Samninganefnd Eflingar undirritaði í kvöld kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem kveðið er á um hækkun lægstu launa með sérstakri aukagreiðslu að fyrirmynd kjarasamnings Eflingar við Reykjavíkurborg. Efling fagnar með þessu sigri í langvinnri og erfiðri kjarabaráttu við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd félagsmanna sem starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Sveitarfélaginu Ölfusi og Hveragerðisbæ og er verkfalli þar með aflýst.
Með aukagreiðslunni hefur náðst fram sambærileg kjarabót og í samningum félagsins við ríkið, Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir. Þessar kjarabætur fyrir láglaunafólk hjá sveitarfélögunum, að stórum hluta konur í umönnunarstörfum, er beinn árangur af verkfallsaðgerðum og staðfastri baráttu félagsmanna á Höfuðborgarsvæðinu öllu síðan í byrjun febrúar. Önnur meginatriði samningsins eru samtals 90 þúsund króna hækkun grunnlauna í grunnþrepi yfir samningstímann, stytting vinnuvikunnar, 61 þúsund króna árlegt framlag í nýjan félagsmannasjóð og fleira.
„Í enn eitt skiptið hefur Eflingarfólk í minnst metnu störfum samfélagsins sýnt að jafnvel grimmustu stofnanir valdsins eiga ekki roð við þeim þegar þau koma fram baráttuglöð og sameinuð. Í enn eitt skiptið hafa þau sannað að réttlát og staðföst barátta láglaunafólks í gegnum sitt stéttarfélag er ekki bara réttur okkar heldur skilar hún líka raunverulegum árangi,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Kjaradeila Eflingar við sveitarfélögin fór fram undir afar óvenjulegum kringumstæðum, en ólíkt ríkinu og Reykjavíkurborg skirraðist Samband íslenskra sveitarfélaga við að ljúka samningum við Eflingu áður en kórónaveirufaraldurinn náði hámarki í marsmánuði. Frekar en að láta undan tók samninganefnd félagsmanna ákvörðun um tímabundna frestun verkfalls. Verkfalli sem hófst 9. mars og hafði verið samþykkt með 90% greiddra atkvæða og tæplega helmings þátttöku var því frestað þann 24. mars.
Samningur er undirritaður með fyrirvara um samþykki þeirra 270 félagsmanna sem undir honum munu starfa. Hefst nú vinna við kynningu samningsins og undirbúning atkvæðagreiðslu.