Search
Close this search box.
Search
Close this search box.
Haymarket memorial

Minningarskjöldur frá ASÍ afhjúpaður í Chicago

Skjöldur til minningar um verkalýðsleiðtoga sem teknir voru af lífi í Chicago undir lok 19. aldar verður afhjúpaður þar í borg í dag, 1. maí. Skjöldurinn er gjöf frá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og verður framkvæmdastjóri þess, Eyrún B. Valsdóttir, viðstödd athöfnina. 

Skildinum hefur verið komið fyrir á Haymarket-minnismerkinu í Chicago en þar gerðust hörmulegir atburðir í maímánuði 1886 sem áttu eftir að rata í sögubækur og eru almennt taldir hafa valdið miklu um að 1. maí var valinn sem alþjóðlegur baráttudagur launafólks.  

Sprengjutilræði 

Þann 4. maí 1886 fór fram friðsamlegur fjöldafundur við Haymarket-torg í Chicago til stuðnings verkamönnum sem lagt höfðu niður störf til að krefjast átta stunda vinnudags. Lögreglu sem vopnuð var rifflum var fyrirskipað að leysa fundinn upp. Þegar lögreglumenn bjuggust til þess var sprengju varpað að þeim. Hóf þá lögreglan skothríð. Sjö lögreglumenn týndu lífi í sprengingunni og minnst fjórir óbreyttir borgarar. Tugir manna særðust.  

Átta verkalýðsleiðtogar sem voru yfirlýstir stjórnleysingjar (anarkistar) voru sakaðir um sprengjutilræðið. Við réttarhöldin hélt ákæruvaldið því fram að einn þeirra kynni að hafa smíðað sprengjuna en enginn þeirra sem réttað var yfir hefði kastað henni. Aðeins tveir áttmenninganna voru á Haymarket-torginu þegar sprengjan sprakk. 

Dauðadómar 

Svo fór að sjö hinna ákærðu voru dæmdir til dauða en sá áttundi til 15 ára fangelsisvistar. Ríkisstjóri Illinois breytti tveimur dauðadómunum í lífstíðarfangelsi og einn hinna dauðadæmdu framdi sjálfsmorð í fangelsi stuttu fyrir áformaða aftöku hans. Hinir fjórir, Albert Parsons, August Spies, Adolph Fischer og George Engel, voru hengdir 11. nóvember 1897. Árið 1893 náðaði þáverandi ríkisstjóri þá sem lifðu og gagnrýndi harðlega réttarhöldin.  

Píslarvottar 

Enn er ekki vitað hver kastaði sprengjunni og almennt er litið svo á að réttarhaldið hafi verið dómsmorð. Af þessum sökum er jafnan vísað til þeirra sem ríkisvaldið tók saklausa af lífi sem Haymarket-píslarvottanna (e. Haymarket Martyrs). Í Bandaríkjunum er Haymarket-málið talið tímamótaviðburður í sögu verkalýðshreyfingarinnar þar í landi. 

Minnismerki var komið upp um Haymarket-málið árið 2004. Þar hafa verkalýðsfélög í Bandaríkjunum og víða um heim komið upp skjöldum í nafni alþjóðlegrar samstöðu verkalýðsins og til minningar um þá fjóra sem líflátnir voru. Í þann hóp mun Alþýðusamband Íslands nú bætast. 

Einnig hefur verið komið upp minnismerki í Forest Home-kirkjugarðinum um Píslarvotta Haymarket. Minnismerkið sýnir gyðju réttlætisins leggja blómsveig á höfuð verkamanns sem verið hefur drepinn.  

Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins 

Haymarket-málið tengist 1. maí sem alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. Þann dag árið 1886  höfðu tvenn bandarísk verkamannasambönd ákveðið að hefja baráttu fyrir átta stunda vinnudegi þar vestra. Rúmlega 80.000 verkamenn tóku þá þátt í göngu eftir Michigan-breiðgötunni í Chicago. Næstu þrjá daga á eftir var efnt til frekari fjöldafunda. Þann 3. maí kom til átaka á milli verkamanna og verkfallsbrjóta sem lyktaði með því  að lögregla hóf skothríð á mannfjölda og drap tvo verkamenn. Daginn eftir var efnt til fundarins á Haymarket-torgi. Talið er að um 2.500 manns hafi verið á þeim fundi þegar mest var. Þegar vopnaðri lögreglu var sigað á verkamennina voru aðeins um 200 þeirra eftir á torginu. Lögregluliðið taldi 176 menn sem allir báru riffla.   

Annað alþjóðsamband sósíalista og verkamannaflokka samþykkti á öðru þingi sínu 1891 að gera 1. maí að alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins sem halda skyldi hátíðlegan ár hvert. Dagsetningin var valin með tilliti til atburðanna í Chicago.  

Sem fyrr segir mun Eyrún B. Valsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, verða viðstödd athöfn við Haymarket-minnismerkið þegar skjöldurinn verður afhjúpaður. Hún mun einnig fara að minnismerki um Haymarket Píslarvottana og síðan flytja erindi um Alþýðusamband Íslands og íslenskan vinnumarkað.  

Tengdar fréttir