Tilhneiging íslenskra dómstóla, að flytja á herðar launamanna ábyrgð á því að reglur um hámarksvinnutíma og vikulega frídaga séu virtar og ófullnægjandi innleiðing tímatilskipana Evrópusambandsins í því efni, geta í ljósi dóms Evrópudómstólsins frá 14. maí sl. falið í sér brot á EES-samningnum. ASÍ hefur ákveðið að setja framkvæmdina hér á landi í kæruferli til ESA.
Tilskipanir Evrópusambandsins nr. 89/391 (aukið öryggi og heilbrigði launafólks) og 2003/88 (um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma) gilda báðar hér á landi á grundvelli EES-samningsins og hafa verið teknar upp í landsrétt með lögum og kjarasamningum. Þær tryggja m.a. daglega lágmarkshvíld og vikulega frídaga. Uppsafnaðan frítökurétt á að tilgreina á launaseðlum en ekkert samræmt eftirlit er haft með því að það sé gert. Jafnframt er atvinnurekendum ekki skylt að halda neinar skrár um vinnutíma starfsmanna sinna sem nýst geti vinnueftirliti og trúnaðarmönnum stéttarfélaga til þess að hafa virkt eftirlit með því að vinnutímareglur séu virtar.
Sú venjuhelgaða regla hefur um langt skeið gilt hér á landi að þegar laun starfsmanna hafa verið vanreiknuð geti kröfur um leiðréttingu glatast vegna svokallaðs tómlætis. Það tómlæti getur falist í því að kvarta ekki þegar viðkomandi vissi eða mátti vita um kröfu sína eða hafðist ekki handa um innheimtu hennar án verulegra tafa. Að auki fyrnast síðan launakröfur á fjórum árum nema fyrningu sé slítið. Beiting reglna um tómlæti felur í sér, að ábyrgð á leiðréttingu er færð yfir á kröfuhafa (launamann) frá skuldara (atvinnurekanda). Dómur Evrópudómstólsins í málinu C-55/18 frá 14. maí sl. tekur af öll tvímæli um, að þar sem það sé fyrst og fremst á forræði atvinnurekenda að tryggja öryggi, heilbrigði og aðbúnað starfsmanna sinna, geti flutningur á ábyrgð yfir á launamanninn hvað varðar frítökurétt og vikulega frídaga falið í sér brot á viðkomandi tilskipunum og um leið á EES-samningnum.
Frá gildistöku EES-samningsins hafa fallið margir dómar hér á landi þar sem eftirá kröfum launamanna vegna ótekinna vikulegra frídaga eða uppsafnaðs frítökuréttar sem þeir vissu ekki að þeir ættu rétt til eða gerðu ekki reka að til að sækja, hefur verið hafnað vegna tómlætis. Skýrt dæmi um áhættu- og ábyrgðarflutning af þessu tagi er t.d. að finna í dómi Landsréttar nr. 815/2018 frá 3. maí 2019, fjölda dóma héraðsdóms Vesturlands frá 2. maí 2019 og í dómi Hæstaréttar nr. 31/2018 frá 27. mars 2019. Í milltíðinni féll raunar dómur þar sem ekki var byggt á tómlæti launamanns en það var í dómi Landsréttar nr. 602/2018 frá 12. apríl 2019. Í þeim dómum þar sem tómlæti var beitt er byggt á því að launamaðurinn geti sjálfur átt að stýra vinnutíma sínum og hvíld og að vanhöld á eftirliti og skráningu yfir lengri tíma geti í raun verið á hans ábyrgð.
Í ljósi þeirrar afdráttarlausu túlkunar Evrópudómstólsins sem fram kemur í dómi réttarins frá 14. maí 2019 verður að telja verulegar líkur til þess að túlkun íslenskra dómstóla á vinnutímareglum íslenskra laga um uppsafnaðan frítökurétt og vikulega frídaga, geti verið andstæð ofangreindum tilskipunum sem gildi hafa hér á landi á grundvelli EES-samningsins. Sérstaklega verður að telja dóma héraðsdóms Vesturlands ganga alltof langt í þessu efni þar sem ein regla um tómlæti er látin gilda um ólíkan kröfutíma og tómlæti beitt þó stéttarfélag starfsmannanna, Verkalýðsfélag Akraness, hafi allan tímann staðið í stappi við atvinnurekandann. Með því móti er ábyrgðin á öryggi, heilbrigði og aðbúnaði starfsmanna alfarið lögð á launamanninn en dómur Evrópudómstólsins tekur sérstaklega fram að það sé bæði ósanngjarnt og til þess fallið að draga úr því að eftir hvíldartímareglum sé farið.
Um leið og íslenskir dómstólar hafa tækifæri til þess að breyta túlkun sinni í þeim málum sem nú eru til meðferðar, hvort sem er í héraði eða á áfrýjunarstigi, hefur ASÍ ákveðið að kæra framkvæmdina hér á landi til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA. Þá mun ASÍ taka málið upp við íslensk stjórnvöld og samtök atvinnurekenda.