Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Nýr dómur – bílstjórar Uber eru launamenn

Breski vinnudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu 2016 að bifreiðastjórar sem óku undir merkjum Uber á Bretlandi væru launamenn en ekki verktakar eða sjálfstætt starfandi. Hæstiréttur Bretlands hefur staðfest þá niðurstöðu.

Dómurinn sem er frá 19. febrúar 2021 er mikill sigur fyrir allt það launafólk sem gert er að vinna í ótryggum ráðningarsamböndum. Tilurð slíkra sambanda eru gjarnan rökstudd með vísan til nýrrar tækni, nýs skipulags vinnunnar, fjórðu iðnbyltingarinnar og svo framvegis. Í enda dags er kjarni málsin alltaf sá að einhver ræður í reynd framkvæmd og skipulagi vinnunnar og sá aðili er að jafnaði sá sem á endanum hirðir arðinn af henni. Réttarstaða aðilana er ójöfn og verður ekki jöfnuð nema með skipulögðum vinnumarkaði sem byggir á réttindum og skyldum sem samkomulag tekst um í kjarasamningum þar sem stéttarfélög hvers réttarstaða er varin í lögum og alþjóðasamningum, koma fram fyrir ótilgreindan hóp launamanna. Í því efni hefur ekkert breyst frá því launafólk byrjaði að skipuleggja sig í upphafi 20 aldar.

Fjallað var um hinn áfrýjaða dóm í frétt ASÍ 8. nóvember 2016. Hæstiréttur Bretlands hefur nú staðfest hann að öllu leyti. Niðurstöðu sína um skilgreiningu bifreiðastjóra Uber sem launamanna byggir Hæstiréttur í meginatriðum á fimm þáttum er lúta að stjórnunarrétti Uber.

1. Þóknun bifreiðastjóranna er alfarið og einhliða ákveðin af Uber.
2. Samningur bifreiðastjóranna og Uber og öll samningskjör eru einhliða ákveðin af Uber.
3. Bifreiðastjórar ráða í reynd ekki hvenær eða hvort þeir vinna því um leið og þeir skrá sig inn í Uber appið er þeim skylt að taka allar ferðir. Haldið er utanum hvort þeir þiggi allar ferðir sem bjóðast og uppfylli þeir ekki markmið Uber í því efni eru þeir afskráðir úr appinu.
4. Uber ræður hvernig bifreiðar eru notaðar og tæknin sem notuð er og er óaðskiljanlegur hluti þjónustunnar er alfarið eign Uber.
5. Uber lágmarkar öll samskipti bifreiðastjóra og farþega og gerir sérstakar ráðstafanir til þess að hindra að framhaldandi viðskiptasamband geti stofnast milli aðila.

Þetta eru megin rökin en þau má finna í málsgreinum 94-101 í dóminum. Um aðgreiningu launamanna og verktaka er fjallað á vinnuréttarvef ASÍ.

Hér má lesa dóminn í heild sinni.

Author

Tengdar fréttir