Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Friður og landtaka geta ekki farið saman

Rætt við Majdi Shella, verkalýðsleiðtoga í Nablus í Palestínu

Í lok október fór hópur fólks innan Alþýðusambands Íslands í ferð til Ísrael og Palestínu til að kynna sér aðstæður og aðbúnað verkafólks í Palestínu. Að gefnu tilefni skal tekið fram að ekki var um boðsferð að ræða heldur greiddi hver þátttakandi fyrir sína ferð að fullu. Á þessu stutta ferðalagi var fundað stíft með verkalýðsleiðtogum, stjórnmálamönnum, hópurinn hitti lækni sem hefur látið sig baráttu Palestínumanna miklu varða og skoðaðar voru flóttamannabúðir í Nablus þar sem aðstæður voru hrollvekjandi. Einn af þeim sem hópurinn hitti var Majdi Shella, 53 ára gamlan keikan karl, sem er formaður félags leiðsögumanna í borginni Nablus. Majdi hefur starfað lengi innan verkalýðshreyfingarinnar í Palestínu og þekkir stöðu vinnandi fólks í Palestínu betur en margur. Vinnan lagði nokkrar spurningar fyrir Majdi Shella til að skilja betur ástandið í þessu landi sem svo oft er í fréttum en fáir átta sig á hvernig er í raun.

„Meðallaun hér í Palestínu eru um 700 bandaríkjadalir, en dæmigerð fjölskylda þarf 1.500 dali á mánuði til að framfleyta sér. Þannig að þú sérð að lífið er enginn dans á rósum fyrir mjög marga.“

Majdi Shella

21 árs í fangelsi

Hvernig kom það til að þú byrjaðir að vinna fyrir verkalýðshreyfinguna í Palestínu?

„Ég gekk til liðs við sjálfboðastarfið í Palestínu mjög ungur (13 ára) skömmu fyrir 1980 og hjálpaði þá til við ýmis verk bæði í borgarhverfum og úti í sveitunum svo sem þrif, málningar- og byggingarvinnu, aðstoð við bændur og aðhlynningu sjúkra.

Snemma á níunda áratugnum var ég í hópi þeirra sem stofnuðu Æskulýðssamtök Palestínu (PNYU) og Samtök framhaldsskólanema í Palestínu. Helsta markmið þessara samtaka er að sinna skipulagi, menntun og samfélagsþátttöku námsfólks og félaga í ungmennahreyfingunni. Ég var hnepptur í varðhald nokkrum sinnum vegna þessara starfa og það gerði mér mjög erfitt fyrir að halda áfram námi. Nokkurra daga varðhald skömmu fyrir lokapróf getur spillt fyrir árangri alls námsársins. Þess vegna fór ég út á vinnumarkaðinn í kringum 1985 og gekk þá strax í verkalýðsfélag. Eitt árið var ég yngsti kjörni verkalýðsforinginn í verkalýðsfélögunum í Nablus.

Eftir að fyrsta uppreisnin – intifada – gegn hernámi Ísraela hófst árið 1987 sat ég í varðhaldi frá 1988 til 1991. Þegar ég losnaði aftur úr fangelsi byrjaði ég aftur að starfa fyrir verkalýðssamtökin.“

Hvernig er lífi venjulegs vinnandi fólks háttað í Palestínu?

„Framfærslukostnaður er almennt hár í Palestínu – ekki síður en í Ísrael. Lágmarkslaunin eru sem samsvarar 400 bandaríkjadölum í Palestínu en 1.500 í Ísrael.

Atvinnuleysi er 20% á Vesturbakkanum og allt að 60% á Gazaströndinni. Fátækt er um 15% á Vesturbakkanum og um 60% á Gaza.

