Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Ávarp Sharan Burrow á þingi ASÍ

Sharan Burrow, framkvæmdastjóri Alþjóða verkalýðssambandsins (ITUC)

Réttlát umskipti
Ég sendi ykkur samstöðukveðjur á þessum erfiðu tímum í heiminum. Drífa, miðstjórn og þingfulltrúar, ekkert málefni er mikilvægara fyrir okkur heldur en framtíð vinnunnar. Það er þörf á nýjum samfélagssáttmála. Það er þörf á samfélagssáttmála sem tryggir fólki fulla atvinnu, mannsæmandi störf, félagslega vernd og þau grundvallarréttindi sem eru undirstaða þess að fólk skilji að það á rétt á lágmarkslaunum sem hægt er að lifa af, á kjarasamningum og félagslegri vernd.

Þessi réttindi knýja áfram hagkerfi, bæta og jafna lífskjör og veita okkur styrkinn sem þarf til að halda úti sjálfbæru hagkerfi. Vinnumarkaðir heimsins eru sundraðir. Ætlað er að vinnuafl heimsins telji um þrjá milljarða manna og 60 prósent þeirra eru nú í óhefðbundnum ráðningarsamböndum. Þetta á sér ekki aðeins stað í þróunarhagkerfum heldur öllum hagkerfum og sér í lagi með uppgangi netvangsstarfa og annarra eftirlitslausra viðskiptamódela.

Við vitum að meira að segja áður en COVID-19 skall á hafði vaxandi ójöfnuður og loftslagsneyð gert það ljóst að við yrðum að skapa nýtt atvinnumódel, að skapa nýjan vinnumarkað sem byggðist á réttindum, á félagslegum skoðanaskiptum á samkomulagi milli atvinnurekenda, launafólks og ríkisstjórnar, svokallað þríhliða samkomulag, til að skapa réttláta framtíð.

Í aldarafmælisyfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í fyrra var lögð áhersla á einmitt þetta. Í fyrsta lagi var sjónum beint að því að aðeins 40 prósent vinnuaflsins störfuðu á hefðbundnum vettvangi og meira að segja innan þess hóps væru ráðningarsamningar ýmist til skamms tíma eða laun væru lág eða fólki væri mismunað. Konur fengju ennþá ekki sömu laun og karlar og atvinnuþátttaka þeirra væri ekki eins mikil og við viljum að hún sé. Fjöldi vinnustunda hefði jafnframt hækkað upp úr öllu valdi. Atvinnurekendur, ríkisstjórnir og stéttarfélög ættu að semja um lágmarksréttindi sem allt launafólk, óháð ráðningarsamningi, ætti að njóta, þar á meðal félagafrelsi og rétt til að semja sameiginlega, sem og öryggi og vernd á vinnustað. Við berjumst nú fyrir því að þessi réttindi séu gerð að grundvallarréttindum vinnandi fólks. Lágmarkslaun ættu jafnframt að vera nægilega há til að hægt sé að lifa á þeim með mannlegri reisn. Og kveða ætti á um hámarksfjölda vinnustunda.

Það er margt fleira sem launafólk á Íslandi glímir við en ef öllum íbúum heimsins væru tryggð þessi lágmarksvinnuréttindi ásamt félagslegri vernd, þá ættum við vinnumarkað sem einkenndist af réttindum og styrk, sem styddi við mannsæmandi störf og jafnframt við kjarnann í sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. En við viljum meira og í yfirlýsingunni var einnig kveðið á um stórtæka áætlun í málefnum kvenna. Við verðum að tryggja að konur séu með í réttlátri enduruppbyggingu. Við viljum líka réttlát umskipti í loftslagsmálum og í tækni því að þótt við séum vissulega að glíma við neyðarástand í loftslagsmálum þurfum við líka að beina sjónum að tækniþróun, bæði að baráttunni fyrir tækifærum sem búa í tækniþróun, færninni sem verður nauðsynleg í störfum sem tengjast nýrri tækni, en ekki síður að baráttunni gegn þeim tækninýjungum sem koma til með að eyðileggja sum störf, grafa undan friðhelgi einkalífsins með því að skapa enn öflugra eftirlitskerfi en það sem við búum við í dag.

