Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Græðgi fyrirtækja frumorsök lífskjarakreppu

Raunlaun í Evrópusambandinu (ESB) halda áfram að lækka þrátt fyrir að hagnaður fyrirtækja hafi almennt verið umfram verðbólgu það sem af er þessu ári. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Evrópusambands verkalýðsfélaga (ETUC).  

Raunlaun lækka á meðan raunhagnaður fyrirtækja eykst í níu aðildarríkjum ESB, þar á meðal Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu. Í 10 aðildarríkjum til viðbótar eru aukning raunhagnaðar fyrirtækja meiri en hækkun launa. 
 
Mest er aukning raunhagnaðar fyrirtækja í Slóvakíu (+8%) og Rúmeníu (+7%), þar sem kaupmáttur launa hefur dregist saman. Mest lækkun kaupmáttar launa mælist í Tékklandi (-5%) og Ítalíu (-2%), þar sem hagnaður hefur aukist að raunvirði. 
 
ETUC birti greininguna fyrir kynningu á stefnuskrá sinni sem ber yfirskriftina „Sanngjarnan samning fyrir launafólk“ og sambandið birtir vegna kosninga til Evrópuþingsins sem fram fara í júní á næsta ári.  

Tölurnar sýna hvernig vinnandi fólki er enn gert að bera byrðar kreppu af völdum verðbólgu sem fyrst og fremst stafar af því að fyrirtæki notfæra sér truflanir í aðfangakeðjum til að hækka verð og auka þannig hagnað sinn. 
 
Hærri arðgreiðslur, aukin fátækt  

Hagnaðarhlutdeild hefur að meðaltali aukist um 4% í Evrópusambandinu frá upphafi COVID-heimsfaraldursins en arðgreiðslur til hluthafa fyrirtækja hækka allt að 13 sinnum hraðar. 
 
Á sama tíma hefur börnum sem alast upp í fátækt í Evrópusambandinu fjölgað þriðja árið í röð þar sem verð á helstu matvælum heldur áfram að hækka allt að sjö sinnum hraðar en laun.  

Í kosningastefnuskrá ETUC eru stjórnmálamenn hvattir til að styðja eftirfarandi stefnumál: 

  • Hvalrekaskatta á umframhagnaðinn sem hefur ýtt undir verðbólgu.  
  • Endurskoðun á tilskipunum um opinber innkaup sem gerir aðgengi fyrirtækja að opinberu fjármagni háð því að réttur til kjarasamninga sé virtur.  
  • Metnaðarfulla innleiðingu á tilskipun um viðunandi lágmarkslaun á landsvísu, sem miðar að 80% þekju kjarasamninga í hverju aðildarríki.  

Aukin misskipting færir öfgamönnum sóknarfæri 

Esther Lynch, framkvæmdastjóri ETUC, segir mikilvægt að horfið verði frá þeirri stefnu að leggja sífellt auknar byrðar á launafólk og varar við pólitískum afleiðingum áframhaldandi aðgerðaleysis.  

„Frá heimsfaraldrinum hafa tekjur launafólks í Evrópu dregist saman þrátt fyrir að hagnaður fyrirtækja hafi aukist. Forstjórar og hluthafar hafa orðið ríkari á meðan fólk sem vinnur langan vinnudag í erfiðum störfum berst við að brauðfæða fjölskyldur sínar og hita heimili sín. Þrátt fyrir það hafa margir stjórnmálamenn látið vinnandi fólk taka á sig allar byrðar þessara lífskjarakreppu.   

Evrópukosningarnar verða að marka þáttaskil í þessu efni. Það er kominn tími á stefnu sem tekur á frumorsök  þessarar kreppu – græðgi fyrirtækja – og skilar sanngjörnum samningi fyrir vinnandi fólk. Við skorum á lýðræðislega evrópska stjórnmálaflokka að tryggja að öfgahægrimenn fái ekki tækifæri til að nýta sér vaxandi reiði í röðum almennings vegna misskiptingarinnar. Eina leiðin til þess er að bjóða upp á raunverulegar lausnir á lífskjarakreppunni og byggja upp Evrópu sem byggir á frábærum störfum og góðum lífskjörum fyrir alla.“ 

 

Author

Tengdar fréttir