Skóflustunga að 124 nýjum íbúðum sem Bjarg íbúðafélag og Búseti húsnæðissamvinnufélag byggja við Tangabryggju í Bryggjuhverfi Reykjavíkur var tekin 9. júní. ÍSTAK sér um byggingu fjölbýlishúsanna. Félögin byggja á sameiginlegum reit en hvort með sínar áherslur, enda Bjarg leigufélag og Búseti húsnæðissamvinnufélag.
Nú þegar er Bjarg með yfir 200 íbúðir í útleigu á þremur ólíkum stöðum, á Móavegi í Grafarvogi, Urðarbrunni í Úlfarsárdal og Asparskógum á Akranesi. Þá eru framkvæmdir við rúmlega þrjúhundruð nýjar íbúðir komnar vel á veg og rúmlega 500 íbúðir eru í undirbúningsferli. Bjargi er ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði. Íbúðir félagsins eru því afar mikilvæg viðbót inn á húsnæðismarkaðinn.
Búseti leggur áherslu á að svara þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Hjá félaginu er að finna mikla fjölbreytni í íbúðasamsetningu eftir rúmlega þrjátíu ára starfsemi. Innan samstæðu Búseta eru reknar í dag yfir 1.000 íbúðir og eru nú um 180 íbúðir í byggingu á vegum félagsins.
Bjarg er húsnæðis sjálfseignastofnun, stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.