Við höfum tekið þetta saman í kröfu um nýjan samfélagssáttmála því samfélagssáttmálinn rofnaði um allan heim í kringum upphaf níunda áratugarins. Við vitum sannarlega að jafnvel fyrir þann tíma náði hann að mjög litlu leyti til þróunarríkja. Vonin var að okkur tækist að tryggja að þessi grundvallarréttindi, félagsleg vernd fyrir alla jarðbúa, félagsleg skoðanaskipti og þríhliða viðræður næðu til þróunarríkja. En í upphafi níunda áratugar ýtti ofurhnattvæðingin af stað þróun þar sem hluti launafólks af heildartekjum hrapaði eins og rússíbani í ranga átt. Viðskiptalíkanið er sundrað, laun hafa lækkað og við sitjum uppi með afleiðingarnar af skaðlegum niðurskurði sem farið var í eftir síðustu kreppu í félagslegum innviðum og það er þörf á nýjum samfélagssáttmála. Samfélagssáttmála sem tryggir fjármagn fyrir uppbygginguna, tryggir lágmarksvinnuréttindi, grundvallarréttindi í víðari skilningi og félagslega vernd fyrir alla svo að hægt sé að byggja upp viðnámsþrótt.

Hvað viljum við hafa í nýjum samfélagssáttmála? Við viljum störf, störf og aftur störf. Loftslagsvæn störf. Við viljum almenna félagslega vernd og eina leiðin til að ná því fram í þróunarhagkerfum er með baráttunni sem ITUC hefur leitt, með stuðningi ykkar allra, baráttu fyrir sjóði um almenna félagslega vernd fyrir fátækustu ríkin. Samhliða því þarf að verða skuldaniðurfelling, endurskipulagning skulda og að hætt verði að setja skilyrði um niðurskurð. Eina skilyrðið sem ætti að setja varðar sjálfbærnimarkmiðin, að fjárfest sé í fólki heimsins.
Við viljum auðvitað að markmið 1.3 um félagslega vernd, markmið 8, markmið 5 er varðar jafnrétti kynja og einnig markmið 3 og 4 um heilsu og menntun, verði í lykilhlutverki í aðgerðum er varða loftslagsmál og sjálfbærni. Við viljum sjá endalok eftirlitshagkerfisins og stóru tæknifyrirtækjanna. Við viljum að friðhelgi einkalífsins sé tryggð og forræði fólks yfir persónuupplýsingum sínum. Verkefnin eru næg en okkur tekst ekkert af þessu ef ríkisstjórnir bregðast almenningi. Ég vil óska stéttarfélögum og ríkisstjórn Íslands til hamingju því ásetningur um aukna ábyrgð og gagnsæi af hálfu ríkisstjórnarinnar skiptir öllu máli. Fólk verður að bera traust til lýðræðisins og til þess þarf að vera traust til ríkisstjórnarinnar.

ITUC birti lykilskýrslu nú í vikunni, sem ber titilinn „What Really Matters“ og fjallar um það sem skiptir máli umfram verga landsframleiðslu. Þar fjöllum við um vísa sem ég hef að hluta til talað um hér og varða störf og lífskjör, réttindi og skatta og nýja skatta sem eru nauðsynlegir til að fjármagna enduruppbygginguna. Og til að tryggja að aldrei framar verði heilbrigðis-, mennta- og umönnunarkerfi okkar undirfjármögnuð. Það þarf auðvitað líka að tryggja að réttindi verði aukin og það verði skjalfest, að gripið verði til aðgerða í loftslagsmálum og að það verði skjalfest, og að aðkoma almennings sé tryggð með félagslegum skoðanaskiptum, með pólitískri þátttöku og samráði umfram kjörkassann.

Við í verkalýðshreyfingunni erum staðföst í að beita afli vinnandi fólks, í að vinna í átt að nýjum samfélagssáttmála, að endurheimta traust á lýðræðinu og að tryggja öryggi loftslags og vinnumarkaðar til framtíðar. Það er svo margt sem ég myndi vilja ræða við ykkur um því Ísland fer alltaf skapandi leiðir í samstöðu sinni með launafólki við að byggja upp og rækta atvinnugreinar. Þið gegnið sannarlega mikilvægu hlutverki gagnvart verkalýðshreyfingunni og ITUC því þið eruð meðal þeirra landa þar sem jöfnuður er hvað mestur. Við getum lært margt af ykkur og við höfum þörf fyrir hugmyndir ykkar og samstöðu er við byggjum upp og mótum nýjar undirstöður sem einkennast af viðnámsþrótti og nýjan samfélagssáttmála í þeim sjálfbæra heimi sem við krefjumst.

Gangi ykkur vel og takk fyrir. Ég hlakka til að sjá útkomuna og ég vildi svo gjarnan vera með ykkur. Vonandi getum við aftur komið saman á árinu 2021.

Samstöðukveðjur.

Author

Tengdar fréttir