Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Lítill munur á verði hjá matvöruverslunum á netinu

Iceland er dýrasta matvöruverslunin samkvæmt könnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var þriðjudaginn 19. nóvember. Lítill munur er á verði hjá þeim matvöruverslunum sem eru á netinu.

Iceland var oftast með hæstu verðin, í 52 tilvikum af 102, Kjörbúðin næst oftast, í 19 tilvikum og Hagkaup í 17 tilvikum. Bónus var lang oftast með lægstu verðin eða í 68 tilvikum af 102. Í mörgum tilfellum var mikill verðmunur í könnuninni en algengasti verðmunurinn var 20-40% eða í 45 tilvikum af 102. Í 19 tilfellum var verðmunurinn 40-60% og í 13 tilvikum var verðmunurinn 60-80%.

Af hefðbundnum verslunum er Bónus ódýrust en Iceland dýrust
Bónus er ódýrasta verslunin samkvæmt könnuninni með lægstu verðin í 52 tilvikum af 102 en í öðrum tilvikum dreifðust lægstu verðin yfir margar verslanir. Næst ódýrasta búðin er Krónan en á eftir henni koma Nettó og Netto.is ef horft er á heildarverðlag í verslununum. Lengra er þó á milli Krónunnar og Nettó í verðlagi en Krónunnar og Bónus.
Á eftir Nettó búðunum koma Fjarðarkaup og síðan Heimkaup.is en þær verslanir eru með svipað verðalag. Boxid.is og Super 1 koma þar á eftir með lítið eitt hærra verðlag en í Fjarðarkaupum. Á dýrari endanum er Iceland sem er dýrasta búðin og oftast með hæstu verðin og Hagkaup þar á eftir sem er þó töluvert frá Iceland í verði. Kjörbúðin kemur þar á eftir og er litlu ódýrari en Hagkaup og í reynd oftar með hæstu verðin eða í 19 tilfellum af 102 en Hagkaup í 17 tilfellum.
Mikill munur var á hæsta og lægsta verði í könnuninni en í 42 tilvikum af 102 var 20-40% verðmunur en í 42 tilvikum var verðmunurinn yfir 40%. Sem dæmi má taka 57% verðmun á hangikjötssalati frá Sóma sem var dýrast í Iceland á 559 kr. en ódýrast í Bónus, 357 kr. Þá var 54% munur á lægsta og hæsta kílóverði af ýsuflökum, lægst var kílóverðið í Bónus 1.198 kr. en hæst á Netto.is 1.850 kr. kg. Mesti verðmunur á Stjörnu partý mix snakkpoka var 73% en dýrastur var hann á 599 kr. í Kjörbúðinni en ódýrastur á 347 kr. í Super 1. Þá var mikill verðmunur á drykkjarvörum en af drykkjarvörum var mestur verðmunur á bláum Powerade, 155%. Lægsta verðið mátti finna í Bónus, 129 kr. en það hæsta, 329 kr. í Iceland.

Tafla með litakóða – pdf

Sendingargjald bætist við pantanir hjá netverslunum og hækkar verð
Aukinn kostnaður getur fylgt því að kaupa mat hjá netverslunum þegar þær peningaupphæðir sem verslað er fyrir eru ekki háar. Í töflunni hér að neðan má sjá hvernig heimsendingarkostnaður leggst á pantanir frá netverslununum. Lægsti heimsendingarkostnaðurinn er hjá Heimkaup.is en þar leggst enginn sendingarkostnaður á pantanir yfir 9.000 kr. en hæsti sendingarkostnaðurinn er hjá Netto.is þar sem versla þarf fyrir 15.000 kr. eða meira til að losna við sendingarkostnað.

Um könnunina
Í könnuninni var hilluverð á 102 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

Litakóðun er notuð á töfluna sem sýnir verðin úr könnuninni til að sýna há og lág verð í könnuninni og til að staðsetja verslanir í verði. Hæstu verðin eru rauðlituð en þau lægstu grænlituð og þau sem lenda á milli eru frá appelsínugulu yfir í ljósgræn. Til að fá fram röðunina á verslununum eru frávik frá lægsta verði reiknuð og raðast verslanirnar því eftir því hversu langt þær eru frá þeirri verslun sem er með lægstu verðin. Þar sem verð vantar eru meðalverð notuð. Þannig raðast verslun sem er næst ódýrustu versluninni í verði við hliðina á henni og sú sem er lengst frá henni í verði raðast lengst frá henni í röðinni.

Könnunin var framkvæmd þriðjudaginn 19. nóvember á sama tíma í öllum verslunum en þær eru: Bónus Holtagörðum, Nettó Lágmúla, Super 1 Hallveigarstíg, Krónan Granda, Hagkaup Skeifunni, Iceland Engihjalla, Fjarðarkaupum og Kjörbúðinni Neskaupstað. Þær vefverslanir sem verð voru könnuð hjá eru www.netto.is, www.boxid.is og www.heimkaup.is. Í könnuninni er einungis gerður samanburður á verði en ekkert mat er lagt á gæði eða þjónustu viðkomandi verslana.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Author

Tengdar fréttir