Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Norræna flutningamannasambandið fordæmir aðferðir Icelandair

Norræna flutningamannasambandið, sem í eru rúmlega 40 stéttarfélög með 350 þúsund starfsmenn innan flutningageirans á Norðurlöndunum, fordæmir þær starfsaðferðir sem Icelandair hafði uppi í kjaradeilu sinni við Flugfreyjufélag Íslands í síðasta mánuði. Í yfirlýsingu sinni rekur sambandið hvernig Icelandair ætlaði að fá flugmenn til að ganga í störf flugfreyja- og þjóna og hótanir flugfélagsins um að ætla í viðræður við annað stéttarfélag en Flugfreyjufélagið um framtíðarstörf flugfreyja.

Norræna flutningamannasambandið lýsir vanþóknun og áhyggjum af þessari framkomu Icelandair í garð flugfreyja- og þjóna. Það bendir á að stórslysi hafi verið forðað með undirritun kjarasamnings á síðustu stundu en bætir við að þetta séu aðferðir sem eitri vinnumarkaðinn og búi til sár sem séu lengi að gróa. Virðing og traust milli fagstétta í flugáhöfn sé forsenda fyrir heilbrigðu starfsumhverfi í flugvélum. Aldrei eigi að etja samstarfsfólki hvert gegn öðru. Norræna flutningamannasambandið fordæmir aðferðafræði Icelandair í kjaraviðræðunum og hvetur félagið til að leita allra leiða til að bæta þann skaða sem þessi hugmyndafræði hefur valdið á vinnuumhverfi og trausti innan flugáhafna.

Tengdar fréttir