Fagfélögin fylgdu eftir öðrum félögum verkafólks og iðnmenntaðra innan Alþýðusambandsins og undirrituðu kjarasamninga við Samtök Atvinnulífsins í húsakynnum Ríkissáttasemjara, kl. 15 í dag. Samningurinn er í öllum aðalatriðum sambærilegur við þann samning sem skrifað var undir á fimmtudag.
Samningurinn kveður á um 3,25% afturvirka launahækkun frá 1. febrúar síðastliðnum. Lágmarkshækkun launa er 23.750 krónur. Næstu þrjú ár verður árleg hækkun launa 3,5%. Til viðbótar getur komið til greiðslu kauptaxtaauka og framleiðniauka á samningstímanum.
Í samningnum er einnig kveðið á um hækkun orlofs- og desemberuppbóta og að lágmarksávinnsla orlofs verði 25 dagar.
Eins og komið hefur fram gilda samningarnir til næstu 4 ára að uppfylltum innbyggðum forsendum. Með samningunum er reynt að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta og þannig að auknum stöðugleika og fyrirsjáanleika í íslensku atvinnulífi.