Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Munur á stýrivöxtum og vöxtum af húsnæðislánum aukist

Úttekt verðlagseftirlits ASÍ á vaxtaþróun sýnir að húsnæðisvextir lánastofnana hafa lækkað mikið síðasta eitt og hálfa árið eða á tímabilinu 1. janúar 2019 til 7. júní 2020. Viðskiptabankarnir hafa í sumum tilfellum tekið fram úr lífeyrissjóðunum og bjóða stundum upp á betri vaxtakjör en lífeyrissjóðirnir sem er öfugt við það sem áður var þegar lífeyrissjóðirnir voru með mun betri vaxtakjör en bankarnir.

Á tímabilinu hafa stýrivextir lækkað um 3,5 prósentustig, úr 4,5% í 1% og hafa þeir aldrei verið lægri. Í samanburði hafa verðtryggðir breytilegir húsnæðisvextir af grunnlánum lækkað um 0,4-1,55 prósentustig og óverðtryggðir breytilegir vextir af grunnlánum um 0,95-3,5 prósentustig. Óverðtryggðir fastir vextir til 3-5 ára hafa í mörgum tilfellum lækkað mikið eða á bilinu 1,55-3,35 prósentustig en verðtryggðir fastir vextir út lánstímann minna, um 0,05-0,4 prósentustig og verðtryggðir fastir vextir til 3-5 ára um 1,25-1,45 prósentustig.

Óverðtryggðir vextir hafa almennt lækkað meira en verðtryggðir og er minni munur á óverðtryggðum vöxtum og verðtryggðum í dag en fyrir einu og hálfu ári en á sama tíma hefur dregið úr verðbólgu. Þrátt fyrir miklar vaxtalækkanir hefur munur á stýrivöxtum og óverðtryggðum vöxtum af húsnæðislánum í mörgum tilfellum aukist á tímabilinu og því hafa lántakendur húsnæðislána að jafnaði ekki notið góðs af lækkun stýrivaxta að fullu.

ATH! Flettilisti efst í mynd.

Lágir vextir skipta heilmiklu máli og geta lækkað útgjöld heimila verulega. Sem dæmi má taka að lán sem ber 0,5 prósentustigum hærri vexti en annað sambærilegt lán, hefur í för með sér auka kostnað upp á 150.000 á ári fyrir lántakanda með 30 milljón króna lán. Ef munurinn á vöxtum er enn meiri, t.d. 1,5 eða 2 prósentustig er það auka kostnaður upp á  450.000-600.000 krónur á ári. Að sama skapi skiptir máli hversu hratt lánastofnanir lækka vexti og bregðast við stýrivaxtalækkun en 0,3 prósentustiga vaxtalækkun samsvarar t.d. 833 kr. á hálfum mánuði og 1.667  kr. á heilum mánuði miðað við 20 milljón króna lán. Ef lánastofnanir bregðast síendurtekið seint við stýrivaxtalækkun og lækka vexti sína seint getur það safnast upp í töluverðar fjárhæðir og geta lánastofnanir með þúsundir viðskiptavina grætt háár fjárhæðir með því. Lánastofnun sem er með 20 þúsund lántakendur með 20 milljón króna lán sparar 75 milljónir á að lækka vexti hálfum mánuði seinna.

Nauðsynlegt er að hafa í huga að vextir af viðbótarlánum geta breytt heildarmyndinni á þann hátt að þrátt fyrir að ein lánastofnun sé með lægri vexti af grunnlánum en önnur geta heildarvaxtakjörin verið verri þegar viðbótarlán er tekið með. Viðbótarlán eru þau lán sem eru tekin ef veðhlutfall fer yfir 60-75% (hámarks veðhlutfall grunnlána er misjafnt eftir lánastofnunum). Breytingar á vöxtum á viðbótarlánum má sjá í stöplaritunum sem fylgja með fréttinni. Við samanburðinn ber einnig að hafa í huga að hámarks veðsetning af grunnlánum er mishá hjá lánastofnunum og að misströng skilyrði eru fyrir lántöku hjá lánastofnununum. Skilyrði fyrir lánum má sjá í þessari töflu.

