Vörur frá Myllunni hækka víða
Verð á brauði, kexi og kökum hækkaði á bilinu 0-7% frá októberlokum til janúarloka í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ. Verð hækkaði ekki í Extra og Bónus, en hækkaði um 7% í Iceland. Þar munaði mestu um Finn Crisp vörur, sem hækkuðu um fjórðung í Iceland á þessum þremur mánuðum.
Verð var athugað 26. október 2023 og 22. janúar 2024 í ellefu verslunum; Bónus, Extra, Fjarðarkaupum, Hagkaupum, Heimkaupum, Iceland, Kjörbúðinni, Krambúðinni, Krónunni, Nettó og 10-11.
Verð á vörum frá Myllunni hækkaði umfram aðrar innlendar brauðvörur í átta af ellefu verslunum. Í 10-11 og Extra breyttist verð á innlendum vörum ekki, en í Iceland hækkuðu vörur frá Myllunni minna en aðrar innlendar brauðvörur.
Í seinni athuguninni þann 22. janúar var Bónus ódýrasta verslunin þegar kom að brauðvörum. Var verð þar að meðaltali 1,2% frá lægsta verði. Næst kom Krónan (1,8%), en þriðja ódýrasta verslunin var Fjarðarkaup (9%). Dýrust var 10-11, með verð að meðaltali 86% hærra en lægsta verð. Cadbury Fingers kostuðu þar 569 krónur, eða rúmlega þrefalt meira en í Bónus, þar sem þeir voru ódýrastir.
Í verðþróuninni var vöruverð athugað verslun fyrir verslun og borið saman ef vörurnar fundust báða dagana sem kannað var. Voru það allt frá 83 vörum í Krambúðinni uppí 354 vörur í Nettó.
Vörurnar sem voru til skoðunar í verðsamanburðinum 22. janúar má sjá hér.
Um könnunina
Úrvalið sem hér er til skoðunar endurspeglar ekki verðbreytingar í allri versluninni. Aðeins er kannað vöruverð og ekki lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.