Alþýðusamband Íslands hefur ráðið tvo starfsmenn í nýjar stöður hjá sambandinu sem snúa að útlendingum á íslenskum vinnumarkaði.
Guðrún Margrét Guðmundsdóttir mun sinna stefnumótun í málefnum útlendinga og flóttafólks á vinnumarkaði í samráði við aðildarsamtök ASÍ og önnur heildarsamtök launafólks. Hún mun jafnframt koma að starfi ASÍ við að efla þátttöku útlendinga í verkalýðshreyfingunni og að bæta þjónustu við erlent launafólk.
Guðrún Margrét er mannfræðingur frá Háskóla Íslands. Síðast liðin tvö ár hefur hún unnið við móttöku flóttafólks frá Sýrlandi og Írak fyrir Rauða kross Íslands, fyrst sem arabískutúlkur og menningarmiðlari á Vestfjörðum og svo verkefnastjóri móttökunnar í Húnavatnssýslunum. Þar áður gegndi hún stöðu ráðgjafa í kynjajafnrétti hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd Íslensku friðargæslunnar í Kaíró í Egyptalandi. Hún starfaði jafnframt í mennta- og menningarmálaráðuneyti sem sérfræðingur á lögfræðisviði og skrifstofu ráðherra. Guðrún Margrét hefur einnig sinnt stundakennslu í mannfræði og þróunarfræði á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands.
Saga Kjartansdóttir mun sinna túlkun og þýðingum á vettvangi ASÍ og þróa umgjörð um túlkun og þýðingar innan verkalýðshreyfingarinnar í samráði við aðildarfélög ASÍ og önnur heildarsamtök. Saga mun jafnframt vinna með sérfræðingum á skrifstofu ASÍ að því að efla þátttöku útlendinga í starfi verkalýðshreyfingarinnar.
Saga er með BA-próf í almennri bókmenntafræði og MA-próf í ráðstefnutúlkun frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað við túlkun og þýðingar frá árinu 2014. Þá kenndi hún íslensku sem annað mál í Múltikúlti – málamiðstöð um árabil. Saga hefur túlkað á fjölda ráðstefna, funda og annarra viðburða, meðal annars um efnahagsmál, mansal, félagsvísindi og málefni hælisleitenda. Frá árinu 2018 hefur hún starfað á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar og tekið þar þátt í að auka túlka- og þýðingaþjónustu við erlent félagsfólk.