Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Atvinnuleysi vegna faraldursins kemur ólíkt niður á hópum

Í júlí hélt atvinnuleysi áfram að aukast milli mánaða en skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun var 7,9% í mánuðinum. Í júní var það 7,5%, aukningin er því 0,4%. Þá var atvinnuleysi í júlí 2019 3,4% og hefur því atvinnuleysi rúmlega tvöfaldast milli ára. Vinnumálastofnun spáir því að aukning atvinnuleysis verði umtalsverð í ágúst, það fari í 8,6%, þar sem áhrifa hópuppsagna í vor gæti í fjölgun á atvinnuleysisskrá. Í september verður skólastarfsemi farin af stað og reiknar Vinnumálastofnun með að atvinnuleysi verði svipað í þeim mánuði þar sem einhver fjöldi mun fara af atvinnuleysiskrá þegar þeir hefja nám.

Aðsókn í hlutabótaúrræði minnkaði milli mánaða, fyrir júlí var það metið sem 0,9% atvinnuleysi borið saman við 2,1% í júní og 10,3% þegar mest var í apríl. Úrræðið verður virkt út ágúst mánuð og spáir Vinnumálstofnun því að atvinnuleysi vegna þess verði metið 0,4% þennan síðasta mánuð.

Atvinnuleysi meðal kvenna jókst töluvert meira heldur en hjá körlum í júlí þegar atvinnuleysi kvenna fór úr 7,4% í 8,1% meðan atvinnuleysi hjá körlum fór úr 7,5% í 7,7% . Karlar eru fjölmennari á vinnumarkaði og þó hlutfall atvinnuleysis væri lægra meðal þeirra voru þeir áfram fjölmennari á atvinnuleysisskrá í lok júlí, rúm 9 þúsund meðan konur voru tæp 8 þúsund. Utan höfuðborgarsvæðisins er atvinnuleysi kvenna er orðið meira í öllum landshlutum. Búast má við því að aukning atvinnuleysis lendi áfram meira á konum en hlutfall kvenna er meira í þeim þjónustugreinum sem nú verða fyrir barðinu á heimsfaraldrinum.

Atvinnuleysi jókst um 2 prósentustig á Suðurnesjum en þar hefur aukning atvinnuleysis verið hröðust og almennt atvinnuleysi þar mældist 15,2% í júlí. Atvinnuleysið bitnar illa á erlendum ríkisborgurum. Í lok júlí voru tæplega 7 þúsund erlendir ríkisborgarar atvinnulausir sem samsvarar 19,2% atvinnuleysis í hópnum.

Author

Tengdar fréttir