Search
Close this search box.
Search
Close this search box.
peningaseðlar

Hvað varð um vaxtabæturnar?

Í nýútgefnu mánaðaryfirliti var að finna umfjöllun um skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar og samanburð á því hvernig úrræðið nýtist tekjuhærri hópum tekjudreifingar heldur en vaxtabótakerfið. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum lagt aukna áherslu á að styðja við ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán með skattfrjálsri ráðstöfun. Þessi áherslubreyting hefur orðið á kostnað vaxtabótakerfisins sem hefur verið markvisst veikt síðastliðinn áratug. Vaxtabótakerfið var einnig til umfjöllunar í nýlegum kjarafréttum Eflingar, en þar kom m.a. fram að framteljendum sem fengu vaxtabætur hefði fækkað úr 45 þúsund árið 2013 í einungis 15 þúsund árið 2020. Hvers vegna fá æ færri vaxtabætur og hvers vegna hefur kostnaður við vaxtabótakerfið dregist saman?

Eignarskerðingar hafa veikt vaxtabótakerfið

Vaxtagjöld af húsnæðislánum mynda rétt til vaxtabóta. Vaxtabætur geta að hámarki orðið 420 þúsund á einstakling á ári, 525 þúsund fyrir einstætt foreldri og 630 þúsund fyrir hjón. Endanlegar vaxtabætur ráðast hins vegar af nokkuð flóknu samspili eignastöðu, tekna og eftirstöðva skulda. Vaxtagjöld sem koma til útreiknings og ráða vaxtabótum eru sú fjárhæð sem er lægst af vaxtagjöldum, 7% af eftirstöðvum skulda eða hámarks vaxtagjöldum sem leyfileg eru. Sú fjárhæð skerðist svo eftir bæði tekjum eða eignum.

Tekjuskerðing er 8,5% af tekjustofni og dregst frá vaxtagjöldum. Eignaskerðing er 7% og hefst við 5 milljónir í eigið fé (8 milljónir hjá hjónum) þar til réttur til vaxtabóta fellur niður við 8 milljón króna eign (12 milljónir hjá hjónum).  

Þróun skerðinga og bótafjárhæða hefur orðið til þess að sífellt smærri hópur á rétt til vaxtabóta. Hámarksvaxtabætur hafa þannig að mestu staðið í stað frá árinu 2010, ef frá er talin 20 þúsund króna hækkun árið 2018 þegar þær hækkuðu úr 400 í 420 þúsund fyrir einstakling. Skerðingarhlutfall tekna hefur hins vegar hækkað nokkuð yfir tíma, var 6% við aldarmót, hækkaði í 8% árið 2010 og er í dag 8,5%.

Öðru fremur hefur samspil eignaverðs og vaxtabótakerfisins orðið til þess að veikja vaxtabótakerfið. Líkt og kemur fram að ofan byrjar eign að skerða bætur við 5 milljónir í eigið fé (8 milljónir hjá hjónum) þar til réttur til vaxtabóta fellur niður við 8 milljóna króna eign. Eignaskerðing leiðir því til þess að vaxtabætur falla niður við 24% eignarhlut í meðalíbúð í Reykjavík hjá pari, 90 fm að stærð. Hjá einstaklingi falla þær niður við 16% eignarhlut. Hlutfallið lækkaði jafnt og þétt frá aldamótum þar sem skerðingarmörk hafa ekki þróast í takt við eignaverð. Sem dæmi, kostaði 90 fm íbúð að jafnaði um 11 milljónir króna árið 2001. Par sem festi kaup á slíkri íbúð gat átt í henni 50% eigið fé án þess að eign tæki að skerða vaxtabætur. Tíu árum síðar var meðalverð á sambærilegri íbúð 22,6 milljónir og vaxtabætur tóku að skerðast við 29% eignarhlut. Framangreindar tölur sýna hvernig eignaskerðing á sér stað í vaxtabótakerfinu og hvernig vaxtabótakerfið hefur verið veikt yfir tíma. Heildarskerðingar eru hins vegar meiri og ráðast af samspili eignaskerðinga, tekjuskerðinga og vaxtagjalda sem ráðast af vöxtum og húsnæðisskuldum.  

 

Author

Tengdar fréttir