Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

ASÍ hafnar því að stéttarfélög verði svipt samningsrétti áhafna á íslenskum farskipum

Alþýðusamband Íslands tekur ekki að svo stöddu afstöðu til þess hvort eða hvernig skattlagningu alþjóðlegrar íslenskrar skipaskrár verður háttað en leggst af miklum þunga gegn þeim áformum að svipta íslensk stéttafélög samningsrétti og mæla fyrir um að kjör áhafna á íslenskum farskipum ráðist af lögheimili þeirra skv. reglum sem ætlað er að koma í veg fyrir þrælahald og mannsal.

Í greinargerð frumvarpsins sem nú hefur verð kynnt eru alvarlegar og villandi staðhæfingar eins og hér verður rakið.

Í upphafi er vakin athygli á því, að í 4. kafla greinargerðar með frumvarpsdrögunum er fjallað um „Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar“. Þar er fullyrt í lokamálsgrein kaflans að það sé „mat ráðuneytisins að frumvarp þetta sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.“ Eins og leitast verður við að rökstyðja hér á eftir þá er þetta mat rangt og umfjöllunin villandi. Frumvarpið er andstætt 74. og 65.gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins, 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. l. 62/1994, 8.gr. Alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sbr. auglýsingu nr. 10/1979, 22.gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sbr. auglýsingu nr. 10/1979, 19.gr. b. lið 4.tl. Félagsmálasáttmála Evrópu sbr. auglýsingu nr. 3/1976 og ákvæðum Samþykktar ILO um vinnuskilyrði farmanna frá 2006 sem fullgilt var hér á landi 4. apríl 2019.

Í kaflanum um meginefni frumvarpsins segir m.a.: „Í 12. gr. er gerð tillaga um ákvæði þess efnis að um kjör skipverja í áhöfn kaupskips fari eftir þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið við stéttarfélög viðkomandi ríkja þar sem skipverji á lögheimili. Líkt og rakið hefur verið í 2. kafla greinargerðarinnar er talið að staða skráninga muni ekki breytast nema ákvæði af þessu tagi verði samþykkt. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um tiltekin lágmarkskjör, að þau skuli aldrei vera lakari en þau kjör og réttindi sem mælt er fyrir um í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um vinnuskilyrði farmanna frá árinu 2006 (Maritime Labour Convention (MLC) 2006) eins og þau eru á hverjum tíma og þau lágmarkskjör sem Alþjóðaflutningaverkamannasambandið (ITF) miðar við á hverjum tíma.“

Í kaflanum Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar segir síðan m.a.: „Jafnframt hefur íslenska ríkið fullgilt samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna (e. Maritime Labour Convention – MLC). … Í reglu 2.2 er mælt fyrir um laun farmanna. … Þá fjallar ákvæðið um lágmarkslaun farmanna. Þar segir að grunnkaup eða -laun fyrir þjónustu fullgilds farmanns í almanaksmánuð eiga ekki að vera lægri en sú fjárhæð sem er ákveðin reglulega af hálfu siglingamálanefndar eða annarrar stofnunar í umboði stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Að fenginni ákvörðun stjórnarnefndarinnar skuli forstjóri tilkynna aðildarríkjum stofnunarinnar um endurskoðaða fjárhæð. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði farmanna, nr. 82/2018, voru breytingar gerðar á lögum til samræmis við kröfur samþykktarinnar ….“

Hér eru staðreyndir settar fram með afskaplega villandi hætti og látið líta út sem svo að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), MLC samþykktin, mæli með skuldbindandi „reglu“ fyrir um lágmarkskjör á farskipum og að með setningu laga nr. 82/2018 hafi öllum kröfum samþykktarinnar verið fullnægt.

Hið rétta er að grundvallarregla samþykktarinnar og sú sem skuldbindandi er, er sú að um laun fari skv. kjarasamningum sbr. 3.gr. hennar þar sem segir um grundvallarréttindi og reglur:

„Hvert aðildarríki skal tryggja að í ákvæðum eigin laga og reglugerða séu virt, að því er varðar þessa samþykkt, grundvallarréttindi til:

a) félagafrelsis og virk viðurkenning á réttinum til aðildar að kjarasamningum;
b) afnáms hvers konar nauðungar- og skylduvinnu;
c) afnáms vinnu bana; og
d) afnáms misréttis með tilliti til atvinnu eða starfa.“

Í 5.tl. 4.gr. segir síðan um starfsréttindi og félagsleg réttindi farmanna:

„Hvert aðildarríkiskal tryggja, innan marka lögsögu sinnar, að starfsréttindi og félagsleg réttindi farmanna sem kveðið er á um í framangreindum málsgreinum þessarar greinar séu framkvæmd í samræmi við kröfur þessarar samþykktar. Hrinda má slíku í framkvæmd með landslögum eða reglugerðum, með viðeigandi kjarasamningum, með öðrum ráðstöfunumeða samkvæmt venju, nema kveðið sé á um það með öðrum hætti í samþykktinni.“

Hér á landi gildir sú meginreglna, að kjarasamningar ráða kaupi og kjörum vegna allra starfa sem unnin eru innan lögsögu íslenska ríkisins þ.m.t. um borð í loftförum og skipum sem skráð eru hér á landi en hvorki erlendir kjarasamningar eða leiðbeiningar alþjóðastofnana.

