Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Bauhaus oftast ódýrast, en útsölur vega þungt

Bauhaus er oftast með lægst verð á byggingarvörum, en afslættir geta haft veigamikil áhrif á verðlagssamanburð. Þetta er niðurstaða athugunar verðlagseftirlits ASÍ á Bauhaus, Byko og Húsasmiðjunni undanfarna tvo mánuði. Þar sést að þótt Bauhaus sé oftast með lægst verð á samanburðarvörum, þá geta vörur á afsláttarverði í Byko og Húsasmiðjunni fært meðalverðlag undir meðalverðlag Bauhaus. 

Til að glöggva sig á þessu má skoða eftirfarandi tvö gröf. Bæði sýna hversu langt verð í búðunum þremur eru frá lægsta verði. Þessi tala er núll ef verslun er með lægst verð á öllum vörum. Á öðru grafinu er sýnt meðaltalið, á hinu miðgildið, á þessum mælikvarða.  

Alls voru 180 vörur undir í samanburðinum. Flestar voru aðeins til í tveimur af verslununum þremur. 

Fyrra grafið sýnir glöggt hvernig útsölur geta riðlað röð „ódýrustu“ verslunarinnar, samkvæmt hinum hefðbundna mælikvarða verðlagseftirlitsins. Seinna grafið, hins vegar, gefur hugmynd um hvaða verslun er oftast með lægst verð. Þar sést hvernig Bauhaus er tíðast með lægst verð. Dýfan sem verð í Húsasmiðjunni tekur 20. apríl er eftirtektarverð, en þá var eins-dags „Vorhátíð“ með afsláttum. 

Áhrif afslátta veigamikil 

Þegar gröfin tvö eru lesin saman sést að í Byko og Húsasmiðjunni tíðkast nógu stórir afslættir til að hreyfa meðaltöluna umtalsvert. Þetta skýrist ekki síst af því að fáar vörur eru í þessum samanburði. Sjá má dæmi um hvaða vörur voru til skoðunar í frétt verðlagseftirlitsins frá 29. febrúar. Til hliðsjónar má benda á að heildarverð allra vara í vefverslun Húsasmiðjunnar lækkaði um rúm 6% milli 19. og 20. apríl. (Sú vörukarfa kostar um hálfan milljarð króna.) 

Svipaða sögu má segja af Byko sem lækkaði verð sem nemur 3% af heildarverði allra vara í vefverslun milli 3. og 4. apríl. Fyrir þá verðlækkun var Byko „dýrasta“ verslunin af þessum þremur samkvæmt hinum hefðbundna mælikvarða verðlagseftirlitsins, en varð og hefur síðan verið sú „ódýrasta“. Eftir sem áður er Bauhaus oftast með lægsta verðið. 

En hvaða búð er þá ódýrust? 

Þessar niðurstöður gefa til kynna að iðulega er lægst verð að finna í Bauhaus, sé litið til þeirra vara sem eru einnig seldar í Byko eða Húsasmiðjunni. Hins vegar geta afsláttarverð í Byko og Húsasmiðjunni verið vel fyrir neðan verð í Bauhaus. Hér gildir að vera á verði og gera verðsamanburð. Allar þrjár verslanirnar hafa vefverslun sem auðveldar það svo um munar. Samanburðurinn er hins vegar takmarkaður af lítilli skörun í vöruúrvali milli verslananna þriggja. 

Um könnunina 

Þessi samanburður var framkvæmdur daglega í vefverslunum Bauhaus, Byko og Húsasmiðjunnar frá 14. febrúar til 23. apríl 2024. Gagna var ekki aflað 17.-18. febrúar, 9.-11. mars og 21. apríl. Leitast var við að finna sem flestar samanburðarvörur, en skoða má sýnidæmi og vörulista úr samanburðinum í fyrri könnun eftirlitsins, sem birt var í febrúarlok. 

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ. 

Tengdar fréttir