Meðallaun hér í Palestínu eru um 700 bandaríkjadalir, en dæmigerð fjölskylda þarf 1.500 dali á mánuði til að framfleyta sér. Þannig að þú sérð að lífið er enginn dans á rósum fyrir mjög marga. Útgjöld venjulegrar fjölskyldu skiptast þannig að um 35% er eytt í mat, um 20% í samgöngur (eftirlitsstöðvar) og um 10% er húsnæðiskostnaður. Skólaganga er ekki ókeypis og þá er lyfjakostnaður heldur ekki niðurgreiddur að fullu. Vinnandi fólk í Palestínu kemst af á þann hátt að fjölskyldur deila húsnæði og öllum daglegum útgjöldum, og við það bætist að hluta til erlend aðstoð.“

„Þegar þeir koma heim að loknum vinnudegi úrvinda og svo seint að kvöldi gefst lítill tími til að sinna fjölskyldunni.“

Lagt af stað til vinnu kl. 2 að nóttu

Sumir sækja vinnu yfir landamærin og sinna störfum í Ísrael. Hvernig gengur það fyrir sig?

„Atvinnuleysið fer vaxandi og nú eru um 40.000 manns án atvinnu og af þeim mikla fjölda ungs fólks sem lýkur námi í framhaldsskólum og háskólum á hverju ári tekst aðeins um 8.000 að finna vinnu heima fyrir. Þetta veldur því að margir úr þeim hópi, og fjöldi annarra, leita sér að vinnu innan ísraelsku landamæranna með aðstoð sérstakra milligöngumanna, og þiggja oft hvað sem í boði er. Þeir sem eru svo heppnir að fá atvinnuleyfi (og fyrir það verða þeir að greiða 500–700 bandaríkjadali) verða að leggja af stað í vinnuna um kl. 2 að nóttu til að komast í gegnum eftirlitsstöðvarnar. Þar þurfa þeir að þola mjög strangt eftirlit af ýmsu tagi, persónulegt áreiti og langa bið. Þegar þeir koma heim að loknum vinnudegi úrvinda og svo seint að kvöldi gefst lítill tími til að sinna fjölskyldunni, hvað þá nokkru félagslífi.

Þeir sem fá ekki atvinnuleyfi verða að greiða milligöngumönnunum og eiga á hættu að verða skotnir eða handteknir, auk þess sem þeir njóta engrar verndar á vinnustað og oftar en ekki eru starfsaðstæður mjög slæmar. Um 180 þúsund Palestínumenn vinna í Ísrael, þar af 125 þúsund með atvinnuleyfi. Árið 2019 létust 48 Palestínumenn í vinnuslysum á ísraelsku landsvæði og það segir sína sögu.“

Hvernig myndir þú lýsa stöðu mála í Palestínu núna?

„Frá árinu 1967 til dagsins í dag hafa Palestínumenn lifað eitt erfiðasta tímabil í sögu sinni. Við höfum þurft að þola þröngan efnahag, umsátur og lokanir, þrúgandi eftirlit, aðskilnaðarmúrinn, útbreiðslu landnemabyggða, flutning sendiráðs Bandaríkjanna til Jerúsalems, Trump og „samning aldarinnar“. Að ekki sé talað um ágreininginn milli Fatah og Hamas! Sú staða getur leitt til þess að allt fari á hvolf,“ segir Majdi og áhyggjurnar leyna sér ekki.

Hafa einhverjar breytingar orðið undanfarin ár á aðstæðunum sem þú varst að lýsa?

„Svarið við því er einfalt. Nei, þær fara bara versnandi.“

Börn eiga rétt á að alast upp sem börn

Hefur eitthvað verið gert til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði?

„Að því er varðar réttindi vinnandi kvenna setti Palestinian General Federation of Trade Unions (nokkurs konar ASÍ Palestínu) á fót á tíunda áratugnum deild til að sinna þeim málum og vinna að bættum kjörum kvenna. Meðal annars með því að skipuleggja reglulegar heimsóknir á vinnustaði, fræða konur um réttindi sín sem launamanna og hvetja þær til að ganga í verkalýðsfélög. Auk þess voru haldnir fræðslufundir til að auka þekkingu og kennt hvernig á að byggja upp tengslanet. Þá beitti PGFTU sér fyrir breytingum á lögum og reglugerðum til að styrkja réttindi kvenna. Árið 2013 tókst okkur að fá samþykkt lágmarkslaun og berjumst núna fyrir því að fá þau hækkuð. Við vinnum sömuleiðis að því að draga úr kynferðislegri áreitni á vinnustað.