Í MLC samþykktinni segir síðan í þessu samhengi í 6.gr. þar sem fjallað er um „Reglur ásamt A- og B-hlutum kóðans“ að ákvæði B-hluta kóðans, séu ekki skuldbindandi en öll umfjöllun greinargerðarinnar með frumvarpinu um laun og starfskjör byggir einmitt á þeim hluta þ.e. leiðbeiningum B2.2.3. – Lágmarkslaun, og þannig gefið í skyn að verið sé að fullnægja „reglum“ samþykktarinnar.

Tilgangur þeirra B-hluta kóðans er að tryggja að um borð í farskipum sem skráð eru í ríkjum þar sem réttarstaða launafólks og stéttarfélaga er lítil eða engin og þar sem kjarasamningar eru jafnvel hvorki gerðir eða virtir þá skuli beita tilteknum viðmiðum um starfskjör og laun. Almennt eru slík ríki kölluð hentifánaríki en nýlega hefur í íslenskum fjölmiðlum verið fjallað um hvernig skipafélag í íslenskri eigu hefur nýtt sér slík ríki til þess að losa sig við skip til niðurrifs með tilheyrandi mannréttinda- og umhverfisbrotum. Þá hefur einnig nýlega verið fjallað um hvernig fyrirtæki í eigu Íslendinga misnotuðu alþjóðlegu skipaskrána í Færeyjum með því að skrá áhafnir á fiskiskipum sínum í Afríku á farskip í færeysku skránni til þess að eins að losna undan skattgreiðslum í einu fátækasta ríki heims.

Um leiðbeiningar B-hluta kóðans er jafnframt skýrt tekið fram í „Leiðbeiningum B2.2.3-Lágmarkslaun“
að „Með fyrirvara um grundvallarregluna um frjálsa karasamninga ætti hvert aðildarríki að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, að mæla fyrir um málsmeðferð til að ákveða lágmarkslaun farmanna. Hlutaðeigandisamtök útgerðarmanna og farmanna ættu að taka þátt í að viðhalda slíkri málsmeðferð.“ Hér er meginreglan kjarasamningar og undantekningin samráð en frumvarpsdrög þau sem nú er veitt umsögn um virða ekki einu sinni þessar leiðbeingar en mæla fyrir um lægstu finnanlegu viðmið til þess að koma í veg fyrir þrælahald og mannsal um borð í faskipum.

Ítrekað skal einnig, að í ársbyrjun 2007 gaf ASÍ umsögn um frumvarp til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá þar sem gert var ráð fyrir því að kjarasamningar farmanna á kaupskipum sem skráð væru í skránna yrðu útfærðir þ.a. að um kjör einsakra áhafnarmeðlima færi eftir kjarasamningum í því ríki sem þeir ættu lögheimili. Eins og ítarlega er rökstutt í þeirri umsögn, þá er slík útfærsla andstæð stjórnarskrá Íslands, lögum nr. 80/1938, lögum nr. 55/1980 og alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland er aðili að. Þau lögfræðilegu sjónarmið hafa ekkert breyst og reyndar má frekar merkja þróun þar sem bæði hér á landi og á alþjóðavísu er lagst gegn félagslegum undirboðum, mismunun og misnotkun á vinnuafli frá löndum sem standa höllum fæti, efnahagslega og þróunarlega hvað mannréttindi varðar.

Í fyrrgreindri umsögn ASÍ var m.a. vísað til umfjöllunar ILO um framkvæmd Danmerkur á samþykkt nr. 98 um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega sem Ísland er einnig bundið af, hvað varðar dönsku alþjóðlegu skipaskrána (DIS). Það mál er enn til meðferðar innan eftirlitskerfis ILO, síðast á árinu 2019 og þar segir nú eftir nýjustu samskipti aðila:

“While welcoming the step taken through the amendment of the DIS Act, the Committee requests the Government to continue, in consultation with the social partners, to make every efforts to ensure the full respect of the principles of free and voluntary collective bargaining so that Danish trade unions may freely represent in the collective bargaining process all their members and that collective agreements concluded by Danish trade unions may cover all their members – working on ships sailing under the Danish flag whether they are within or beyond Danish territorial waters or continental shelf, and regardless of their activities. The Committee requests the Government to provide information on any developments in this regard.”

Í þessu felst að Danmörku er í reynd skylt að tryggja erlendum áhöfnum á farskipum í þeirra alþjóðlegu skipaskrá, rétt til aðildar að dönskum stéttarfélögum og þá um leið rétt þeirra stéttarfélaga til þess að semja um kaup þeirra og kjör.

Hyggist ríkisstjórn Íslands, eins og nú virðist raunin, feta sömu leið mannréttindabrota og sumar aðrar þjóðir hafa gert í þessu samhengi leggst sambandið af miklum þunga gegn þeim hugmyndum.

Author

Tengdar fréttir