Munur á óverðtryggðum breytilegum vöxtum og stýrivöxtum aukist um 1-1,5 prósentustig
Í flestum tilfellum hefur munur á stýrivöxtum og óverðtryggðum vöxtum aukist hjá viðskiptabönkum og lífeyrissjóðum nema í tilfelli Birtu þar sem munur á stýrivöxtum og óverðtryggðum breytilegum vöxtum sjóðsins hefur haldist 1,1 prósentustig allt tímabilið. Óverðtryggðir breytilegir vextir sjóðsins hafa því lækkað jafn mikið og stýrivextir, um 3,5 prósentustig úr 5,6% í 2,10%. Svipað á við í tilfelli Íslandsbanka þar sem munur á óverðtryggðum föstum vöxtum bankans og stýrivöxtum hefur haldist um 3 prósentustig en bankinn var einnig með hæstu vextina í byrjun tímabils.

Sem dæmi um aukinn vaxtamun má nefna að í byrjun tímabils var 1,5 prósentustiga munur á stýrivöxtum og óverðtryggðum breytilegum vöxtum Landsbankans og Íslandsbanka en í dag er munurinn kominn upp í 2,5 prósentustig hjá Landsbankanum og 2,7% hjá Íslandsbanka. Í byrjun tímabils var 2,1 prósentustiga munur á stýrivöxtum og óverðtryggðum breytilegum vöxtum hjá Arion banka en er í dag 2,54 prósentustig. Sömu sögu er að segja um lífeyrissjóðina en sem dæmi hefur munur á óverðtryggðum breytilegum vöxtum Brúar lífeyrissjóðs og á stýrivöxtum farið úr 2 prósentustigum upp í 3,2 prósentustig og úr 1,8 prósentustigum upp í 3,25 hjá Lífsverk.

Mesta lækkunin á óverðtryggðum breytilegum vöxtum á grunnlánum hjá Arion banka og Birtu en lægstu vextirnir nú hjá Landsbankanum og Birtu
Stýrivaxtalækkun hefur skilað sér betur í lækkun óverðtryggðra breytilegra vaxta á grunnlánum hjá viðskiptabönkunum en lífeyrissjóðunum og bjóða þeir upp á lægri óverðtryggða vexti í dag en lífeyrissjóðirnir, ef Birta er undanskilinn. Mest hafa óverðtryggðir breytilegir vextir af grunnlánum lækkað hjá Birtu lífeyrissjóði, um 3,5 prósentustig og eru þeir þeir lægstu á markaðnum, 2,10%. Næst mest hafa þeir lækkað hjá Arion banka um 3,06 prósentustig en Landsbankinn býður þó  ennþá upp á örlítið lægri vexti, 3,50% samanborið við 3,54% hjá Arion banka. Minnst hafa vextirnir lækkað hjá Gildi um 0,95 prósentustig sem gerir þá að þriðju hæstu óverðtryggðu breytilegu vöxtunum, 4,55%. Hæstu óverðtryggðu breytilegu vextirnir eru hjá LSR, 5,10%.

ATH! Flettilisti efst í mynd.


Íslandsbanki lækkað óverðtryggða fasta vexti mest og er með lægstu vextina
Stýrivaxtalækkun hefur skilað sér betur í lækkun á óverðtryggðum föstum vöxtum á grunnlánum hjá bönkunum en lífeyrissjóðunum og bjóða þeir í dag upp á lægri vexti en lífeyrissjóðirnir en því var öfugt farið í byrjun tímabilsins. Íslandsbanki hefur lækkað óverðtryggða fasta vexti til þriggja ára lang mest, um 2,95 prósentustig en næst mest lækka þeir hjá Landsbankanum um 2,3 prósentustig. Íslandsbanki er með lægstu óverðtryggðu föstu vextina til þriggja ára, 3,95% en næst lægstir eru þeir hjá Landsbankanum, 4,2%. Af þeim þremur lífeyrissjóðum sem bjóða upp á óverðtryggða fasta vexti hefur Lífeyrissjóður Verzlunarmanna lækkað sína vexti mest, um 1,87 prósentustig. Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Almenni lífeyrissjóðurinn bjóða samt sem áður upp á lægri vexti, 4,6% í tilfelli Frjálsa og 4,75% í tilfelli Almenna í samanburði við 4,95% hjá LV.

Óverðtryggðir fastir vextir til fimm ára eru einungis í boði hjá viðskiptabönkunum þremur en þeir hafa lækkað mest hjá Íslandsbanka um 3,35 prósentustig. Vextirnir hjá Íslandsbanka eru þar að auki lægstir, 4,05% en næst lægstir eru vextirnir hjá Landsbankanum, 4,4%.


