Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Aukin áhersla á réttlát umskipti á COP27 loftslagsráðstefnu

Réttlát umskipti voru í kastljósinu á nýafstaðinni loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27 sem haldin var í nóvember. Réttlát umskipti (e. just transition) snúast um að hámarka efnahagslegan, samfélagslegan og umhverfislegan ávinning af loftslagsbreytingum og lágmarka neikvæð áhrif á almenning og launafólk.  

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP 27 náðist samkomulag um loftslagsbótasjóð til að bæta tjón fátækari ríkja heims sem hafa orðið illa úti vegna loftslagsbreytinga. Sjóðurinn er sögulegur fyrir þær sakir að aldrei áður hefur tjón og skaði vegna loftslagsbreytinga verið formlega á dagskrá slíkra funda auk þess sem sjóðurinn felur í sér mikilvæga viðurkenningu á þeirri grundvallarreglu að „enginn skuli skilinn eftir“ og að réttlát umskipti skuli vera þjóðum heims leiðarljós. Í fyrsta skipti var réttlátum umskiptum úthlutaður sérstakur skáli á ráðstefnunni þar sem Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) í samstarfi við aðrar stofnanir og samtök stóð fyrir þekkingarmiðlun, fundum og viðburðum tengdum málefninu.  

Skálinn hýsti hliðarviðburði um margvísleg efni svo sem mannsæmandi vinnu, hringrásarhagkerfið auk fjármögnunar og umbreytinga á sértækum sviðum. Af hálfu ILO var einkum lögð áhersla á ný verkefni tengd æskufólki, fjármögnun og upplýsingamiðlun. 

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði COP-ráðstefnuna mikilvægt skref í réttlætisátt. Fagnaði hann sérstaklega stofnun loftslagsbótasjóðsins og kvað mikilvægt að raddir þeirra sem stæðu frammi fyrir afleiðingum loftslagsvárinnar fengju að heyrast.  

Réttlát umskipti (e. just transition) fela í sér að þeim tækifærum og byrðum sem felast í loftslags- og tæknibreytingum og aðgerðum þeim tengdum sé dreift með réttlátum og sanngjörnum hætti. Árið 2021 var gefin út skýrsla sem unnin var af ASÍ, BSRB OG BHM um réttlát umskipti og kröfur verkalýðshreyfingarinnar í vegferð að kolefnishlutlausu samfélagi. Skýrsluna má nálgast hér.

Tengdar fréttir