Penninn var oftast með hæsta og lægsta verðið á nýjum námsbókum fyrir framhaldsskólanema í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var þriðjudaginn 16. ágúst. A4 var oftast með lægsta verðið á notuðum námsbókum. Könnunin fór fram í 6 verslunum þar sem verð á 89 algengum námsbókum var skoðað.
Mun hagstæðara er að kaupa notaðar námsbækur en nýjar. Oft var mörg þúsund króna munur á hæsta verði á nýjum námsbókum og lægsta verði á notuðum námsbókum.
Penninn oftast með hæsta og lægsta verð á nýjum bókum
Penninn Eymundsson var oftast með hæsta verðið á nýjum bókum en 36 titlar af 82 voru dýrastir í þeirri verslun. A4 var næst oftast með dýrustu titlana eða í 20 tilfellum, Bóksala Stúdenta í 12 tilfellum, Forlagið í 11 tilfellum og Iðnú í 4 tilfellum. Penninn Eymundsson var einnig oftast með lægsta verðið á nýjum námsbókum og voru 25 titlar ódýrastir þar samanborið við 20 hjá Iðnú, 19 hjá A4, 11 hjá Bóksölu Stúdenta og 8 hjá Forlaginu. Úrvalið af nýjum bókum var mest hjá Pennanum og A4. Af þeim 82 titlum sem könnunin náði til átti Penninn flestar nýjar bækur til eða 78, A4 átti 76 titla, Iðnú 44, Forlagið 42 og Bóksala Stúdenta 38.
Allt að 248% munur á hæsta og lægsta verði á nýjum bókum
Mesti munur á hæsta og lægsta verði á nýrri bók í könnuninni var á ódýrustu útgáfu sem til var í hverri búð af bókinni Of Mice and Men e. John Steinbeck. Lægsta verðið var í Bóksölu Stúdenta, 629 kr. en það hæsta í A4, 2.189 kr. Í mörgum tilfellum var mikill verðmunur á enskum kjörbókum. Þar má nefna 174% mun á hæsta og lægsta verði á bókinni Pride and Prejudice. Lægst var verðið í Bóksölunni, 1.095 kr. en það hæsta í A4, 2.999 kr.
Í töflunni hér að neðan má bera saman verð á nýjum og notuðum bókum. Með því að ýta á nafn bókatitlanna raðast bækurnar eftir hæsta og lægsta verði.
Nýjar og notaðar námsbækur
Sem dæmi um verðmun á öðrum nýjum námsbókum má nefna 43% eða 2.100 kr. mun á hæsta og lægsta verði á bókinni Essential Academic Vocabulary. Lægst var verðið í A4, 4.899 kr. en hæst hjá Pennanum, 6.999 kr. Af nýjum bókum í félagsvísindagreinum má nefna 31% eða 1.400 kr. mun á hæsta verði á bókinni Félagsfræði 1, Einstaklingur og Samfélag. Lægsta verðið, 4.499 kr. mátti finna í A4 en það hæsta, 5.899 kr. í Pennanum. Í krónum talið var mest 2.609 kr. eða 65% munur á hæsta og lægsta verði af nýrri bók en um er að ræða bókina Þjóðhagfræði e. Þórunni Klemenzdóttur. Lægsta verðið á bókinni var í Forlaginu, 3.990 kr. en það hæsta hjá A4, 6.599 kr.
A4 með lægsta verðið á 72 af 82 notuðum bókum
A4 var með lægsta verðið á 72 af 82 titlum á notuðum námsbókum en Penninn Eymundsson á 10 titlum. A4 og Penninn voru einu verslanirnar með notaðar námsbækur.
Algengast var að 20-30% munur væri á hæsta og lægsta verði á notuðum bókum. Í krónum talið gat verðmunurinn þó verið nokkur en í 15 tilfellum var yfir 1.000 kr. munur á hæsta og lægsta verði. Mesti munur á notaðri bók var 78% munur á hæsta og lægsta verði á bókinni To Kill a Mockingbird. Lægst var verðið hjá A4, 844 kr. en hæst hjá Pennanum, 1.499 kr. Í krónum talið var mestur munur á bókinni Focus on Vocabulary 2, 1.654 kr. eða 53%. Lægst var verðið í A4, 3.145 kr. og hæst í Pennanum, 4.799 kr.
Oft 3-5 þús kr. munur á nýjum og notuðum bókum
Ef verðmunur á öllum bókum í könnuninni er skoðaður, þ.e. á bæði nýjum og notuðum bókum, má sjá að algengast var að 100-150% munur væri á hæsta og lægsta verði en mest var 501% verðmunur á bók. Notaðar bækur voru í langflestum tilfellum ódýrastar eða í öllum tilfellum nema tveimur.
Oft var mörg þúsund króna verðmunur á hæsta og lægsta verði á nýjum og notuðum bókum í könnuninni. Ef hæsta og lægsta verð á bókatitli er borið saman, burtséð frá því hvort hún var ný eða notuð var 4-5 þús kr. munur á hæsta og lægsta verði á 12 bókatitlum , 3-4 þús kr. munur á 24 bókatitlum, 2-3 þús kr. munur á 12 bókatitlum og 2-3 þús kr. munur á 16 bókatitlum.
Munur í %
Almennt var meiri munur á hæsta og lægsta verði á notuðum námsbókum en á nýjum námsbókum. Algengast var að 0-20% munur væri á hæsta og lægsta verði á nýjum námsbókum en 20-40% á notuðum námsbókum. Það er því eftir nokkru að slægjast með því að gera verðsamanburð milli verslana og kaupa notaðar bækur í stað nýrra.
Vert er að hafa í huga að verð á námsbókum breytist mjög ört á þessum tíma. Þá geta verslanirnar verið með afslætti fyrir vildarvini eða klúbbfélaga sem er ekki tekið tillit til í könnuninni.
Um könnunina
Verð á nýjum bókum var kannað í eftirtöldum verslunum: A4 Skeifunni, Iðnú Brautarholti, Pennanum-Eymundsson Smáralind, Forlaginu Fiskislóð og Bóksölu Stúdenta, Háskólatorgi. Verð á notuðum bókum var kannað í A4 Skeifunni, Pennanum-Eymundssyni. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði, úrval eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum eða við sölu nema með heimild ASÍ.