Réttlát, græn umskipti voru umfjöllunarefni þríhliða fundar stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í Hörpu síðastliðinn föstudag. Ráðstefnan bar yfirskriftina „Græn umskipti á norrænum vinnumarkaði: þríhliða samtal“. Fundurinn var haldinn í tilefni af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.
Fundurinn markar ákveðin þáttaskil því þetta er í fyrsta skipti sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hittast og eiga samtal um réttlát, græn umskipti. Eftir fundinn liggur sameiginleg viljayfirlýsing (e. Memorandum of understanding) þátttakenda ráðstefnunnar; stjórnvalda, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlöndunum. Í viljayfirlýsingunni er tekið undir ályktun Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um réttlát umskipti en hún fjallar um að aðgerðir til að stuðla að réttlátum umskiptum séu nauðsynlegar til að ná fram félagslegu réttlæti, mannsæmandi vinnuskilyrðum, útrýmingu fátæktar meðfram baráttunni við loftslagsbreytingar. Framtíð samfélaga, efnahags, starfa og lífsviðurværis sé í húfi og hún velti á heilbrigði vistkerfa og náttúru plánetunnar. Í yfirlýsingunni er einnig tekið undir að leiðbeiningar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um réttlát umskipti skuli vera lagðar til grundvallar stefnumótunar og aðgerða tengdum umskiptunum.
Breytingar og tækifæri á vinnumarkaði
Í viljayfirlýsingunni segir að umskiptin yfir í grænna hagkerfi muni leiða til breytinga og nýrra tækifæra á vinnumarkaði sem geti haft í för með sér atvinnusköpun í mörgum greinum. Aðilar fundarins séu staðráðnir í að halda áfram að leggja áherslu á mikilvægi félagslegrar þátttöku, að halda áfram að draga úr efnahagslegum ójöfnuði og að einbeita sér að því að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum af grænu umskiptunum.
Á fundinum voru flutt erindi af ýmsum toga auk pallborðsumræðna þar sem áskoranir, tækifæri og lausnir voru ræddar. Til grundvallar umræðunum á fundinum var ný skýrsla frá Norrænu rannsóknarstofnuninni Nordregio en í henni er fjallað um áhrif grænna réttlátra umskipta á vinnumarkað og störf á Norðurlöndunum og með hvaða hætti megi stuðla að því að áhrifin leiði af sér jákvæðar breytingar.
Mikilvægur stökkpallur
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og fráfarandi forseti Norræna verkalýðssambandsins (NFS), tók þátt í pallborðsumræðunum á fundinum. Aðspurður kveður hann fundinn mikilvægt skref á langri leið.
„Norðurlöndin eru fremst meðal jafningja þegar kemur að velferð, jöfnuði og félagslegu öryggisneti og hafa sameiginlegan skilning á hvað þarf til að byggja gott samfélag. Norræna módelið er þó langt frá því að vera fullkomið og þrátt fyrir að Norðurlöndin komi vel út í samanburði við önnur lönd er ójöfnuður ennþá of mikill. Þá er kolefnisfótspor og auðlindanotkun Norðurlandanna mikil í alþjóðlegu samhengi sem kemur verst niður á fátækari ríkjum.
Þessi fundur er mikilvægur stökkpallur fyrir áframhaldandi samtal og samvinnu stjórnvalda, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar. Verkefnið fram undan er að stuðla að því að áskorunum og tækifærum vegna loftslags- og tæknibreytinga sé skipt með sanngjörnum og réttlátum hætti og að velferð Norrænna samfélaga hafi ekki í för með sér neikvæð smitáhrif á önnur ríki og svæði,“ segir Kristján Þórður.
Á 45. þingi ASÍ vorið 2023 voru samþykktar áherslur um framtíð vinnumarkaðarins sem fela í sér að réttlát umskipti verði leiðarljós í allri stefnumótun og ákvarðanatöku vegna loftslags- og tæknibreytinga.
Árið 2021 var gefin út skýrsla sem unnin var af ASÍ, BSRB OG BHM um réttlát umskipti og kröfur verkalýðshreyfingarinnar í vegferð að kolefnishlutlausu samfélagi. Skýrsluna má nálgast hér.
Myndir eftir Eyþór Árnason/Norden.org