PGFTU viðurkennir ekki kosningar í verkalýðsfélögum sem útiloka konur, og sú krafa er gerð að konur séu að minnsta kosti 30% fulltrúa, allt frá efstu stöðum í samtökunum til einstakra verkalýðsfélaga og deilda.“

Þú hefur sinnt velferðarmálum barna í Balata-flóttamannabúðunum. Segðu aðeins frá því.

„Já það er rétt. Verkefnin sem ég sinni í flóttamannabúðunum eru einn þátturinn í starfi mínu til að reyna að bæta samfélagið sem ég tilheyri. Ég legg mesta áherslu á búðirnar vegna þess að fólkið þar býr við þrengri kjör og lifir erfiðara lífi en annars staðar.

Ég trúi því að börn eigi rétt á að lifa sem börn, en um leið verður því ekki neitað að átökin á svæðinu taka mikið á þau sem bitnar einkum á geðheilsu þeirra. Þess vegna vinnum við að því að koma upp félagslegri og menningarlegri starfsemi af ýmsu tagi til þess að vinna gegn þessum óæskilegu áhrifum á geðheilsu barnanna. Við reynum að skapa þeim aðstæður sem gera þeim kleift að lifa eins eðlilegu lífi og nokkur kostur er. Það getur verið erfitt en er á sama tíma mjög gefandi.“

„Við erum ekki andsnúin því í grundvallaratriðum að Ísrael verði áfram til sem þjóðríki. Barátta okkar snýst um réttinn til frelsis og sjálfstæðis.“

Aðskilnaðarstefna við lýði

Hvernig geta aðrar þjóðir hjálpað Palestínumönnum í baráttunni við Ísraelsríki fyrir auknum réttindum?

„Við erum ekki andsnúin því í grundvallaratriðum að Ísrael verði áfram til sem þjóðríki. Barátta okkar snýst um réttinn til frelsis og sjálfstæðis. Fólkið í Palestínu myndi taka því tveimur höndum að fá að deila landinu með Ísraelsmönnum (í tveimur ríkjum eða einu).

Allir sem búa við frelsi og lýðræði ættu að koma því skýrt á framfæri við Ísraelsstjórn að friður og landtaka geta ekki farið saman. Ríki sem stundar aðskilnaðarstefnu getur ekki talist lýðræðislegt. Og það er ekki hægt að nota annað orð en aðskilnaðarstefna yfir það sem hér er í gangi.

Annars vegar þarf að styðja réttindi palestínsku þjóðarinnar og hins vegar þarf að beita Ísraelsmenn þrýstingi. Markmiðið er ekki að ná fram viðskiptabanni. Það sem við þurfum á að halda er að frjáls ríki sendi þau skilaboð að ekki verði við óbreytt ástand unað.“

Hvað gæti íslenska verkalýðshreyfingin gert til að hjálpa palestínsku þjóðinni?

„Við biðjum íslensku verkalýðshreyfinguna að kynna Íslendingum kröfur Palestínumanna. Það er ósk okkar að stjórnvöld Evrópusambandsríkjanna viðurkenni Palestínuríki og að litið verði á þá viðurkenningu sem raunhæft skref til að styrkja réttindi palestínsku þjóðarinnar.“

Öfgakennd hægri stefna óvinur okkar

Hvernig sérð þú framtíð palestínsku þjóðarinnar fyrir þér?

„Meðan öfgakennd hægristefna ræður ríkjum í Ísrael og nýtur stuðnings Bandaríkjanna, auk þess sem Evrópusambandið þegir þunnu hljóði, þá verður þess langt að bíða að nokkuð breytist.

Palestínumenn eiga engra annarra kosta völ en að efla samstöðu sína og halda baráttunni áfram. Palestínumenn eru lifandi þjóð. Við höfum staðið af okkur margs konar erfiðleika og munum komast í gegnum þessar þrengingar líka og öðlast frelsi að lokum,“ segir Majdi Shella, verkalýðsforingi og mannvinur, með vonarblik í auga. „Mig langar í lokin að senda mínar bestu kveðjur til íslensku verkalýðshreyfingarinnar, sjálfboðaliða íslenskra sem hingað hafa komið til starfa og öðrum samtökum frá ykkar landi sem stutt hafa baráttu okkar. Við erum mjög þakklát fyrir ykkar hjálp.“

Tengdar fréttir