Samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands hækkaði mæld auðlindarenta i sjávarútvegi um 1,4 milljarða króna milli ára árið 2020 og nam alls 51 milljarði. Þetta kemur fram í nýlegu mánaðaryfirliti stefnumótunar og greiningar hjá ASÍ. Sjá yfirlit í heild sinni.
Á sama tíma lækkaði veiðigjald um rúma tvo milljarða króna. Auðlindarentan er því sem áður mikil og rennur langstærsti hluti hennar til útgerðarfyrirtækja.
Með auðlindarentu í sjávarútvegi er átt við þann hluta arðsemi í greininni sem er tilkominn vegna þess að stjórnvöld takmarka aflaheimildir. Við mat á auðlindarentu er tekið mið af þeirri starfsemi sem náttúruauðlind er nýtt í og tekjurnar sem hljótast af starfseminni skoðaðar. Til að meta auðlindarentu þarf að draga frá kostnað sem fylgir starfseminni. Sá kostnaður er laun, aðföng og fjármagnskostnaður vegna fjárfestinga í sjávarútvegi. Það sem eftir stendur er auðlindarenta.
Frá árinu 2008 hefur auðlindarenta í sjávarútvegi að meðaltali verið um 50 milljarðar króna á ári.
Veiðigjald litill hluti rentu
Fiskistofa leggur lögum samkvæmt á veiðigjald og renna tekjur af því í ríkissjóð. Skráðir eigendur íslenskra fiskiskipa sem stunda veiðar á nytjastofnum sjávar bera gjaldið. Veiðigjald er lagt á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnun sjávar.
Frá árinu 2012 hefur veiðigjaldið numið um 9 milljörðum króna að meðaltali á ári. Það svarar til um 20% af auðlindarentunni.
Í skýrslu ASÍ um skatta og ójöfnuð sem birt var í september 2021 kemur fram að hefði helmingur auðlindarentunnar runnið í ríkissjóð hefðu árlegar tekjur verið um 13 milljörðum hærri en raunin varð. Ef 2/3 auðlindarentunnar hefðu runnið í ríkissjóð hefðu árlegar tekjur verið um 20 milljörðum hærri á ári.
Kvótakerfi, þ.e. aflamarkskerfi í núverandi mynd, var komið á árið 1990. Fullyrða má að fiskveiðiauðlindin skilar kvótaeigendum mikilli auðlindarentu þó hún sé breytileg milli ára. Eftir breytingar á veiðigjaldinu 2018 lækkaði það árin 2019 og 2020. Ef helmingur auðlindarentunnar hefði runnið í ríkissjóð árið 2019 hefðu tekjur ríkisins verið 15 milljörðum hærri og 17 milljörðum árið 2020 ef auðlindarenta hefði haldist óbreytt milli 2019-20.
Veiðigjaldið er því lítill hluti af auðlindarentunni í sjávarútveginum.