Samkvæmt nýrri hagspá ASÍ er útlit fyrir 3,1% hagvöxt á þessu ári en þráláta verðbólgu. Ný hagspá hagfræði- og greiningarsviðs Alþýðusambands Íslands gerir ráð fyrir að hægja muni á þeim mikla hagvexti sem einkennt hefur hagkerfið á þessu ári og því næsta. Spánna í heild sinni má nálgast hér.
Mikill hagvöxtur síðasta árs var einkum drifinn áfram af einkaneyslu og bata ferðaþjónustunnar. Samkvæmt spá ASÍ verða áfram töluverð umsvif í hagkerfinu á þessu ári en hægja mun á vexti einkaneyslu og innlendrar eftirspurnar er líður á spátímann. Skýrist það meðal annars af minni kaupmætti ráðstöfunartekna og aukinni vaxtabyrði heimila. Skýr merki eru um að nú þrengi að stöðu heimila.
Spá ASÍ gerir ráð fyrir að verðbólga hafi náð hámarki en verði áfram þrálát. Raungerist spáin, hjaðnar verðbólga eftir sem líður á árið og verður 7,1% undir lok þessa árs eða að meðaltali 8,5% á árinu. Á árinu 2024 má vænta að verðbólga verði 5,7% að jafnaði en verði orðin 5% í lok ársins.
Fjárfestingastig í hagkerfinu lækkar lítillega yfir spátímabilið. Áætlað er að fjármunamyndun aukist um 3,3% á þessu ári en haldist að mestu óbreytt á næsta ári, um 0,3% vöxtur milli ára. Útlit er fyrir að draga muni úr opinberri fjárfestingu á þessu ári en að fjárfesting atvinnuveganna og íbúðafjárfesting aukist á sama tíma.
Hætta er á því að íbúðafjárfesting dragist saman á næsta ári, þar sem hærri fjármagnskostnaður og minni eftirspurn eftir húsnæði kunna að hafa neikvæð áhrif á byggingaráform verktaka. Raungerist sú sviðsmynd er ólíklegt að áform stjórnvalda um stórfellda uppbyggingu íbúða á næstu tíu árum muni raungerast. Slík framboðstregða samhliða hraðri fólksfjölgun er líkleg til að viðhalda spennu á húsnæðismarkaði, einkum leigumarkaði í fyrirsjáanlegri framtíð.
Útlit er fyrir töluverðan vöxt útflutnings á þessu ári drifinn áfram af frekari bata ferðaþjónustunnar. Fjöldi ferðamanna á þessu ári verður svipaður og árið 2017, eða um 2,1 milljónir ferðamanna. Á síðasta ári jókst útflutningur um 20,6% milli ára. Spá ASÍ gerir ráð fyrir 7,8% vexti útflutnings á þessu ári og 4,8% á næsta ári. Framlag útflutnings til hagvaxtar er jákvætt yfir spátímann en gert er ráð fyrir 5,9% vexti innflutnings á árinu og 2,8% á næsta ári.