Kjarasamningur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og Samtaka atvinnulífsins (SA) hefur verið samþykktur með miklum meirihluta hjá þeim 17 félögum sem aðild eiga að honum.
Í fréttatilkynningu frá SGS kemur fram að 85,71% þeirra sem afstöðu tóku hafi samþykkt kjarasamninginn. Ellefu prósent voru honum andvíg og rúm þrjú prósent tóku ekki afstöðu. Kjörsókn var 16,56% en á kjörskrá voru 23.711 manns.
Samningurinn var samþykktur með yfir 80% atkvæða í 15 aðildarfélögum af 17.
Starfsgreinasamband Íslands undirritaði nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins þann 3. desember síðastliðinn með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Rafræn atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn hófst föstudaginn 9. desember kl. 12:00 og lauk á hádegi í dag, mánudaginn 19. desember.
Gildistími samningsins er frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024.
Aðild að samningnum eiga eftirfarandi félög:
AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélagið Hlíf.