Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Fasteignagjöld hækka þrátt fyrir lækkun álagningar

Verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman ´breytingar á álagningu fasteignagjalda og útsvars hjá 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins frá 2018 til 2019. Fasteignagjöld hækka í flestum tilfellum milli ára þrátt fyrir að mörg sveitarfélög lækki álagningarhlutfall. Í mörgum tilfellum hækka gjöld mikið og má m.a. sjá 32,9% hækkun á innheimtri lóðaleigu í sérbýli í Njarðvík í Reykjanesbæ, 31% hækkun á innheimtu vatnsgjaldi í sérbýli hjá Fjarðarbyggð á Reyðarfirði, 26,83% hækkun á sorphirðugjöldum hjá Seltjarnarneskaupstað og allt að 18,8% hækkun á innheimtum fasteignaskatti í sérbýli hjá Ísafjarðarbæ.

Fasteignagjöld samanstanda af fasteignasköttum, fráveitugjaldi, vatnsgjaldi, lóðaleigu og sorphirðugjöldum. Gjöldin eru í flestum tilfellum innheimt sem hlutfall af fasteigna- eða lóðamati en geta einnig verið innheimt með blöndu af föstu gjaldi og fermetragjaldi. Sorphirðugjöld eru þó ávallt innheimt sem fast gjald eða fjölda tunna á húsnæði. Til þess að átta sig á því hvernig fasteignagjöld breytast á milli ára er nauðsynlegt að skoða samhliða breytingar á álagningarhlutfalli sveitarfélaga sem og breytingar á fasteignamati í viðkomandi sveitarfélagi.

Í flestum tilfellum lækkar álagningarhlutfall sveitarfélaganna milli ára eða helst óbreytt en í einhverjum tilfellum hækkar það. Þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á fasteigna- og lóðamati má þó sjá að fasteignagjöldin hækka í flestum tilfellum. Hækkanir á fasteignagjöldum eru því að mestu tilkomnar vegna hækkana á fasteigna- og lóðamati. Útsvarsprósenta stendur í stað í öllum 15 sveitarfélögunum milli ára.

Vegna ólíks fasteignamats er litið á fleiri en eitt hverfi í stærri sveitarfélögum til að fá betri mynd af raunbreytingunni.

Mestar hækkanir á fasteignaskatti hjá Ísafjarðarbæ

Í flestum tilfellum lækkar álagningarhlutfall sveitarfélaganna á fasteignaskatti frá því í fyrra eða í 9 tilfellum af 15 en í 6 tilfellum stendur það í stað. Álagningarhlutfall fyrir fasteignaskatt hækkar ekki í neinu sveitarfélagi milli ára. Mest lækkar álagningarhlutfall í Reykjanesbæ, 25% og þar á eftir í Sveitarfélaginu Árborg, 15,4%. Álagningarhlutfallið stendur í stað hjá Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbæ, Ísafjarðarbæ, Sveitarfélaginu Skagafirði, Fljótsdalshéraði og Fjarðarbyggð.

Þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á fasteignamati hækkar innheimtur fasteignaskattur í flestum sveitarfélögum, þrátt fyrir lækkun á álagningarprósentu margra sveitarfélaga. Innheimtur fasteignaskattur hækkar mest í fjölbýli í eldri byggð hjá Ísafjarðarbæ um 17,2% og í sérbýli á sama stað um 18,8%. Næst mest hækkar fasteignaskatturinn í fjölbýli hjá Akureyrarbæ um 15,6% í fjölbýli í Glerárhverfi og í sérbýli á Egilsstöðum hjá Fljótsdalshéraði um 16,1%.

Hækkun fasteignamats leiðir til þess að innheimtur fasteignaskattur hækkar í flestum tilfellum. Í nokkrum tilfellum er lækkun álagningarhlutfalls meiri en hækkun fasteignamats sem leiðir til lækkunar innheimts fasteignaskatts. Þetta á við í Njarðvík (-2,8%), í fjölbýli í Mosfellsbæ (-1,3%), Keflavík (-1,3) og Vestmannaeyjum (-0,4%).

Mynd 1 - Fasteignagjöld

Allt að 32,9% hækkun á lóðaleigu hjá Reykjanesbæ

Lóðaleiga er innheimt sem hlutfall af lóðamati í öllum sveitarfélögum nema í Kópavogsbæ og Akranesi þar sem lóðaleiga er föst krónutala á fermetra. Aðferðin til að reikna lóðaleigu hjá Akranesbæ  hefur breyst frá fyrra ári þegar lóðaleiga var innheimt sem hlutfall af lóðamati. Álagningarhlutfall sveitarfélaganna af lóðamati stóð í stað milli ára hjá öllum sveitarfélögum nema tveimur. Hjá  Hafnarfirði lækkaði lóðaleiga um 8% milli ára og hjá Mosfellsbær um 7%.

