Hagstofan birti nýverið tölur um afkomu í sjávarútvegi fyrir árið 2021. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt (EBITDA) jókst um 10 milljarða á árunum 2020-2021, eða úr 79 milljörðum árið 2020 í tæpa 89 milljarða árið 2021. Sem hlutfall af tekjum nam EBITDA 34,8%.
Mæld auðlindarenta í greininni jókst um 5,1 milljarð milli ára og var alls 56 milljarðar á árinu 2021. Auðlindarenta hefur því ekki mælst hærri í greininni frá árinu 2012 þegar hún var 58 milljarðar. Veiðigjald ársins 2021 var um 8 milljarðar eða um 14% af auðlindarentu.
Með auðlindarentu er átt við þá arðsemi sem verður til vegna þess að stjórnvöld hafa takmarkað aðgengi að auðlindinni, þ.e. með aflaheimildum. Auðlindarentan byggir á því að skoða þær tekjur sem til verða í starfseminni og draga frá kostnaðinn, þ.e. laun og aðföng en einnig svokallaða árgreiðslu sem tekur tillit til eðlilegrar arðsemi fjármagns vegna fjárfestinga í greininni. Sú arðsemi sem eftir stendur eftir kostnað eðlilega arðsemi fjármagns kallast auðlindarenta.
Eigið fé jókst um 100 milljarða
Í tölum Hagstofunnar er einnig að finna samantekt á efnahagsreikningum í sjávarútvegi. Alls námu heildareignir sjávarútvegsfyrirtækja 953 milljörðum í árslok 2021 og hafa aukist um 361 milljarða frá árinu 2015. Eigið fé nam 433 milljörðum á síðasta ári, þ.e. heildareignir að frádregnum skuldum, og jókst um 100 milljarða frá fyrra ári.