Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Ávarp félagsmálaráðherra á þingi ASÍ

Góðir áheyrendur.

Það er óhætt að segja að í upphafi ársins 2020 bjóst enginn við því að stóra verkefnið okkar þetta árið yrði að berjast gegn heimsfaraldri kórónuveiru sem hefur svo sannarlega haft áhrif á líf okkar allra svo um munar síðustu misseri.

Ein af afleiðingum faraldursins er að vinna okkar allra hefur tekið miklum breytingum á síðustu mánuðum hvort sem litið er til atvinnuöryggis, vinnuaðstæðna eða verkefna.

Við höfum því þurft að sýna mikla aðlögunarhæfni og hefur samtakamáttur þjóðarinnar verið nánast áþreifanlegur þar sem við höfum öll verið samstíga í því að gera okkar besta til að kveða niður þennan vágest sem allra fyrst.

Það er deginum ljósara að við stöndum frammi fyrir gríðarlegum áskorunum á vinnumarkaði og það er óumflýjanlegt að komandi vetur muni litast af því.

Í þeim tilgangi að minnka skaðann og fleyta ólíkum hópum yfir mestu erfiðleikana hafa stjórnvöld staðið fyrir ýmsum aðgerðum en í því sambandi má nefna hlutabótaleiðina, greiðslur í sóttkví, lokunarstyrki, uppsagnarstyrki, brúarlán, framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta og svo mætti lengi telja.

Þrátt fyrir allar aðgerðir stefna atvinnuleysistölur í eitthvað sem við höfum aldrei séð áður og algjört hrun í ákveðnum atvinnugreinum er eitt af því sem blasir við.

Atvinnuþátttaka er í mínum huga gríðarlega mikilvæg, bæði fyrir andlega og líkamlega líðan fólk og ekki síður fyrir efnahag heimilanna.

Í því mikla atvinnuleysi sem við erum að glíma við núna hef ég því áhyggjur af börnunum okkar sem upplifa nú mörg hver minni ráðstöfunartekjur foreldra sinna sem þau finna fyrir með einum eða öðrum hætti.

Öll vildum við fyrr á árinu trúa því að þegar komið væri fram á haust væri lífið aftur orðið samt og áður og faraldurinn á bak og burt en ljóst er að við munum þurfa að lifa með honum eitthvað áfram.

Þetta er ekki búið.

Óvissuástandið sem ríkt hefur á vinnumarkaði undanfarna mánuði mun því vara lengur en við gerðum ráð fyrir í fyrstu og við getum því miður gert ráð fyrir því að fjöldaatvinnuleysi muni dragast á langinn.

Í þessu ástandi öllu verðum við í sameiningu að standa vörð um þá sem einhverra hluta vegna standa höllum fæti því það er ávinningur samfélagsins í heild þegar upp verður staðið.

Í því sambandi vil ég nefna að innflytjendur eru um 14% af samfélaginu, um 19% af þátttakendum á vinnumarkaði og um 40% atvinnulausra eins og staðan er í dag.

Það þarf ekki blöðum um það að fletta að næstu misseri verða krefjandi fyrir mörg heimili í landinu en eitt af því sem við höfum gert til að auka virkni og koma í veg fyrir einangrun þeirra sem eiga undir högg að sækja á vinnumarkaði er að gera þeim kleift að stunda nám í tiltekin tíma án þess að missa rétt sinn til atvinnuleysisbóta.

Þannig komum við meðal annars til móts við atvinnuleitendur þegar þrengið að á vinnumarkaði með markvissum aðgerðum og sköpum þannig þekkingu á sama tíma og við virkjum kraft til framtíðar.

Það er skynsamlegt fyrir okkur sem samfélag að verja fjármunum í að virkja atvinnuleitendur eins mikið og við getum, meðal annars til náms.

Slíkar aðgerðir skila sér í aukinni færni, þekkingu og verðmætum fyrir samfélagið allt til lengri tíma litið.

Í því sambandi langar mig einnig að nefna átakið sem ráðist var í síðastliðið sumar til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn en verkefnið tókst mjög vel og skipti sköpum fyrir námsmenn.

En það hefur ýmislegt fleira verið gert en eingöngu það sem snýr beint að vinnumarkaði.

Frumvarp um svokölluð hlutdeildarlán sem nýlega var samþykkt á Alþingi er ný og róttækari nálgun í húsnæðismálum en við höfum séð undanfarin ár en með henni erum við að taka mikilvægt skref í þá átt að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á fasteignamarkaðinn.

