Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Miðstjórn ASÍ ályktar um fjárlagafrumvarpið

Ályktun miðstjórnar ASÍ um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 og áformaðar breytingar á tekjuskattskerfinu – Sanngjarnt skattkerfi sem eykur jöfnuð og fjármagnar velferð

Miðstjórn ASÍ fagnar því að loks liggi fyrir nýjar tillögur stjórnvalda að breytingum á tekjuskattskerfinu sem beðið hefur verið með mikilli eftirvæntingu. Breytingarnar skila sér hins vegar of seint í vasa launafólks og stjórnvöld bregðast hlutverki sínu við að láta þá sem eru aflögufærir greiða réttlátan hlut til samfélagsins til að tryggja viðunandi fjármögnun velferðar og samfélagsinnviða.

Lág- og millitekjufólki sem hefur á síðustu árum borið sífellt þyngri skattbyrðar var í kjölfar kjarasamninga síðastliðið vor lofað umbótum á skattkerfinu til að auka ráðstöfunartekjur og snúa þessari óheillaþróun við. Að ekki standi til að efna loforðið að fullu fyrr en um mitt samningstímabilið veldur þess vegna verulegum vonbrigðum. Launafólk, öryrkjar og aldraðir sem hafa lágar tekjur hafa ekki tíma til að bíða svo lengi – þau þurfa léttari skattbyrði strax.

Verkalýðshreyfingin áréttar mikilvægi samspils tekjujöfnunar- og tekjuöflunarhlutverks skattkerfisins og ítrekar afstöðu sína um nauðsyn þess að breytingu á tekjuskattskerfinu fylgi áform um að styrkja aðra tekjustofna s.s. með upptöku hátekjuskatts á ofurlaun, hækkun fjármagnstekjuskatts og sanngjörnu afgjaldi fyrir auðlindanýtingu. Vandi ríkisfjármálastefnunnar sem byggt hefur á því að treysta á auknar tekjur í uppsveiflu og veikja tekjustofna hefur nú raungerst. Til að halda afkomu ríkissjóðs í jafnvægi reynist nauðsynlegt að beita aðhaldi og svigrúm til nauðsynlegra samfélags- og velferðarumbóta verður takmarkað. Þetta birtist m.a. í fjárlagafrumvarpinu í ófullnægjandi fjármögnun sjúkrahúsþjónustunnar sem stöðugt glímir við rekstrarvanda og niðurskurðarkröfu sem bitnar á þjónustu við sjúklinga og veldur óhóflegu álagi á starfsfólk ár eftir ár. Lífeyrisþegar og atvinnuleitendur sitja eftir og fá langt um minni kjarabætur en lágtekjufólk á vinnumarkaði. Engum fjármunum er varið í marglofaðar umbætur á greiðslukerfi almannatrygginga og þjónustu við einstaklinga með skerta starfsgetu. Þrátt fyrir vaxandi atvinnuleysi og brýna þörf fyrir stuðning við atvinnuleitendur af erlendum uppruna eru engin áform um auknar vinnumarkaðsaðgerðir og þjónustu við atvinnuleitendur. Framlög til framhaldsfræðslukerfisins sem þjónustar þá hópa á vinnumarkaði sem hafa minnsta menntun lækka umtalsvert á sama tíma og við blasir að umbreytingar sem nú eiga sér stað á vinnumarkaði munu koma verst niður á þessum hópum. Við þetta bætast fréttir af fyrirhuguðum vegtollum vegna samgönguumbóta sem munu leggjast þyngst á tekjulægstu hópanna.

Við sættum okkur aldrei við skattkerfisbreytingu sem lág- og millitekjufólk greiðir sjálft fyrir með veikara velferðarkerfi, verri innviðum, notendagjöldum og auknum nefsköttum. Við viljum sanngjarnt skattkerfi sem eykur jöfnuð og fjármagnar velferð.

Author

Tengdar fréttir