Listráð Listasafns ASÍ hefur valið Bjarka Bragason til samstarfs um sýningar á tveimur stöðum á landinu 2020. Safnið kallaði eftir tillögum frá listafólki fyrr í sumar og alls bárumst 55 tillögur frá 62 listamönnum.
Bjarki Bragason er fæddur 1983 og lærði myndlist í Berlín og Listaháskóla Íslands þaðan sem hann lauk BA-gráðu í myndlist árið 2006 og síðan MFA frá CalArts í Los Angeles 2010. Hann hefur verið lektor og fagstjóri BA náms í myndlist við Listaháskóla Íslands síðan 2016.
Bjarki hefur unnið um nokkurt skeið að verkefninu ÞRJÚÞÚSUND OG NÍU ÁR sem tengist garði ömmu hans og afa og 3000 ára birkitré sem kom undan Breiðamerkurjökli vegna bráðnunar af völdum loftslagsbreytinga. Hann kannar hvernig kortlagning breytinga fer fram og safnar hlutum þar sem ferlið er honum jafn mikilvægt og hlutirnir sjálfir.
Viðfangsefni Bjarka snúast um manneskjuna og náttúruna á tímum vitundarvakningar um hamfarahlýnun og hraðar breytingar í loftslagmálum; og spegla árekstra mennska og jarðfræðilega tímaskalans. Hann vinnur á mismunandi hátt með ólíka þætti verkefnisins og setur þá fram sem tákn breytinga í náttúru, samfélagi, stéttarsögu og jarðsögu.
Bjarki Bragason er þriðji listamaðurinn sem Listasafn ASÍ velur til þáttöku í nýrri sýningarröð sem hleypt var af stokkunum í byrjun árs 2017. Árið 2017 var Sigurður Guðjónsson valinn og haldnar voru sýningar í Hafnarfirði og á Blönduósi með verkum hans. Fyrir sýninguna INNLJÓS í Hafnarfirði hlaut Sigurður íslensku myndlistarverðlaunin 2018. Hildigunnur Birgisdóttir varð fyrir valinu árið 2018 og fyrr á þessu ári voru haldnar tvær samhliða sýningar – UNIVERSAL SUGAR – með verkum hennar í Garðabæ og í Vestmannaeyjum.
Ljósmynd:
Bjarki Bragason með Dorothée Kirch og Elísabetu Gunnarsdóttur safnstjóra sem skipa listráð Listasafns ASÍ 2017-2020 ásamt Heiðari Kára Rannverssyni.