Hlutdeildarlánin eru mikilvægt innlegg inn í lífskjarasamningana en þeir sem hafa laun sem falla innan lægstu tekjutíundanna hafa verið fastir á leigumarkaði og við vitum að mikill meirihluti þeirra vill komast í eigið húsnæði.

Með hlutdeildarlánum er stigið myndarlegt skref til þess að aðstoða þetta fólk við það að eignast eigið húsnæði.

Í mínum huga eru þetta skilaboð okkar allra um það að við sem samfélag sættum okkur ekki við að einungis þeir sem eru með sterkt bakland geti eignast eigið húsnæði.

Þrátt fyrir að mér hafi í máli mínu verið tíðrætt um kórónufaraldurinn og þá erfiðleika sem honum fylgja megum við ekki gleyma að horfa á björtu hliðarnar og þakka fyrir það sem vel gengur.

Í því sambandi langar mig að nefna fyrstu skýrslu Kjaratölfræðinefndarinnar sem kom út á dögunum en þar lyftu menn grettistaki að mínu viti.

Ég fagna því innilega að innan nefndarinnar hefur náðst góð samstaða um þann grunn upplýsinga og tölulegra gagna sem settur er fram í skýrslunni og er ég sannfærður um að vinna hópsins mun í framtíðinni nýtast hagaðilum vel og skila okkur skilvirkari kjarasamningsviðræðum en við höfum átt að venjast til þessa

Þá hefur nefndin sem unnið hefur að heildarendurskoðun á lögum um fæðingar- og foreldraorlof skilað tillögum sínum í formi frumvarps en í ár eru tuttugu ár liðin frá gildistöku laganna.

Lögin voru gríðarlega framsækin á sínum tíma svo vægt sé til orða tekið og enn líta aðrar þjóðir til okkar við mótun sinna reglna.

Það er því miður samt þannig að það verður aldrei hægt að móta fæðingarorlofskerfið með þeim hætti að það falli nákvæmlega að þörfum hverrar fjölskyldu fyrir sig en markmiðin eru skýr.

Við viljum áfram skapa gott umhverfi fyrir fólk sem eignast börn og veita báðum foreldrum jafna möguleika á því að njóta dýrmætra stunda með barninu sínu á fyrstu mánuðum þess en frumvarpið sem fyrir liggur er stórt skref í þá átt.

Einnig vil ég nefna styttingu vinnuvikunnar en stórt og jákvætt skref að mínu mati hefur verið stigið í kjarasamningum í þá átt að samræma betur fjölskyldu- og atvinnulíf en verið hefur til þessa með því að samið hefur verið um styttingu vinnuvikunnar.

Það er von mín að með einhverjum skrefum í þá átt, þó stutt séu, getum við hugsanlega komið í veg fyrir einhver tilvik þar sem kulnun í starfi veldur því að þátttakendur á vinnumarkaði heltast úr lesinni.

Þá er á lokametrunum vinna við gerð frumvarps sem meðal annars er ætlað að sporna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði en í frumvarpinu eru breytingar sem í mínum huga geta orðið til góðs fyrir vinnumarkaðinn í heild sinni og eiga eflaust eftir að hjálpa okkur mikið í baráttunni við ólíðandi brot á vinnumarkaði hvaða nöfnum sem þau nefnast.

Góðir gestir.

Komandi vetur verður erfiður fyrir marga, við vitum það, ekki síst vegna þess er mikilvægt að gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa vörð um fólkið í landinu.

Kemur verkalýðshreyfingin þar sterk inn, ekki síst í því mikla atvinnuleysi sem blasir við okkur, en sú ríkisstjórn sem nú situr hefur lagt ríka áherslu á samvinnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins líkt og verið hefur hingað til.

Í mínum huga er það eina leiðin til að við náum árangri.

Að lokum þakka ég fyrir mig um leið og ég vonast til að mér auðnist hér eftir sem hingað til að eiga gott samstaf við verkalýðshreyfinguna.

Aðlögunarhæfni okkar er sterk en ljóst er að við munum þurfa að kljást við mörg stór verkefni á komandi misserum.

Við klárum þetta saman – eitt skref í einu – og með samstilltu átaki okkar allra munum við komast í gegnum skaflinn.

Author

Tengdar fréttir