Mikið atvinnuleysi á Suðurnesjum og meðal erlendra ríkisborgara

Höfundur

Ritstjórn

Í júní var atvinnuleysi 7,5% og hefur hefðbundið atvinnuleysi Vinnumálastofnunar haldist sambærilegt undanfarna þrjá mánuði (7,4% í maí og 7,5% í júní). Í spá Vinnumálastofnunar er áætlað að það verði áfram svipað í júlí (7,3%-7,7%) en aukist síðan í ágúst (8-9%) þegar uppsagnarfrestir hópuppsagna undanfarinna mánaða klárast. Í þessum hópuppsögnum hefur 7400 manns verið sagt upp. Uppsagnarfrestur fjögur þúsund þeirra lýkur næstu mánaðarmót og 1300 í upphafi september. Reiknað er með að stór hluti þeirra sem er að klára uppsagnarfrest sæki í kjölfarið um atvinnuleysisbætur.

Hratt hefur dregið úr greiðslum úr hlutabótaleiðinni. Rúmlega sjöþúsund manns fengu greitt vegna minnkaðs starfshlutfalls í júní og atvinnuleysi var metið 2,1% vegna þess ofan á almennt atvinnuleysi. Þegar mest var voru starfsmenn 6500 fyrirtækja í úrræðinu en í júní komu þeir úr 2500 fyrirtækjum.

Milli mánaða stendur atvinnuleysi í stað á öllum landshlutum utan Suðurnesja (13,2%) þar sem það hefur aukist fremur stöðugt undanfarið árið. Erfiðleikar í flugrekstri og ferðaþjónustu bitna sérstaklega á landshlutanum og er þar líka mest um að starfsfólk sé í minnkuðu starfshlutfalli. Tæplega helmingur atvinnulausra á Suðurnesjum kemur úr ferðaþjónustu eða flugsamgöngum meðan á landsvísu er hlutfallið tæpur þriðjungur. Þá eru tveir af þremur á Suðurnesjum í hlutabótaúrræði úr ferðaþjónustu eða flugsamgöngum.

Atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara hefur aukist stöðugt frá síðasta hausti. Síðustu mánaðarmót voru um 6700 erlendir ríkisborgarar atvinnulausir sem gerir um 18,5% atvinnuleysi meðal þeirra. Milli ára fjölgar atvinnulausum erlendum ríkisborgurum um meira en fjögur þúsund og hefur aukningin því verið umtalsverð.

 

Tengdar fréttir

  • ASÍ styrkir Samhjálp um páska

    ASÍ styrkir Samhjálp um 400 þúsund krónur nú í aðdraganda…

    Arnaldur Grétarsson

    15. apr 2025

    Kaffistofa Samhjálpar og merki Samhjálpar
  • Opið fyrir umsóknir í Minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar 2025

    Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum. Sjóðurinn veitir styrki til…

    Arnaldur Grétarsson

    8. apr 2025

    Eðvarð Sigurðsson
  • Engar tryggingar í frumvarpi um verð á raforku til almennings

    Stjórnvöld taki ekki tillit til sérstöðu raforkumála á Íslandi Alþýðusamband…

    Ritstjórn

    26. mar 2025