Eftir að breyting á lóðamati milli ára hefur verið tekin til greina má sjá að innheimt lóðaleiga hækkar í langflestum tilfellum. Mest hækkar lóðaleiga í fjölbýli hjá Reykjanesbæ í Keflavík um 28,6% og um 28,2% í Njarðvík.

Í sérbýli hækkar lóðaleigan mest í Reykjanesbæ, þar sem hún hækkar um  32,9% í Njarðvík  og um 31,5% í Keflavík. Þar á  á eftir kemur Sveitarfélagið Árborg með 20,2% hækkun í sérbýli á Selfossi.

Í fjölbýli er hækkunin á lóðaleigu einnig mest hjá Reykjanesbæ, í Keflavík 28,6% og Njarðvík 28,2%, og þar á eftir hjá Akureyrarbæ, í Glerárhverfi, um 25,9% og Efri brekku 25,2%. Í fjölbýli lækkar lóðaleigan um 1,1% fyrir fjölbýli í Mosfellsbæ en það er eina tilfellið þar sem hún lækkar. Lóðaleigan stendur í stað hjá Kópavogsbæ fyrir fjölbýli og sérbýli og einnig í fjölbýli hjá Fjarðarbyggð.

Mynd 2 - Lóðaleiga


31% hækkun á vatnsgjaldi í Fjarðarbyggð

Vatnsgjald er almennt innheimt sem hlutfall af fasteignamati en í Reykjavík, Reykjanesbæ, Akranesi og á Akureyri er innheimtan blanda af föstu gjaldi og gjaldi á hvern fermetra. Hjá Vestmannaeyjabæ er innheimtan reiknuð út frá gjaldi á hvern fermetra.

Sex sveitarfélög lækka álagningarprósentu á vatnsgjaldi milli ára, fimm hækka og hjá fjórum stendur álagningarprósenta í stað. Hækkunin er mest í Fjarðarbyggð,14%, en mesta lækkunin er hjá Kópavogsbæ og Mosfellsbæ, um 7%. Þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á lóðamati má sjá að innheimt vatnsgjald hækkar mest í sérbýli á Reyðarfirði í Fjarðarbyggð, um 31%, og í fjölbýli hjá Sveitarfélaginu Árborg, um 21%.

Mynd 3 - Vatnsgjald

Fráveitugjöld hækka um 19,7% í Keflavík

Fráveitugjöld eru í flestum tilfellum innheimt sem hlutfall af fasteignamati nema hjá Reykjavíkurborg, Akranesbæ og Akureyrarkaupstað en þar miðast fráveitugjöld við blöndu af fastri krónutölu og fermetragjaldi.

Flest sveitarfélögin lækka álagningu milli ára en hjá Ísafjarðarbæ, Sveitarfélaginu Skagafirði, Fljótsdalshéraði og Vestmannaeyjabæ stendur hún í stað. Álagningin hækkar um 4% hjá Reykjavíkurborg og Akraneskaupstað, og um 7% hjá Akureyrarbæ. Breyting á fráveitugjöldum þessara sveitarfélaga er þá upptalin þar sem breyting á fasteignamati hefur ekki áhrif á gjöldin.

Eftir að tillit hefur verið tekið til breytinga á fasteignamati má hinsvegar sjá að innheimt fráveitugjöld hækka mest í sérbýli í Keflavík í Reykjanesbæ, um 19,7%, og um 19,5% í Njarðvík. Þar á eftir koma Egilsstaðir í Fljótsdalshéraði með 16,1% hækkun og Sveitarfélagið Skagafjörður með 14,2% hækkun. Í fjölbýli er hækkunin mest í Eldri byggð á Ísafirði, 17,2%, næst mest í Keflavík Reykjanesbæ, 16,2% og þar á eftir í Njarðvík 14,3%.

Mynd 4 - Fráveitugjöld

26,83% hækkun á sorphirðugjöldum hjá Seltjarnarneskaupsstað

Sorphirðugjöld hækka í öllum sveitarfélögum nema tveimur, Akraneskaupsstað og Akureyrarbæ þar sem þau standa í stað. Mest hækka gjöldin hjá Seltjarnarneskaupsstað um 23,83% og næst mest í Garðabæ, 14,52%.

Mynd 5 - Sorphirðugjald

Útsvar

Engar breytingar eru á útsvari sveitarfélaganna milli ára. Flest sveitarfélaganna eru með útsvar upp á 14,52% eða 9 af 15. Garðabær og Seltjarnarnes eru með lægsta útsvarið sem er 13,7%.

Mynd 6 - Útsvar

Author

Tengdar fréttir