

Halldór ásamt Drífu Snædal, forseta ASÍ, í Palestínuferð miðstjórnar ASÍ í október 2019 en Halldór hafði veg og vanda af skipulagningu þeirrar ferðar.

Tengdar fréttir