Í nýjum tölum Vinnumálastofnunar kemur fram að atvinnuleysisdagar hafa ekki verið fleiri síðan í janúar 2014 þegar þeir voru 165 þúsund. Í nýliðnum júlí voru dagarnir um 157 þúsund en frá 2014 hafa þeir að meðaltali verið 104 þúsund.
Við greiningu á þróun á vinnumarkaðnum verður að taka tillit til árstíðasveiflu, skoða þróunina yfir lengri tíma, ekki einblína eingöngu á síðustu mánuði. Á sumrin er atvinnuleysi yfirleitt minna en á öðrum árstímum og tölur sem nú birtast er því rétt að skoða í samanburði við síðustu ár.
Í lok júlí voru um 7300 atvinnulausir og er það mesti fjöldi atvinnulausra frá því í mars 2014. Að jafnaði hafa um 5200 verið atvinnulausir í lok hvers mánaðar síðan 2014. Hlutfall atvinnulausra í júlí var 3,4% og er það mesta atvinnuleysi í júlímánuði síðan 2013 þegar atvinnuleysi var 3,9%.
Í nýbirtri skýrslu hagdeildar ASÍ, Íslenskur vinnumarkaður 2019, er fjallað um stöðu erlends launafólks. Með aukinni þátttöku erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði hefur hlutur þeirra á atvinnuleysisskrá aukist. Erlendir ríkisborgarar eru nú um þriðjungur atvinnulausra. Vert er að rýna hvort brugðist hafi verið nægilega vel við breyttri samsetningu hópsins sem Vinnumálastofnun þjónustar. Í skýrslu Hagdeildarinnar segir:
„Tryggja þarf að atvinnuleitendur hafi greiðan aðgang að vinnumarkaðsúrræðum og horfa þarf á góða reynslu af vinnumarkaðsúrræðum í síðustu niðursveiflu. Með slíkum úrræðum eru atvinnuleitendur betur í stakk búnir til að mæta nýjum áskorunum og lenda því síður í langtímaatvinnuleysi eða óvirkni. […] Vísbendingar eru um að þjónustu við þennan hóp sé ábótavant og að þátttaka erlends launafólks sé fremur bundin við íslenskunámskeið en önnur úrræði.“