Festa og Landsbankinn með lægstu verðtryggðu breytilegu vextina en Íslandsbanki og Arion banki þá hæstu
Verðtryggðir breytilegir vextir á grunnlánum hafa í mörgum tilfellum lækkað mikið á tímabilinu en þó minna en óverðtryggðir breytilegir vextir en verðtryggðir vextir voru lægri fyrir. Verðtryggðir breytilegir vextir hafa í flestum tilfellum lækkað meira hjá viðskiptabönkunum en lífeyrissjóðunum en bankarnir voru með töluvert hærri vexti í byrjun tímabils.

Mest hafa verðtryggðir breytilegir vextir af lánum fyrir nýja lántakendur lækkað hjá Landsbankanum, um 1,55 prósentustig og standa vextir bankans í 2,0% sem eru lægstu vextirnir hjá viðskiptabönkunum en sjöttu hæstu vextirnir sem standa til boða. Næst mest hafa vextirnir lækkað hjá Lífsverki, um 1,35 prósentustig og er það mesta lækkunin af lífeyrissjóðunum. Lífsverk er þó með fimmtu hæstu verðtryggðu breytilegu vextina í dag af öllum lánastofnunum, 2,15%. Á eftir Landsbankanum hefur Festa lífeyrissjóður lækkað sína vexti mest, um 1,18 prósentustig og er með lægstu verðtryggðu breytilegu vextina sem standa nýjum lántakendum til boða í dag. Íslandsbanki og Arionbanki eru með hæstu verðtryggðu breytilegu vextina af öllum lánastofnunum, 2,74% hjá Arion banka og 2,85% hjá Íslandsbanka.

ATH! Flettilisti efst í mynd.


Lægstu föstu verðtryggðu vextirnir til 3-5 ára hjá Almenna lífeyrissjóðnum og Íslandsbanka en lægstu föstu verðtryggðu vextirnir út lánstímann hjá LV
Fastir verðtryggðir vextir út lánstímann hafa lækkað lítið á tímabilinu en þeir standa aðeins til boða hjá lífeyrissjóðunum en ekki viðskiptabönkunum. Mest hafa þeir lækkað hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna um 0,4 prósentustig og næst mest hjá Stapa lífeyrissjóði um 0,3 prósentustig. Það skilar sér í því að verðtryggðir fastir vextir út lánstímann eru þeir lægstu hjá LV, 3,20% og þeir næst lægstu hjá Stapa, 3,30%. Sömu vextir stóðu hins vegar í stað hjá Birtu, Almenna lífeyrissjóðnum, Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og HMS. Hæstu verðtryggðu föstu vextirnir út lánstímann eru hjá Birtu 3,6% og Almenna lífeyrissjóðnum 3,6%.

Ef litið er til verðtryggðra fastra vaxta til fimm ára hefur mesta lækkunin á tímabilinu átt sér stað hjá Íslandsbanka sem hefur lækkað vextina um 1,45 prósentustig en næst mesta lækkunin er hjá Arion banka og nemur hún 1,43 prósentustigum. Lægstu vextirnir eru hjá Íslandsbanka, 2,3% en þeir næst lægstu hjá Lansbankanum 2,4%. Einungis Almenni lífeyrissjóðurinn býður upp á fasta verðtryggða vexti til þriggja ára og eru þeir 2,0%.


Um úttektina
Úttektin sýnir þróun á húsnæðisvöxtum af grunnlánum yfir tímabilið 1.1 2019- 7.6 2020. Breytingar á vöxtum á viðbótarlánum má sjá í stöplaritunum sem fylgja með fréttinni. Stöplaritin sýna einnig gömul lán sem eru ekki í boði fyrir nýja lántakendur en eru til samanburðar fyrir þá sem eru með slík lán. Hámarks veðsetning grunnlána er misjöfn eftir lánastofnunum en er á bilinu 60-75%. Misjöfn skilyrði eru fyrir lántöku hjá lánastofnunum en skilyrðin má sjá hér. Nánari upplýsingar um lánareglur má finna á vefsíðum lánastofnananna.

Úttektin nær til 15 lánastofnana, viðskiptabanka og lífeyrissjóða sem eru;  Landsbankinn, Íslandsbankinn og Arion banki og Almenni lífeyrissjóðurinn, Birta, Brú, Festa, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Gildi, Lífsverk, LSR, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Stapi, Lífeyrissjóður Verzlunarmanna og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Vextir eru birtir hjá þeim aðilum sem voru búnir að breyta vöxtum sínum eða gefa út breytingar á vöxtum sínum þann 7.6 2020. Í einhverjum tilfellum eiga breytingar á vöxtum því eftir að taka gildi.

Author

Tengdar fréttir