Verðmerkingar í Hagkaup eru óáreiðanlegar og í einhverjum tilfellum eru tvær ólíkar verðmerkingar á sömu vöru í sömu verslun. Dæmi um þetta finnast aðeins örsjaldan í öðrum verslunum. Í einu tilfelli nam munurinn 260 krónum. Rangmerkt verð er oftast að finna á pappírsverðmiðum, en þó ekki eingöngu þar. Þetta er niðurstaða greiningar á gögnum sem verðlagseftirlitið hefur aflað undanfarnar vikur.
Talsverður verðmunur
Verðlagseftirlit ASÍ fer í viku hverri í verslanir til að afla verðupplýsinga. Við athugun á verðgögnum eftirlitsins frá aprílbyrjun mátti sá finna mörg dæmi um tvö verð í sömu verslun sama dag. Langoftast var þar um Hagkaupsverslun að ræða. Eftirfarandi dæmi má nefna um tví-verðmerktar vörur:
- Engifer, Hagkaup Spönginni: 1.399kr og 1.599kr.
- Dökkt sykurlaust Valor súkkulaði, Hagkaup Smáratorgi: 419kr og 479kr.
- Þristaterta, Hagkaup Kringlunni: 2.239kr og 2.499kr.
- Móðir Náttúra indverskar pönnukökur, Hagkaup Kringlunni: 1.499kr og 1.579kr.
Nokkrir tugir annarra vara fundust, til dæmis fleiri vörur frá Valor, aðrar frá Nóa Síríus, Kjörís Hlunkar, Ítalía Pestó og svo framvegis. Eins og gefur að líta er hér um alls kyns flokka að ræða og lítið mynstur annað en að yfirleitt er um pappírsmerkingar að ræða á að minnsta kosti öðru verðinu.
Sektir hafa ekki dugað
Verðmerkingum Hagkaups hefur verið ábótavant lengur en bara undanfarnar vikur. Neytendastofa framkvæmdi athugun á verðmerkingum í Hagkaup Kringlunni 7. og 13. febrúar 2023 og gerði „sérstakar athugasemdir við verðmerkingar í snyrtivörudeild og barnadeild.“ Neytendastofa kom aftur 22. og 24. mars 2023 og „[e]nn voru gerðar athugasemdir við að verðmerkingum væri ábótavant.“ Þann 4. apríl 2023 fékk Hagkaup tveggja vikna frest til að svara fyrir sig. „Engin svör bárust af hálfu félagsins.“
Þann 23.-26. maí 2023 fór Neytendastofa svo í Skeifuna. „[V]erðmerkinga var ábótavant“ í Hagkaup þar líka. Þann 2. júní 2023 var „þeim eindregnu fyrirmælum beint til [Hagkaups] að koma verðmerkingum í betra horf.“ Mánuði síðar voru verðmerkingar aftur skoðaðar og „[e]nn voru gerðar athugasemdir við að verðmerkingum væri ábótavant.“ Í þetta skiptið lofaði fyrirtækið betrun.
Sektir Neytendastofu í þessum tveimur málum námu 150.000 krónum, en það hefur ekki dugað til, því enn eru verðmerkingar óviðunandi í Hagkaupsverslunum. Verðlagseftirlitið brýnir því fyrir fólki að taka verðmerkingum í Hagkaup með fyrirvara og athuga sérstaklega við kassann hvort rétt verð sé rukkað.