Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Ný skýrsla ASÍ -heilbrigðismál í aðdraganda kosninga

Heilbrigðismál í aðdraganda kosninga – Vanfjármögnun, uppsöfnuð þörf og áskoranir (skýrslan í heild sinni)

Í skýrslunni er sýnt fram á hvernig íslenska heilbrigðiskerfið hefur í auknum mæli verið að fjarlægjast markmið stjórnvalda um að Ísland sé í fararbroddi í heiminum með tilliti heilsufars, gæða og aðgengis að heilbrigðisþjónustu. Stuðningur við að hið opinbera fjármagni og sjái um rekstur heilbrigðiskerfisins er víðtækur meðal almennings á Íslandi. Þrátt fyrir þá staðreynd er greinileg þróun í átt að aukinni einkavæðingu í málaflokknum hér á landi. Reynsla Svía af einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu ætti að vera víti til varnaðar. Þar hefur t.d. einkavæðing í öldrunarþjónustu og hagræðing henni samfara bitnað á gæðum þjónustunnar.

Framlög hins opinbera til heilbrigðismála voru skorin verulega niður á árunum eftir fjármálahrunið 2008 og var varla á ástandið bætandi því niðurskurður hafði verið umtalsverður á fyrstu árum aldarinnar. Þegar þróun fjárframlaga hins opinbera til heilbrigðismála er tekin saman er ljóst að íslenskt heilbrigðiskerfi hefur verið fjársvelt um árabil. Í samanburði við Norðurlönd stendur Ísland aftarlega. Tölur um fjárfestingu í innviðum heilbrigðiskerfisins gefa sérstaklega til kynna slæma stöðu og verulega uppsafnaða þörf. Auknum framlögum nýliðinna ára hefur að miklu leyti verið varið í nauðsynlegar launahækkanir starfsfólks í heilbrigðisþjónustu og hafa þar með nýst í minna mæli til að vinna á hinum uppsafnaða vanda og þeirri þörf fyrir heilbrigðisþjónustu sem uppi hefur verið á hverjum tíma.

Áskoranirnar sem íslenskt heilbrigðiskerfi stendur frammi fyrir eru umtalsverðar. Ekki síst í ljósi aukins ójöfnuðar og versnandi sjálfsmats Íslendinga á líkamlegri og andlegri heilsu sinni. Í skýrslunni er sjónum einnig beint að stöðunni í öldrunarmálum þar sem vanfjármögnun og uppsafnaður vandi kemur meðal annars fram í þversögnum á milli viðmiða um þjónustuþörf aldraðra og fjölda hjúkrunarrýma. Þar er vísað til sífellt lengri biðlista eftr hjúkrunarrýmum, hárrar umönnunarbyrði ættingja á Íslandi í alþjóðlegum samanburði og fráflæðisvanda á sjúkrahúsum vegna langs legutíma aldraðra sjúklinga.

Vandi í heilbrigðismálum á Íslandi helgast að miklu leyti af vanfjármögnun og vaxandi fjárþörf tengdri öldrun þjóðarinnar. Erfitt er að sjá hvernig megi meta á áreiðanlegan hátt skilvirkni kerfis sem hefur verið vanfjármagnað um árabil. Nú sem aldrei fyrr er ástæða til að standa vörð um opinbert heilbrigðiskerfi á Íslandi, einkum í ljósi þess tóns niðurskurðar sem sleginn hefur verið í fjármálaáætlun fyrir árin 2022-26. ASÍ varar við því að leita lausna á þeim vanda í aukinni markaðs- og einkavæðingu heilbrigðisþjónustu.

Author

Tengdar fréttir