Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur ákveðið að hætta viðskiptum við Íslandsbanka vegna þeirra lögbrota sem framin voru við sölu á hlutum ríkisins í fyrirtækinu í marsmánuði 2022. Ákvörðun þessi var samþykkt á fundi miðstjórnar ASÍ miðvikudaginn 16. ágúst sl.
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), átti í dag, mánudaginn 21. ágúst, fund með Jóni Guðna Ómarssyni, bankastjóra Íslandsbanka, og gerði honum grein fyrir ákvörðun miðstjórnar.
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands:
„Afstaða miðstjórnar var alveg skýr á fundinum í síðustu viku. Alvarleg lögbrot voru framin við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Framhjá slíkum trúnaðarbresti er ekki hægt að horfa og miðstjórn var einhuga um að slíta þessu viðskiptasambandi. Með þessu móti lætur Alþýðusambandið í ljós þá eindregnu afstöðu að ólöglegt fyrirkomulag sölu á hlutum í Íslandsbanka hafi verið ásetningur en ekki „mistök“. Nú hefur þessari afstöðu verið komið á framfæri við fólkið í landinu, stjórnmálamenn og stjórnendur fjármálafyrirtækja.”