Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Góð störf í sjálfbæru eldi á landi og í sjó – Íslendingar stýrðu fundi ILO

Covid-19 faraldurinn hefur undirstrikað mikilvægi öruggs fæðuframboðs í heiminum og sjálfbært eldi í sjó og á landi hefur tekið eftirtektarverðum framförum á stuttum tíma. Með því er hægt að auka fæðuöryggi á fátækum svæðum á umhverfisvænan máta um leið og búinn er til fjöldi nýrra og góðra starfa. Á tímum þegar fólksfjölgun er mikil og landnýting í landbúnaði er víða komin að þolmörkum hefur athyglin í auknum mæli beinst að þessum möguleika í fæðuframleiðslu sem hugsanlega getur orðið aðaluppspretta þeirra próteina sem okkur eru nauðsynleg. Þetta er meðal þess sem kom fram á sérfræðingafundi Alþjóðavinnumálstofnunarinnar (ILO) um miðjan desember þegar rætt var um framtíð starfa í eldi.

Ólíkt því sem ætla mætti er ræktun og eldi matvæla í vötnum og sjó ekki ný af nálinni en á undaförnum áratugum hefur þessari aðferð í matvælaframleiðslu dregið úr fátækt og hungri í þriðja heiminum. Ríflega 20 milljónir manna hafa í dag lifibrauð af slíkri framleiðslu og enn fleiri þegar aðfangakeðjur vegna atvinnugreinarinnar eru teknar með í reikninginn. Mikilvægi eldis hefur aukist enn frekar á tímum Covid-19. ILO fylgist nú með hvernig gæði starfa í þessari vaxandi atvinnugrein þróast.

Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur ASÍ og meðlimur stjórnar ILO, stýrði sérfræðingafundi stofunarinnar í Genf í desember sl. um þetta málefni.

„Á fundinum mættust margir helstu sérfræðingar aðildarríkja ILO til þess að taka stöðuna með áherslu á réttarstöðu launafólks í þessari grein sem satt best að segja er víða bágborin. Reyndar merkilegt einnig að sjá, að fyrirtæki hér á Vesturlöndum sem stunda þessa atvinnustarfsemi á skikkanlegan hátt í sínu nærumhverfi haga sér stundum því miður með öðrum hætti þegar þau starfa í öðrum heimshlutum. Staðreyndin er sú, að ef við ætlum að tryggja að eldi geti skapað hagvöxt sem komi öllum til góða, skapi góð störf og sjálfbær fyrirtæki þar sem réttindi launafólks og stéttarfélaga eru virt er nauðsynlegt að „jafna leikinn“, segir Magnús á vef ILO.

Magnús sagði fundinn einnig hafa verið nokkuð sérstakan að því leyti að þrír Norðurlandabúar hafi verið í lykilhlutverkum. Auk sín sem hafi stýrt nefndinni hafi Kristján Bragason, fyrrum framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og nú framkvæmdastjóri EFFAT (European Federation of Food, Agriculture and Tourism Trade Unions), stýrt samningahópi launafólks og Henrik Munthe, lögfræðingur norska atvinnurekendasambandsins (NHO), stýrt samningahópi atvinnurekenda. Ríkisstjórnarhópurinn hafi síðan verðið leiddur af fulltrúa Tyrklands.

Nánar á lesa um fundinn og niðurstöður hans á vef ILO en sérstök athygli er vakin á þeirri skýrslu sem lá til grundvallar í störfum fundarins „The future of work in aquaculture in the context of the rural economy“.

Tengdar fréttir