Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf út skýrslu sína um horfur í íslenskum efnahagsmálum fyrr í sumar. Í skýrslunni er meðal annars vikið að stöðu á vinnumarkaði, þróun launa og framleiðni.* Er þar meðal annars fullyrt að kjarasamningsgerð gæti dregið úr viðnámsþrótti vinnumarkaðar í samdrætti. Þar er vísað í að vöxtur raunlauna umfram framleiðni geti dregið úr samkeppnishæfni. Vísar sjóðurinn þar til þróunar kaupmáttar launa byggt á launavísitölu Hagstofunnar og framleiðni skilgreindri sem verg landsframleiðsla á hvern vinnandi einstakling.
Hlekkur á bréf til AGS – íslensk þýðing á bréfinu
Alþýðusambandið hefur séð ástæðu til að gera athugasemdir við niðurstöður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi styðst sjóðurinn við þróun verðlagsleiðréttrar launavísitölu sem mat á launaþróun. Sá mælikvarði er ekki heppilegur við mat á launakostnaði sökum þess að launavísitalan mælir breytingar á reglulegum launum á hverja greidda stund, þ.e. reglulegt tímakaup. Í öðru lagi notar sjóðurinn verga landsframleiðslu á vinnandi einstaklinga við mat á framleiðni. Í þriðja lagi notar sjóðurinn ólíkar aðferðir við verðlagsleiðréttingu, þ.e. laun eru leiðrétt með vísitölu neysluverðs og framleiðni með verðvísitölu vergrar landsframleiðslu.
Önnur leið væri að bera saman launaþróun á hverja vinnustund og framleiðni sem verga landsframleiðslu á vinnustund, bæði leiðrétt með verðvísitölu vergrar landsframleiðslu. Sá samanburður sýnir að laun hafa að þróast í takt við framleiðni undanfarin ár. Laun hinsvegar lækkuðu skarpt í kjölfar fjármálahrunsins og var framleiðnigati lokað á árunum 2017-2018.
Sú mynd sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn dregur upp er einnig ólík þeirri sem birtist í skýrslu OECD um efnahagsþróun á Íslandi sem kom út í júlí. Í úttekt OECD kom einnig fram að Lífskjarasamningurinn hafi unnið gegn neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs, sérstaklega með aukningu kaupmáttar hinna tekjulægstu. Í úttekt OECD má sjá að laun hafa þróast í takt við framleiðni undanfarið og notar stofnunin sambærilega aðferðarfræði og ASÍ.
*Sjá https://www.sedlabanki.is/library/Skraarsafn/Althjodasvid/Iceland_2021_Article_IV_Consultation_Press_release_June_2021.pdf