Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Miðlunarheimildir ríkissáttasemjara eru hvorki einfaldar eða óumdeildar

 

„Á það má minna að miðlunartillaga er neyðarúrræði til lausnar kjaradeilu.“ (úr nefndaráliti með frumvarpinu 1996)

Það er því einfaldlega rangt, að mat ríkissáttasemjara eitt skuli ráða því hvort miðlunartillögu megi leggja fram í skilningi 27.gr. laga nr. 80/1938. Ýmis skilyrði þarf að uppfylla, rökstyðja þarf með fullnægjandi hætti í samræmi við réttarheimildir og velja síðast en ekki síst rétta tímasetningu til framlagningar.

Til þess að misfara ekki með heimild sína þarf ríkissáttasemjari að koma með sjálfstæða uppástungu um lausn þar sem báðir aðilar gefa nokkuð eftir og hann verður að telja tillögu sína líklega til sátta. Vegna þessara skilyrða þróuðust svokallaðar innanhústillögur þar sem hugur samningsaðila var kannaður og þá um leið hvort „tillagan“ gæti verið líkleg til sátta ef miðlað yrði.

Séu þessi skilyrði hins vegar ekki uppfyllt ber  sáttasemjara að fara varlega með heimildir sínar og gæta þess að deila aðila sé „nægilega þroskuð“ ef svo má segja sem einfaldlega þýðir að aðilum hafi tekist með raunverulegum hætti að þrýsta á um kröfur sínar. Slíkur þrýstingur þýðir beitingu lögmætra þvingunarúrræða þ.e. vinnustöðvana.

Réttur samtaka launafólks til þess að þrýsta á um kröfur sínar í vinnudeilum með boðun vinnustöðvana eru grundvallarmannréttindi sem varin eru af fjölmörgum evrópskum og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem lagagildi hafa hér á landi. Hér vísast m.a. til Félagsmálasáttmála Evrópu, Alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og samþykkta Alþjóða vinnumálastofnunarinnar nr. 87 og 98.

Í stjórnarskrá Íslands er þessi réttur einnig óbeint varinn af ákvæði 74. gr. um félagafrelsi og þá sérstaklega með vísun hennar til frjálsrar starfsemi stéttarfélaga. Viðurkennt er, að rétturinn sætir þeim takmörkunum einum sem greindar eru í lögum en jafnframt að þær takmarkanir beri að túlka þröngt. Það á við um heimildir löggjafans og ríkissáttasemjara til þess að grípa inn í vinnudeilur.

Miðlunarheimildir komu upphaflega í lög með 4.gr. laga nr. 55/1925 en endurspeglast nú lítt breyttar í 27.gr. laga nr. 80/1938. 1996 fékk ríkissáttasemjari síðan, gegn eindreginni andstöðu ASÍ, heimild til þess að tengja saman deilur fleiri félaga sem ráðið skyldi til lykta með sameiginlegri atkvæðagreiðslu þeirra allra.

Upphaflegur tilgangur með heimildum sáttasemjara voru og eru enn, að hann hefur rétt til „ ….að bera fram uppástungur um ívilnanir af beggja hálfu, sem líklegar væru til að draga til sátta. Þyki honum líklegt til sátta, getur hann borið fram miðlunartillögu,..“ eins og það var orðað 1925.

Í gildandi lögum hefur orðalagið verið einfaldað en í 27.gr. segir nú: „Ef samningaumleitanir sáttasemjara bera ekki árangur er honum heimilt að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu.“ Við allar lagabreytingar síðan 1925 þ.e. 1938, 1978 og 1996 kemur fram að engar efnisbreytingar sé verið að gera á þessari miðlunarheimild sáttasemjara sem reyndar sé nokkuð rúm og sjaldan notuð.

Síðan er það óháð öllu öðru að ríkissáttasemjara er ekki heimilt að beita miðlunarheimildum sínum til þess að takmarka löglega heimild stéttarfélaga til þess að þrýsta á um kröfur sínar með boðun vinnustöðvunar. Geri hann það, hvað sem núverandi orðlagi 27.gr. laganna líður, því það ákvæði víkur fyrir stjórnarskrá, fer hann gegn grundvallarmannréttindum frjálsra stéttarfélaga. Það á augljóslega við þegar staðan er sú að atkvæði hafa ekki verið greidd um tillögu að vinnustöðum og því óvíst hvort til hennar kemur.

Engum vafa er undirorpið, að Alþingi hefur tilteknar heimildir til þess að stöðva eða koma í veg fyrir verkföll með lagasetningu og lögbundnum gerðardómum og takmarka þannig frjálsan verkfallsrétt stéttarfélaga. Sú heimild er takmörkuð og bundin við að verið sé að vernda líf og allsherjarreglu. Um þetta hafa íslenskir og alþjóðlegir dómstólar ítrekað fjallað og íslenska ríkið sætt athugasemdum af hálfu alþjóðastofnana þegar þessi skilyrði hafa ekki verið uppfyllt. Fjarri lagi hefur ríkissáttasemjari víðtækari heimildir í þessu efni en löggjafinn.

Árið 1996 fékk ríkissáttasemjari síðan víðtækari heimildir en áður. Ef tvö eða fleiri félög eða félagasambönd eiga saman í deilu getur hann nú í samráði við samninganefndir borið fram eina miðlunartillögu eða fleiri er taki til fleiri en eins deiluaðila eða þeirra allra. Atkvæðagreiðsla og talning atkvæða fer þá fram í sameiningu hjá öllum þeim félögum eða samböndum sem miðlunartillagan nær til þannig að sameiginlegt atkvæðamagn ræður úrslitum um samþykkt eða synjun. ASÍ lagðist eindregið gegn þessari lagabreytingu og taldi hana ganga um of á réttindi frjálsra stéttarfélaga. Skilyrði fyrir því að beita þessari tengireglu eru greind í 28.gr. laga 80/1938.

Skilyrðin eru m.a. þau að félögin eigi saman í deilu, að viðræður hafi átt sér stað um framlagðar kröfur, þar á meðal sérmál, að sáttasemjari hafi leitað sátta og telji ekki horfur á samkomulagi og að samningar hafi verið lausir um tíma þannig að samningsaðilum hafi gefist kostur á að þrýsta á um kröfur sínar.

Í yfirstandandi kjaradeilu Eflingar og SA, virðist sem svo af ummælum sáttasemjara að miðlunartillögu í þeirri deilu sé m.a. ætlað að tryggja félagsfólki Eflingar sömu samningsniðurstöðu og aðildarfélög SGS, RSÍ og LÍV náðu í þegar afgreiddum kjarasamningum. Þannig virðist að verið sé að blanda saman miðlunarheimild skv. 27.gr. og tengireglu 28.gr. án þess þó að aðilar eigi saman í deilu og þar sem hluti hópsins hefur þegar lokið sinni atkvæðagreiðslu. Þetta er nýmæli og vafasamt fordæmi.

Loks skal vakin athygli á því að þó sáttasemjari hafi ýmsar heimildir í lögum sem reyndar hafa verið mikið ýktar í umræðunni, þá getur hann ekki beitt þeim nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum eins og við á um allar athafnir þeirra sem fara með opinbert vald. Heimildir hans eru því hvorki einfaldar eða óumdeildar og spennandi að sjá hvernig dómstólar munu nágast þær og þá einnig hvernig þurfi að bregðast við.

Magnús M. Norðdahl hrl., lögfræðingur ASÍ.

Author

Tengdar fréttir